10.03.1983
Sameinað þing: 63. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2871 í B-deild Alþingistíðinda. (2844)

Um þingsköp

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Mér er óskiljanlegt hvernig stendur á því að forseti skuli nú rjúfa þessa umr. og leyfa aðeins tveimur Austfirðingum að tala, umr. sem ég átti satt að segja alls ekki von á, að forseti leyfir sér að fresta umr. eftir að aðeins eitt sjónarmið hefur komið fram í málinu. Ég held að hæstv. forseti ætti að rúlla rólega í gegnum þingsköp Alþingis og athuga hvort þar sé hvergi minnst á að gagnkvæm sjónarmið eigi að koma fram í málum. Forseti hefur t.d. leyfi til þess að gefa mönnum orðið eftir þeirri röð sem honum sýnist, ef það verður til þess að menn fái að heyra fleiri en eina skoðun og fyrst og fremst mismunandi skoðanir á hlutunum. Mér er ekki kunnugt um að mælendaskrá sé löng hjá forseta og sé þess vegna enga ástæðu til að það séu gerðar tilraunir með þessum leiðinlega hætti til að þagga niður í þeim sem hafa aðrar skoðanir á þessu. Mér finnst þetta aðfinnsluvert og því óskaði ég eftir því að fá að segja hér nokkur orð.