10.03.1983
Sameinað þing: 63. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2872 í B-deild Alþingistíðinda. (2847)

Um þingsköp

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég verð því miður að lýsa undrun minni og vissri hryggð yfir þeim ummælum hæstv. forseta, sem komu fram úr forsetastól hér áðan, að ummæli blaðamanna og ótilgreindar fréttir í fjölmiðlum, — sem ég hef nú satt að segja ekki séð, heyrði að vísu fréttamann sjónvarps fjalla um þetta atriði í gærkvöld, en hef ekki séð neitt í blöðum um þetta efni sem hann vék að, — séu á einhvern hátt tengd því að hann tekur hér fyrir 17. mál, viðræðunefnd við Alusuisse, rétt eftir að umr. um kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði er hafin.

Ástæðan fyrir því að nm. Sjálfstfl., Alþb. og Alþfl. í Ed. og Nd. flytja í deildum till. til þál. um samkomutíma Alþingis að loknum kosningum er á engan hátt vantraust á hæstv. forseta Sþ., Jón Helgason, hvað þá heldur að sú ákvörðun hafi nokkuð með það að gera að hæstv, forseti er félagi í Framsfl. Og mér þykir mjög leitt að heyra ummæli fréttamanna, sem eru flutt á þeirra ábyrgð og mér er ekki kunnugt um að nokkur maður hafi staðfest hér innan þings eða látið frá sér fara. Ég tek að vísu fram að ég hef ekki grandskoðað blöðin í dag. en við fljótan lestur sá ég ekki að að þessu væri vikið sérstaklega í blöðum. Það má þó vera að svo sé. en að það verði til þess að hæstv. forseti fari að láta slík ummæli frétta- og blaðamanna hafa áhrif á fundarstjórn sína gagnvart hv. alþm. er lakara, og mikið er þá vald þeirra manna orðið, sem sitja hér daglega í stúku fjölmiðlamanna og flytja af þinginu fréttir og túlka störf þess. þegar hæstv. forseti ber fyrir sig lausafréttir í sjónvarpi og blöðum þegar hann er krafinn skýringa á ákvörðunum sínum um meðferð dagskrár hér á Alþingi.

En fyrst hæstv. forseti hefur gert þessi fjölmiðlaummæli að umræðuefni úr forsetastól og nefnt það sem meginskýringu á ákvörðunum sínum um dagskrá tel ég alveg nauðsynlegt að láta það koma fram hvers vegna þessar tillögur eru fluttar í deildum þingsins til þess að fyrirbyggja allan misskilning. Mér þykir mjög leitt að þessar fjölmiðlafréttir skuli hafa haft þau áhrif á hæstv. forseta sem raun ber vitni. Skýringin á því hvers vegna þessar tillögur eru fluttar í Ed. og Nd. þingsins er fyrst og fremst fólgin í því, að upphaflega var það ætlun flokkanna sem að þessu stóðu að flytja í deildum þingsins í tengslum við umr. um frv. til breytingar á stjórnarskránni... (Forseti: Þetta er um þingsköp.) Já, ég er að skýra það, hæstv. forseti, og vona að hæstv. forseti vegna sinna eigin orða forláti mér þó að ég vilji skýra frá hinu rétta og eðlilega í þessu máli. Ég tel það reyndar óhjákvæmilegt vegna orða hans áðan. — Ástæðan er sú, að það hafði verið um það rætt af hálfu þessara þriggja flokka að flytja í tengslum við frv. til breytingar á stjórnarskrá annað frv. í deildum þingsins um samkomudag Alþingis að loknum kosningum. Þessi skoðun var tilkynnt fulltrúum Framsfl., sem áttu sæti í sameiginlegum nefndum beggja deilda um stjórnarskrármálið, og þessi ákvörðun var einnig tilkynnt formanni Framsfl. á fundum formanna flokkanna fyrir alllöngu, þannig að sú ákvörðun að flytja þetta mál inn á þingið getur ekki með neinum hætti komið þm. Framsfl. á óvart.

Það var í upphafi ætlunin að flytja sérstakt frv. í deildum þingsins um þetta efni. En þegar málið var skoðað nánar kom í ljós að með slíku frv. hefði þurft að binda eðli þess þings við að vera reglulegt Alþingi, þar eð frv. um aukaþing... (Forseti: Ég vil biðja þm. að stytta mál sitt.) Já, herra forseti, ég skal gera það. En ég er að rekja þetta nákvæmlega til að forða því að hæstv. forseti sé að láta einhver ógætileg ummæli fjölmiðlamanna utan þings hafa áhrif á fundarstjórn sína hér á Alþingi. (Gripið fram í: Var það ekki þm. sjálfur sem sagði þetta?) Nei, þm. sagði þetta ekki sjálfur. Ég vona að menn virði mér þetta til vorkunnar því að hæstv. forseti hefur gefið mér þá einu skýringu á breyttri fundarstjórn sinni að fjölmiðlamenn hafi verið að gefa til kynna eitthvert vantraust á hæstv. forseta. Ég er að fyrirbyggja að virðulegur forseti Sþ. trúi því að um slíkt vantraust sé að ræða og er þess vegna að rekja mjög nákvæmlega ástæður og aðdraganda málsins og ég skal ljúka því á fáeinum mínútum, herra forseti.

Það kom í ljós við nánari athugun málsins að með því að flytja frv. um samkomudag Alþingis hefur orðið að ákveða að slíkt væri reglulegt þing. Menn vildu hins vegar ekki binda það með slíkum hætti hvort heldur væri og töldu þess vegna eðlilegt að um viljayfirlýsingu væri að ræða. Þar sem upphaflega hafði verið rætt um það á sameiginlegum fundum stjórnarskrárnefndar beggja deilda að þetta mál yrði flutt inn í deildirnar, þá fannst okkur eðlilegast að halda því striki og flytja málið í formi þáltill. í deildum, einkum og sér í lagi til að staðfesta það, sem var tilkynnt fyrir röskri viku, að það yrðu stjórnarskrárnefndarmenn flokkanna í báðum deildum sem mundu flytja þetta mál á sínum vettvangi. Það er til að tengja þessa ákvörðun við uppruna hennar, þ.e. starfið í stjórnarskrárnefndum deildanna, sem sú ákvörðun var tekin að flytja þetta sem þingdeildarmál og ennfremur vegna þess að í deildum þingsins fer fram umr. um stjórnarskrármálið og stjórnarskrárbreytinguna en ekki í Sþ. og ákveðið hafði verið að flutningur þessa máls yrði í beinum tengslum við það frv. Auðvitað má halda því fram að það hefði fyllilega komið til greina að flytja þetta í Sþ., það segir sig sjálft, en það hafa verið deildir þingsins sem hafa verið umræðuvettvangur um þetta efni á undantörnum vikum og verða það til loka þessa þings. Það voru stjórnarskrárnefndarmenn í deildum sem tilkynntu þessa ákvörðun. Þess vegna fannst okkur eðlilegt að þeir fylgdu málinu eftir til loka.

Þetta vildi ég láta hér koma fram, herra forseti, vegna þess að ummæli hæstv. forseta hér áðan, að þátttaka hans í Framsfl. og störfum þingflokks Framsfl. væri ástæðan fyrir því að þetta væri flutt í deildum, geta leitt til mjög leiðs misskilnings hér innan þings. Ég varð satt að segja mjög undrandi á því að heyra það úr forsetastól fyrir nokkrum mínútum að skýringin á því að umr. um kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði er rofin eftir tvær ræður og hafin umr. um viðræðunefnd við Alusuisse sé sú, að till. til þál. um samkomudag Alþingis eftir kosningar hafi verið fluttar í deildum þingsins og fjölmiðlar hafa túlkað það atriði með þeim hætti sem virðist hafa sært hæstv. forseta. Ég vona að þessar skýringar nægi hæstv. forseta, vona af heilum huga að svo sé, og hann láti ekki ummæli fjölmiðla hafa slík áhrif á fundarstjórn sína eins og raun ber vitni. Það væri slæmt ef við ættum að láta allt það sem um okkur er sagt í fjölmiðlum hafa mikil áhrif á hvað við segjum og gerum hér í þinginu.

En ég vil ítreka hins vegar að lokum, herra forseti, þá ósk mína að það verði upplýst hvaða þm. það voru sem óskuðu eftir því að till. um viðræðunefnd við Alusuisse yrði tekin á dagskrá nú inn í umr. um kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði vegna þess að það var ekki upplýst áðan í orðum hæstv. forseta.