10.03.1983
Sameinað þing: 63. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2863 í B-deild Alþingistíðinda. (2841)

232. mál, kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir þáltill. um kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði, sem hér er flutt í nafni ríkisstj. og er orðuð með svofelldum hætti:

„Með vísun til 3. gr. laga nr. 70 frá 7. maí 1982. um kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði. samþykkir Alþingi niðurstöðu skýrslu stjórnar Kísilmálmvinnslunnar hf.. dags. 7. jan. 1983. og ályktar að stefna eigi að gangsetningu verksmiðjunnar á árunum 1986–1988.“

Ég tel rétt að víkja að nokkrum atriðum varðandi undirbúning málsins og þá skýrslu stjórnarinnar sem er fskj. með þessari þáltill.

Það var þann 7. maí s.l. að Alþingi samþykkti lög um kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði. þar sem ríkisstj. er heimilað að stofna hlutafélag er reisi og reki slíka verksmiðju. Ríkisstj. var einnig heimilað að leggja fram 25 millj. kr. sem hlutafé.

Alþingi kaus sjö manna stjórn til eins árs og skipa hana eftirtaldir aðalmenn: Halldór Árnason iðnráðgjafi, formaður, Sveinn Þórarinsson verkfræðingur, varaformaður, Axel Gíslason framkvæmdastjóri, Eggert Steinsen verkfræðingur, Geir A. Gunnlaugsson prófessor, Geir H. Haarde hagfræðingur og Hörður Þórhallsson sveitarstjóri.

Stofnfundur félagsins Kísilmálmvinnslunnar hf. var haldinn á Reyðarfirði hinn 4. júní 1982. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins var ráðinn Egill Skúli Ingibergsson verkfræðingur frá og með 1. júlí 1982.

Í 3. gr. laga nr. 70 frá 1982 um kísilmálmverksmiðjuna segir svo:

„Áður en ráðist verður í framkvæmdir við verksmiðjuna og hlutafé félagsins aukið skal stjórn félagsins gera eftirfarandi:

a) Undirbúa frekari hönnun verksmiðjunnar og leita tilboða í byggingu hennar og búnað.

b) Gera ítarlega áætlun um stofnkostnað og rekstrarkostnað, svo og nákvæma framkvæmda- og fjármögnunaráætlun, og gera aðrar þær athuganir er máli skipta.

c) Undirbúa samninga um orkukaup, tækniaðstoð og sölu afurða verksmiðjunnar eftir því sem þurfa þykir. Stjórn félagsins skal gera skýrslu um starfsemi félagsins og athuganir og skal sú skýrsla lögð fyrir næsta Alþingi. Samþykki Alþingi niðurstöður skýrslunnar er ríkisstj. heimilt að leggja fram allt að kr. 200 millj. í hlutafé til viðbótar.“

Að þeim verkefnum sem um ræðir í þessari grein hefur stjórn og framkvæmdastjórn Kísilmálmvinnslunnar hf. unnið frá því að stjórnin var skipuð og með bréfi, sem dags. er 7. jan. 1983, sendi stjórn félagsins iðnrn. skýrslu um starfsemi þess og athuganir, sem hún hafði gert samkv. ofangreindum tilvitnuðum fyrirmælum laganna. Skýrsla þessi hafði verið samþykkt samhljóða ásamt niðurstöðum á stjórnarfundi þann 6. jan. 1983 og var hún send hv. alþm. um miðjan jan. Er skýrslan í heild fskj. með þessari þáltill. Niðurstöður skýrslunnar eru teknar inn í grg. með till., en þær eru þessar:

„Stjórn Kísilmálmvinnslunnar hf. telur á grundvelli þessarar skýrslu að:

— kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði geti verið vænlegur kostur í innlendri orkunýtingu.

— Stefna eigi að gangsetningu verksmiðjunnar á árunum 1986–1988, en allan undirbúning á næstunni beri að miða við það að fyrsti ofn hennar taki til starfa 1986.

— ákvörðun um tímasetningu innan framangreindra marka skuli tekin af stjórn félagsins á grundvelli upplýsinga um þróun markaðsmála og með hliðsjón af almennri þróun efnahagsmála í heiminum.

— auka þurfi hlutafé félagsins.

— verð raforku til kísilmálmvinnslunnar skuli vera sambærilegt og til hliðstæðra fyrirtækja.

— vinna eigi markvisst að því á næstunni að fá til samstarfs við íslenska ríkið aðra eignaraðila, innlenda og erlenda.“

Þetta voru orðréttar niðurstöður úr skýrslu stjórnar Kísilmálmvinnslunnar hf., sem stjórnin stendur óskipt að, Þegar þessi skýrsla lá fyrir og nokkru eftir að hún hafði verið send hv. þm. sneri iðnrn. sér til þingflokka með ósk um umsögn um niðurstöður skýrslu stjórnar Kísilmálmvinnslunnar hf. á Reyðarfirði, þar sem vísað var til umræddrar 3. gr. laga um verksmiðjuna og þess, að stjórnin hafi lokið þeim athugunum og undirbúningi sem henni var ætlað að annast til undirbúnings framkvæmda við verksmiðjuna. Það var lögð áhersla á það af rn. hálfu að sem víðtækust samstaða gæti tekist í þessu mikilvæga máli og óskað eftir sem bestri samvinnu við þingflokka um málsmeðferð áður en formlega yrði leitað eftir afstöðu Alþingis. Jafnframt sagði í bréfi þessu að æskilegt væri að fá fram meginviðhorf þingflokka til niðurstaðna stjórnar Kísilmálmvinnslunnar hf., sem hér var vitnað til áður, og einnig til þess að veita lánsfjármagni til verksmiðjunnar á þessu ári svo að unnt væri að miða undirbúning við að hægt væri að hefja starfrækslu 1986. Ég leitaði eftir viðhorfum þingflokka ítrekað í sambandi við þetta mál, en óskað hafði verið eftir því að þau kæmu fram ekki síðar en 5. febr. Það gerðist því miður ekki, en nokkrir þingflokkanna tjáðu sig munnlega um málið og gerðu samþykktir, án þess að ég hafi fengið þær skriflega, og lýstu yfir fylgi við að málið yrði hér lagt fyrir og næði fram að ganga varðandi ákvörðun um þessa verksmiðju. Fékk ég þau boð frá formanni þingflokks Alþfl. m.a. og einnig frá þingflokki Framsfl. og í framhaldi af því, þegar þetta lá fyrir og ekki hafði komið fram nein sérstök andstaða við framlagningu þessa máls hér inn í þingið, enda gera lögin um verksmiðjuna ráð fyrir því að málið verði hér fyrir lagt á yfirstandandi þingi, var gengið frá þáltill. í því formi sem hér er.

Herra forseti. Ég tel rétt að drepa hér á nokkur atriði í skýrslu stjórnarinnar, sem varða stöðu og framhald málsins. Í skýrslunni segir m.a.:

„Stjórnin telur störf sín hafa mótast af varfærni og hafi hún leitast við að leggja sjálfstætt mat á rekstrargrundvöll og samkeppnishæfni verksmiðjunnar og leitað til innlendra og erlendra ráðgjafa í því sambandi. Um mat á þróun markaðar fyrir kísilmálm og hagkvæmni kísilmálmverksmiðju á Íslandi sneri stjórnin sér til bandaríska fyrirtækisins Chase Econometrics, en áður hafði verkefnisstjórn iðnrn. fengið breska fyrirtækið Commodities Research Unit Ltd. til að gera sambærilega athugun.

Niðurstöður beggja þessara aðila hníga mjög í sömu átt og telja þeir að markaður fyrir kísilmálm fari vaxandi og verksmiðja á Íslandi geti í framtíðinni framleitt kísilmálm á samkeppnishæfu verði.“

Þetta var orðrétt tilvitnun úr skýrslu stjórnarinnar. Um s.l. áramót var óvenjumikil lægð á mörkuðum á málmiðnaði og hefur raunverð á kísilmálmi aldrei verið lægra en gerðist á síðasta ári, en að undanförnu hefur verið að rofa til í þeim efnum og fer verð nú aftur hækkandi. Nýjustu upplýsingar sem ég hef um þessi efni er að finna í Metal Bulletin, skráningu þess virta rits um verð á kísilmálmi þann 4. mars s.l., en þá hefur verðið hækkað frá því sem var í des. s.l. 870–900 dollarar á tonn í 970–1050 dollarar á tonn og búist er við því af sérfróðum aðilum að skráð verð fyrir næsta ársfjórðung geti orðið um 1100 dollarar á tonn. Hér eins og í áli er því um verulega jákvæða hreyfingu að ræða á verði og sama gildir um eftirspurn.

Í skýrslu stjórnarinnar segir að það sé nokkuð samdóma álit þeirra sem hún hefur leitað til að verðið muni ekki lækka frá því sem var fyrir síðustu áramót og spár um að það færi hækkandi bráðlega hafa verið að rætast. Hins vegar telur ráðgjafarfyrirtækið Chase Econometrics að það yrði ekki fyrr en á síðari hluta árs 1983 sem vart yrði við bata. Hann er þó kominn fram nú fyrr en þessir aðilar töldu, en þeir gerðu ekki ráð fyrir að verðið yrði miklu hærra á árinu 1983 en á s.l. ári og það væri fyrst 1985 sem verð hefði hækkað að marki. Allar spár eru óvissu háðar og það kann að sannast í sambandi við það sem hér er rakið. En hér er um að ræða sérfræðiaðila, sem gerst eiga að vita um þessi efni, bæði þau virtu fyrirtæki sem vitnað var til hér áðan.

Vegna hins háa verðs á orku í Evrópu og Japan á kísilmálmiðnaður þar og reyndar annar málmiðnaður mjög í vök að verjast. Sem dæmi má nefna að kísilmálmframleiðsla í Japan hefur minnkað úr 60 þús. tonnum í 12 þús. tonn á ári á skömmum tíma. Búast má við að á næstunni muni nokkrar kísilmálmverksmiðjur í Evrópu leggja upp laupana vegna erfiðrar samkeppnisstöðu, ekki síst vegna hins háa orkuverðs í Evrópulöndum. Þess má raunar sjá þegar merki að markaðsástandið, sem ríkt hefur að undanförnu, hafi flýtt fyrir þessari þróun, minnkandi framleiðslugetu verksmiðja í Evrópu og annars staðar, en í Evrópu er okkar þýðingarmesti markaður. Að mati stjórnar Kísilmálmvinnslunnar hf. styrkir það samkeppnisstöðu kísilmálmverksmiðju hér á landi.

Hvað sölufyrirkomulag varðar telur stjórn Kísilmálmvinnslunnar hf. nauðsynlegt að byggja sem fyrst upp þekkingu innan fyrirtækisins á sölu- og markaðsmálum og hefur verið að því unnið. Til að svo megi verða gerir stjórnin ráð fyrir að tveir starfsmenn í fyrirtækinu vinni við sölu- og markaðsmál, auk þess sem gert er ráð fyrir að kostnaður vegna sölu verði 3.5% af fob-verði og er það tekið með inn í hagkvæmniútreikninga.

Ráðgjafarfyrirtækið Chase Econometrics fjallar sérstaklega í skýrslu sinni til stjórnar Kísilmálmvinnslunnar um það, hvaða leið fyrirtækið eigi að velja til þess að selja afurðir sínar. Niðurstöður eru þær, að höfuðáherslu eigi að leggja á að selja til svokallaðra sílikonframleiðenda í Evrópu, en eins og hv. alþm. væntanlega hafa í minni skiptist markaðurinn fyrir kísilmálm annars vegar í sölu til álframleiðenda og hins vegar til sílikonframleiðenda og er vöxtur markaðar mjög ör hjá þeim síðar töldu. En Chase Econometrics telur að fyrirtækið eigi að hafa öfluga eigin söluskrifstofu sem selji til sílikonframleiðenda og stærstu kaupenda í áliðnaði, en til greina komi að nota umboðsmenn til að selja til smærri kaupenda. Stjórn Kísilmálmvinnslunnar telur að þegar ákvörðun Alþingis um byggingu kísilmálmverksmiðjunnar liggur fyrir eigi að kanna til hlítar þau tilboð sem borist hafa frá öðrum kísilmálmframleiðendum um sömu samvinnu. Stefnt verði að því að tryggja eðlileg áhrif kísilmálmvinnslunnar við mótun markaðsstefnu og að samband við helstu kaupendur verði tryggt og að fullt jafnræði ríki þar milli aðila.

Hvað raforkuverð snertir er í hagkvæmniathugun um kísilmálmverksmiðjuna reiknað með að orkuverðið til hennar sé um 18 mill á kwst., en 1 mill er sem kunnugt er þúsundasti hluti úr dollar og skyldi það nema því fyrstu 1–2 rekstrarár verksmiðjunnar, þ.e. eftir að Blönduvirkjun kemst í gagnið sem áættað er að verði á árinu 1987. Fram að þeim tíma er ekki hægt að mati Landsvirkjunar að afhenda fulltryggða orku og með tilliti til þess telur Landsvirkjun hæfilegt að verðleggja raforkuna til verksmiðjunnar á sem svarar 8 mill á kwst. fram til þess að Blönduvirkjun kemst í gagnið.

Í þessu sambandi má einnig benda á að ákjósanlegt er að hafa notanda eins og kísilmálmverksmiðju til staðar á Austurlandi þegar væntanleg Fljótsdalsvirkjun kemst í gagnið, en ákveðið er að hún verði næsta virkjun á eftir Blönduvirkjun og undirbúningi þannig háttað að taka mætti hana í gagnið árið 1990, ef markaðsástæður gera slíkt fýsilegt. (Gripið fram í: Sagði hæstv. ráðh. 1980?) Ég sagði: fram að þeim tíma sem Blönduvirkjun kemur í gagnið, væntanlega 1987, þ.e. fyrstu 1–2 starfsár verksmiðjunnar, sé um að ræða ótryggða orku, sem Landsvirkjun telur hæfilegt að verðleggja á 8 mill kwst., en gert er síðan ráð fyrir 18 mill á kwst. fyrir raforkuna, sem er fyllilega framleiðslukostnaðarverð.

Varðandi búnað fyrir verksmiðjuna hafa tvö fyrirtæki, Elkem AS í Noregi og Mannesman Demag í Þýskalandi, gert tilboð í vélbúnað verksmiðjunnar og lá það fyrir í apríl 1982. Af hálfu Kísilmálmvinnslunnar hf. hefur verið farið ítarlega yfir þessi tilboð og haldnir hafa verið fjölmargir fundir með framleiðendum um fyrirkomulag og gæði tækjabúnaðar. svo og almenn samningsskilyrði. verð og greiðslufyrirkomulag, tryggingar og ábyrgðir. Tekist hefur að fá verulegar lækkanir á upphaflegum verðtilboðum frá þessum fyrirtækjum. Stjórn Kísilmálmvinnslunnar hf. telur mikilvægt að ganga sem fyrst frá samningum um kaup á vélbúnaði fyrir verksmiðjuna til að tryggja það hagstæða verð sem nú er í boði og er gert ráð fyrir að unnt sé að ganga frá slíkum samningum, þótt með fyrirvara sé varðandi samþykki Alþingis um framkvæmdir við verksmiðjuna. Verðlækkun frá upphaflegum tilboðum í vélbúnaðinn er veruleg og hefur hagstæð áhrif á heildararðsemi verksmiðjunnar.

Einn af kostum við kísilmálmframleiðslu er sá, að hráefni til hennar eru auðfengin. Sem kunnugt er eru helstu hráefni: kvarts í háum gæðaflokki, kol, olíukoks og trékurl. Fjölmörg tilboð hafa borist í allt hráefni og virðist ekkert vera því til fyrirstöðu að hægt sé að gera langtímasamninga um hráefni hvenær sem er.

Tækni við kísilmálmframleiðslu er vel þekkt og ekki eru talin vandkvæði á að ná tökum á henni. Í því sambandi er ráðgert að gera samning við ofnaframleiðanda um að sérfræðingar frá honum hafi umsjón með byggingu ofnanna og rekstri, uns fullum afköstum er náð. Að því loknu verði gerður gagnkvæmur tæknisamvinnusamningur við annan framleiðanda og komið verði upp sérstakri tækni- og þróunardeild hjá fyrirtækinu.

Áætluð heildarfjárfesting í kísilmálmvinnslunni er samkv. yfirliti, sem ég hef fengið frá fyrirtækinu miðuð við 1. febr. s.l.. 63.7 millj. Bandaríkjadala, en það er á núverandi gengi rétt um 1300 millj. kr. og eru þá ekki innifaldir vextir af stofnlánum á byggingartíma.

Það er rétt að upplýsa það í þessu sambandi, að þegar málið var lagt hér fyrir í fyrra, undirbúið af verkefnisstjórn á vegum iðnrn., var áætlun um stofnkostnað verksmiðjunnar án vaxta á byggingartíma 77 millj. Bandaríkjadala. Í haust eða 1. okt. gerðu útreikningar á tilboðum ofnaframleiðenda og aðrir útreikningar ráð fyrir að stofnkostnaður væri 70.6 millj. dala, en síðan hafa þeir sem boðið hafa í framleiðslu á ofnum lækkað sín tilboð stig af stigi og ákveðið var af stjórn fyrirtækisins að ganga til samninga við vestur-þýska fyrirtækið Demag. Nú er sem sagt áætlaður stofnkostnaður 63.7 millj. dala. Lækkunin á stofnkostnaði frá því sem var í fyrra, þegar málið var lagt fram, er því um 13.3 millj. Bandaríkjadala eða 273 millj. kr. á núverandi gengi.

Þessu valda margar ástæður, eflaust samverkandi. Bæði hefur verið mjög hörð samkeppni milli þeirra aðila sem boðið hafa í búnað verksmiðjunnar og auk þess mun sú efnahagslægð, sem staðið hefur yfir undanfarin misseri, hafa valdið því að þeir hafa séð sér hag í að bjóða verðið niður frá því sem áður var í þeim frumtilboðum sem lágu fyrir í apríl 1982.

Þá hefur stjórn fyrirtækisins haft til athugunar ýmsar fjármögnunarleiðir og kannað þær við bankastofnanir og tækjaframleiðendur og rætt þær við rn. og bankastofnanir, bæði hér og erlendis. Er ekki ástæða til að fara ítarlega út í það hér. Það liggur þó fyrir að æskilegt er, til þess að fá sem hagstæðust fjármögnunarkjör, að ríkisábyrgð sé fyrir lánum til verksmiðjunnar, en það er mál sem er á athugunarstigi. Samkv. lögum um fyrirtækið er heimild fyrir utan hlutafé að veita ríkisábyrgð, ef ég man rétt, fyrir um þriðjungi af stofnkostnaði fyrirtækisins.

Að umhverfisvernd vegna þessa fyrirtækis hefur verið hugað allt frá því að undirbúningur hófst. Fljótlega eftir stofnun Kísilmálmvinnslunnar hf. var haft samband við Heilbrigðiseftirlit ríkisins og Náttúruverndarráð og leitað eftir samstarfi um nauðsynlegar rannsóknir. Til að undirbúa og hafa umsjón með þeim rannsóknum var sett á fót nefnd þriggja manna frá þessum aðilum, þ.e. frá Hollustuvernd ríkisins, Náttúruverndarráði og Kísilmálmvinnslunni hf., og sótt hefur verið um starfsleyfi fyrir verksmiðjuna til Heilbrigðiseftirlits ríkisins, raunar þegar 29. júní s.l.

Þar til fyrir nokkrum árum var ryk sem myndast við framleiðslu kísilmálms látið berast með lofti út í umhverfið. Var mikið angur af þessu og óþægindi, þar sem engar mengunarvarnir voru, en svo háttaði til t.d. í Noregi við slíka framleiðslu allt frá því snemma á öldinni og þar til 1974–1975 að mengunarvarnabúnaður hafði verið þróaður. Nú er það svo, að við þetta fyrirtæki eru gerðar mun strangari kröfur um umhverfisvernd, ekki síður en við járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga, og þar þarf verulegu til að kosta að hreinsa rykið úr útblástursloftinu. Síðan var gert ráð fyrir að urða það, en fyrir nokkrum árum kom í ljós að hægt er að nota þetta ryk til ýmissa hagnýtra þátta, t.d. til að bæta steypu með því að blanda ryk þetta í sement. Það hefur verið gert raunar með kísilryk frá járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga með góðum árangri. Rannsóknir síðustu ára hafa leitt í ljós kosti slíkrar íblöndunar kísilryks.

Jafnframt slíkum rannsóknum á notagildi ryks til sementsíblöndunar eru aðrar leiðir til notkunar þess í athugun og flest bendir til að þarna geti verið um allverðmæta hliðarframleiðslu að ræða. Kísilmálmvinnslan hf. hefur gert samning við Iðntæknistofnun Íslands um athugun á notagildi kísilryks og líklega þróun markaðar fyrir það. Athuganirnar sýna að stöðugt eru ný notkunarsvið að bætast við. Markaðsverð á kísilryki í Danmörku er nú um tvöfalt verð á sementi, en líklegt er talið að innan 2–5 ára nái það þreföldu til fjórföldu sementsverði. Af þessu er ljóst að sala á kísilryki getur orðið nokkur tekjulind fyrir verksmiðjuna og til viðbótar sölutekjum kemur sparnaður sem því fylgir að þurfa ekki að urða rykið. Þó ber að hafa í huga að flutningskostnaður á því á markað til Evrópu væntanlega verður umtalsverður, ekki síst vegna þess að það er allrúmfrekt.

Herra forseti. Ég hef hér í stuttu máli gert grein fyrir till. til þál. um kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði og treysti því að hv. alþm. hafi kynnt sér vendilega þá skýrslu, sem stjórn fyrirtækisins skilaði iðnrn. og send var hv. alþm. um miðjan jan., og þeir séu þannig vel undir það búnir að taka afstöðu til þessa máls. Ég veit að stjórn verksmiðjunnar hefur farið mjög vandlega yfir alla þætti, sem snerta mál þetta, gagnrýni, frá þeim undirbúningi sem fyrir lá þegar lög voru sett um verksmiðjuna og fyrirtækið var stofnað, og þó að einstakir stjórnarmenn geri aths. í bókunum sem fylgja þessari skýrslu stendur stjórnin í heild að þessari skýrslu og hefur samþykkt niðurstöður hennar, sem ég vitnaði hér til. Það má því fullyrða að bygging og væntanlegur rekstur kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði eru betur undirbúin en almennt hefur gerst um fjárfestingar í atvinnufyrirtækjum hér á landi og skiptir það að sjálfsögðu miklu máli þar sem hér er um stóra framkvæmd að ræða, ekki síst á okkar mælikvarða.

Þannig hafa verið gerðar, eins og hér hefur komið fram, tvær óháðar athuganir á arðsemi verksmiðjunnar. Fyrri athugunin, sú sem unnin var á vegum iðnrn., lá til grundvallar setningu laga um verksmiðjuna í fyrra og samkv. henni var arðsemi af heildarfjárfestingu áætluð 10.4% miðað við 20 ára endingartíma. Seinni athugunin, sem unnin var á vegum stjórnar Kísilmálmvinnslunnar hf., liggur til grundvallar þessari þáltill., en samkv. henni og miðað við svokallaða varfærna spá ráðgjafa eins og Chase Econometrics varðandi verðþróun á kísilmálmi er gert ráð fyrir 11.2% arðsemi eða afkastavöxtum, eins og kallað mun vera. Þetta er þannig heldur meiri arðsemi en gert var ráð fyrir á síðasta ári í grg. með frv. til l. um verksmiðjuna, og á grundvelli aðalspár sama ráðgjafarfyrirtækis varðandi verð og markaðsþróun áætlar stjórn verksmiðjunnar að arðsemi heildarfjárfestingar eða afkastavextir í verksmiðjunni verði 13.5%. Það er athyglisvert að heildarniðurstöður beggja þessara athugana eru mjög svipaðar þó að nokkur mismunur sé á einstökum þáttum.

Alþingi setti á síðasta þingi lög um kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði. Í lögum þessum var sá fyrirvari að Alþingi fengi málið til umfjöllunar á yfirstandandi þingi. Það má fullyrða að þrátt fyrir þá lægð sem verið hefur í efnahagsstarfsemi iðnríkja og tekið hefur verið tillit til, eftir því sem föng eru á og eftir því sem menn frekast sjá fram í tímann, séu horfur varðandi þetta fyrirtæki nú metnar betri en þegar málið var lagt fyrir Alþingi í aprílmánuði 1982.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. hér, en mér skilst að gert sé ráð fyrir tveimur umr. um málið, verði till. vísað til hv. atvmn. þessarar deildar.