10.03.1983
Sameinað þing: 63. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2875 í B-deild Alþingistíðinda. (2849)

Um þingsköp

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það kom fram í orðum forseta áðan að hv. þm. Friðrik Sophusson hefði óskað eftir því að taka þetta mál á dagskrá og hæstv. forseti gaf honum orðið síðan. Ég vil spyrja hæstv. forseta: síðan hvenær er hv. þm. Friðrik Sophusson 1. flm. þessarar till. og hvar stendur það í þskj.hv. þm. Friðrik Sophusson hafi orðið fyrir hönd þess fríða hóps sem stendur að þessari till.? (HÁ: Það er bókað í atvmn.) Þá er rétt að sú gjörðabók sé borin inn í þingsalina og kynnt fyrir þingheimi. En það hefur kannske verið eitthvað feimnismál að hv. þm. Halldór Ásgrímsson skyldi velja Friðrik Sophusson sem talsmann sinn í þessu máli, vegna þess að það er ekki prentað í þskj. og það stendur hvergi í þskj. hver er 1. flm. eða frsm. þessa máls. Hins vegar stendur hér efstur á blaði höfuð og leiðtogi þessarar sveitar, hv. þm. Eggert Haukdal. Hvers á hann að gjalda? Af hverju fær hann ekki að mæla fyrir þessu máli? Hann er fyrstur á þessu blaði. (FrS: Hann er formaður nefndarinnar.) Formaður n., já. Af hverju fær hann ekki að njóta tignarinnar? Ef það er bókað í fundargerðabók atvmn. að hv. þm. Friðrik Sophusson eigi að vera frsm. fyrir n., en það er ekki birt í þskj., þá er það í fyrsta sinn svo ég viti til sem því er undan skotið í prentun þskj. hver sé framsögumaður. (SvH: Þú þekkir bara svo illa til þingstarfa.) Við skulum nú vona að þjóðin fái ekki margar sýnikennslur eins og voru í fundarstjórn Nd. í gærkvöld.

Ég dreg það fyllilega í efa; herra forseti, að það hafi verið ákveðið af meiri hl. atvmn. að hv. þm. Friðrik Sophusson eigi að vera frsm. Það stendur hvergi í þskj., sem væri sjálfsagt og eðlilegt. Þar sem ég og fleiri draga í efa að hv. þm. Halldór Ásgrímsson og hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson hafi virkilega falið varaformanni Sjálfstfl. að vera málsvari sinn í þessu máli — ég trúi því hins vegar upp á hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson — óska ég eftir því að við fáum fram með formlegum hætti í gerðabók atvmn. að hv. þm. Friðrik Sophusson hafi verið valinn frsm. meiri hl.

Þetta þskj. hefur einu sinni verið prentað upp vegna þess að meiri hl. n. láðist að láta þess getið hverjir væru flm. að þessari nýju till. sem hér á að ræða. Það er venja þegar um nýjar till. er að ræða, herra forseti, að sá sem efstur er á blaði sé frsm. Þessi till. er meðhöndluð hér í þinginu af hæstv. forseta eins og um nýja till. sé að ræða. Það hefur verið farið með hana þannig hér í þingsköpum og þess vegna fara fram tvær umr. um tillöguna. Það er almenn regla í þingsköpum að 1. flm.till. sem lagðar eru fram með þessum hætti sé jafnframt frsm. fyrir þeim.

Ég dreg t.d. í efa að hv. þm. Eggert Haukdal hafi afsalað sér þessum rétti. Það væri mjög fróðlegt að fá hann upp í ræðustólinn og láta hann staðfesta að hann hafi afsalað sér þessum rétti. Ég sé ekki hvers vegna forseti lætur hv. þm. Friðrik Sophusson komast upp með þessa frekju að ryðja sér fram fyrir menn og krefjast þess að fá að mæla fyrir þessu máli. Það stendur hvergi að hann eigi að gera það. Ef það hefur verið bókað í fundargerðabók atvmn. er best að sú bók verði borin hingað inn. Annars er það algert brot á öllum þingvenjum að hv. þm. Friðrik Sophussyni verði leyft það.

Þetta er ný till. Hún hefur marga flm. og þeir eru í ákveðinni röð. En það væri líka mjög fróðlegt að fá það fram, þó að það hafi að vísu komið fram í frammíkalli frá hv. þm. Halldóri Ásgrímssyni, að varaformaður Framsfl. hafi falið varaformanni Sjálfstfl. að vera talsmaður sinn í þessu máli. (Gripið fram í: Ég get nú talað fyrir mig sjálfur.) Það virtist ekki í þessu máli að hv. þm. geti talað fyrir sig sjálfur vegna þess að hann hefur valið hv. þm. Friðrik Sophusson til þess að gera það. Það hefði einhvern tíma þótt saga til næsta bæjar þegar ég var í Framsfl. að efsti maður á framboðslista Framsfl. á Austurlandi, maðurinn sem skipar sæti Eysteins Jónssonar, skyldi velja varaformann Sjálfstfl. til að vera talsmann sinn í málefnum Alusuisse. Það hefðu a.m.k. þótt tíðindi í Framsfl. (Forseti: Þetta er um þingsköp.) á áratugnum milli 1960 og 1970, þegar Eysteinn Jónsson háði hér harða baráttu gegn Alusuisse í þingsölum og utan og naut til þess stuðnings núv. formanns þingflokks Framsfl. (Gripið fram í.)

Herra forseti. Ég skal fara að ljúka þessu, þótt ég verði að játa það að þessi órólegu frammíköll hjá efsta manni á framboðslista Framsfl. á Austurlandi hafi vakið upp nokkrar minningar um hvernig þeir sem eitt sinn skipuðu það sæti töldu réttast að halda á baráttunni gegn Alusuisse og hvernig þeir sem nú skipa forustusæti Framsfl. á Austurlandi telja það sér við hæfi að vera aftaníossar varaformanns Sjálfstfl. í þessu máli.