10.03.1983
Sameinað þing: 62. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2863 í B-deild Alþingistíðinda. (2839)

Um þingsköp

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég tel ótvírætt að þessi fsp. fjalli um afmarkað mál og fsp. hefur verið leyfð. Þess vegna ber að svara henni.

Ég get ekki komist hjá því að lesa þessar fsp. vegna þeirra svara sem ég fékk hjá hæstv. forsrh. Þetta eru tvær fsp. Önnur er svona:

„Hvað líður viðræðum milli ríkisstj. og Hafnarfjarðarkaupstaðar um hlutdeild bæjarins í framleiðslugjaldstekjum af ÍSAL. sem forsrh. lét í ljós vilja um að teknar yrðu upp að nýju í svari við fsp. hinn 4. maí s.l.?“

Hafa einhverjar viðræður átt sér stað. engar? Hvert stefnir? Ég get ekki séð annað en þetta sé mjög afmörkuð fsp.

Í annan stað: „Hefur það verið útkljáð í ríkisstj. hvort borið verði fram lagafrv. um þetta efni í samræmi við ákvæði samninga milli iðnrn. og bæjarstjórnarinnar frá því í maímánuði 1976?“

Hefur það verið útkljáð? Hefur ákvörðun verið tekin? Svarið gæti ekki verið einfaldara. Annaðhvort er það já eða nei.