10.03.1983
Sameinað þing: 63. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2872 í B-deild Alþingistíðinda. (2846)

Um þingsköp

Forseti (Jón Helgason):

Ég hafði gert ráð fyrir því á fundi á þriðjudag að þessi till. yrði tekin til umr. Iðnrh. óskaði þá eftir því að 17. dagskrármáli yrði frestað, jafnvel þótt tími yrði til að ræða það. Ég varð við þeirri ósk, beitti þar mínu forsetavaldi til að lýsa því yfir að þessi till. yrði ekki til umr. enda þótt óskað væri eftir og tími yrði til. Þetta er eina málið á dagskránni sem ég hef farið þannig með.

Síðan hefur það gerst að sá óvanalegi máti hefur verið hafður á flutningi þáltill. um frestun á samkomudegi Alþingis að þær hafa verið fluttar í báðum deildum. Í fréttum er flutt sú skýring að í deildum séu góðir menn forsetar, Helgi Seljan og Sverrir Hermannsson, en framsóknarþm. Jón Helgason forseti Sþ. og það gæti haft áhrif á gang mála. (GS: Í hvaða fréttum var þetta forseti?) Í sjónvarpi og blöðum. Eftir að hafa fengið þær ákúrur að hafa misnotað mitt vald með því að fresta máli læt ég það ekki gerast aftur og þess vegna ákveð ég að taka þetta mál fyrir.