09.11.1982
Sameinað þing: 15. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 500 í B-deild Alþingistíðinda. (285)

51. mál, vélhjólaslys

Helgi Seljan:

Herra forseti. Á þskj. 52 hef ég leyft mér ásamt hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur að flytja svohljóðandi till. til þál.:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að gera ítarlega könnun á tíðni, orsökum og afleiðingum vélhjólaslysa í umferðinni. Könnunin skal unnin á vegum heilbrmrn. og dómsmrn. Skal áliti skilað í skýrsluformi til næsta reglulegs Alþingis ásamt meðfylgjandi tillögum um fyrirbyggjandi aðgerðir.“

Till. þessi er af hálfu okkar flm. flutt til þess annars vegar að vekja athygli löggjafans á vandamáli, viðkvæmu og erfiðu að vísu, og hins vegar ef verða mætti til þess að leiðir fyndust að því marki að fyrirbyggja slys þessi svo sem í mannlegu valdi stendur.

Svo hörmulega vill til að frá því að þessi till. var lögð fram fyrir tveimur vikum eða svo hafa orðið hin válegustu tíðindi tengd þessum farartækjum, banaslys þar sem tvö ungmenni létu lífið og stórslys þar sem enn sér ekki fyrir endann á afleiðingunum. Raunar hafa umferðarslysin yfirskyggt allar aðrar fréttir svo síðustu vikur að vart verður um þennan einangraða þátt rætt án þess að fleira komi þar inn í myndina.

Í grg. með till. er minnt á umræður sumarsins um vélhjólaslys og afleiðingar þeirra, umræður sem læknar stóðu fyrir, þeir sem gerst þekkja og best vita hversu alvarleg slys þessi eru, þó ekki sé um banaslys að ræða. Fórnarlömb slysanna, þeir sem langtímum saman gista sjúkrahús og endurhæfingarstöðvar, þeir sem í einni andrá verða öryrkjar ævilangt og læknarnir eru í nánastri snertingu við fyrir utan vandamenn, gleymast oft, enn frekar af því að fréttin var ekki um banaslys, og eru þau þó allt of mörg og ekki úr þeim dregið.

Í grg. er einnig til þess vitnað að flutningsmenn muni leiða fram vitnisburði lækna og lögreglu og vissulega væri það hægt, af nógu er að taka, en ég hef a.m.k. valið þann kost, eftir að hafa verið svo óþyrmilega minntur á harmþrungna atburði þessu tengda á síðustu dögum. að halda hér eins stutta framsögu og mögulegt er, varpa fram nokkrum spurningum til íhugunar um leið og málið er reifað í heild, umferðarmál almennt tekin til meðferðar, þó stiklað sé á því stærsta. Svo fersk eru þessi atvik og ógnvekjandi að vitnisburðir og tölvísinni bæta þar engu við, hvað þá að þeir bæti það sem aldrei verður bætt.

Umferðarmenning er orð sem oft heyrist, er þó í raun aðeins fallegt urð, en innihaldslaust sakir þess að svo fjarri eru umferðannál okkar einhverri menningu sem hugsast getur. Við eigum mikið af ökutækjum,við nýtum þau ótæpilega, en umfram allt virðumst við ekki kunna með þau að fara. Stundum eru ytri aðstæður orsakavaldar, en miklu oftar er það þó eigin sök sem mestu veltíur. Ökuhraði er gífurlegur og jafnvel í iðandi umferð borgarinnar má sjá akstur sem meira líkist ökukeppni eða ofdirfskukeppni en nokkru öðru. Búnaður ökutækja er oft með eindæmum og kæruleysi þar yfirþyrmandi, jafnvel þó um veigamestu atriði sé að ræða.

Ástand ökumanna er alltof oft með þeim hætti að hreinni vá er boðið heim og er furða að ekki hljótast þó af enn verri og fleiri slys en raun ber vitni. Og kæruleysið og tillitsleysið er svo algert oft og tíðum að andrum sætir. Nokkrar sekúndur í tíma til eða frá ráða meira um aksturslag en tillit til aðstæðna. Mönnum liggur óskaplega á, og eflaust má rekja mörg slysin og óheppnina til þess álag, streitu og þreytu sem einkennir okkar þjóðlíf öðru fremur, en þó held ég að tillitsleysið og forgangsfíknin séu vítaverð. Ekki eiga ökumenn þar alla sök því gangandi vegfarendur eru oft með ólíkindum óvarkárir, jafnvel svo að ekkert er um umferðarljós skeytt, aðeins bandað hendi við bifreið, þó í fullum rétti sé. — Ég sagði víst í fullum rétti, en þar er einmitt komið að alvarlegum hluta þessa máls. Einn þáttur tillitsleysis er sá að eiga skilyrðislaust réttinn. Hversu skammt dugar að hafa átt réttinn þegar slysið er orðið, og stundum getur það orðíð í hinsta sinn sem hinn óskoraði réttur er nýttur.

Menn spyrja eðlilega hvað valdi þessum firnum. Er þetta viss eðliskostur eða réttara sagt ókostur, skortir betri fræðslu um hvert hættutæki menn eru með í höndum sér eða eiga ekki fullvita menn að gera sér þess grein án einhvers lærdóms? Er skortur á eftirliti og er agaleysið í þjóðlífinu almennt að endurspeglast þarna í sinni alvarlegustu mynd? Og hvað megnar fræðsla og eftirlit þegar út í alvöruna er komið, þegar forgangsréttur og flýtisspurning ráða ríkjum? Er skoðun leigubílstjórans rétt, sem ekið hefur í 40 ár og sagði við mig að alltof vægt væri á öllum þáttum þessa máls tekið og viðurlög öll væru hláleg miðað við það hvað í húfi gæti verið, eða er það skoðun lífsreynda lögregluþjónsins sem gildir ein, það er að alger hugarfarsbreyting sé ein fær um að draga svo nokkru nemi úr hryllingsmyndunum sem blasa alls staðar við? Hann nefndi umferðarhelgina mestu á sumrin sem dæmi, þ.e. verslunarmannahelgina, þegar menn væru einhverra hluta vegna betur á varðbergi, hugsuðu meira um öryggi sitt og annarra með gleðilegum árangri. Frekari vangaveltur skulu ekki hafðar almennt hét uppi, enda vita allir hér jafn vel og ég um það sem hér er sagt.

En hvað þá um vélhjólaslysin og hvers vegna þau alveg sérstaklega og hversu réttmæt eða árangursrík er sú aðferð sem till. gerir ráð fyrir, þ.e. könnun ráðuneyta og vandleg athugun þar til valinna aðila sem á þá samkvæmt till. að leiða til ákveðinna hugmynda og úrræða til að fyrirbyggja og verjast voðanum sem augljós er?

Nú skal það skýrt fram tekið að flm. er ekki bann í huga, enda þyrfti þá viðar að að huga og enda ómögulegt að taka á neinn hátt á málinu með því að hugsa sér þá leið að hanna þessi farartæki með öllu. Þær hugmyndir komu þó vissulega fram í sumar og þá frá þeim sem nánast vita um voveiflegar afleiðingar slysanna. Og þykir nokkrum mikið þó sú hugmynd komi fram frá þeim sem magnþrota stendur andspænis örkumlum og meira og minna glötuðu lífi? En raunsæið segir okkur að þrátt fyrir allt sé þetta ekki kleift. Annarra, og ég vil segja allra annarra, tiltækra ráða á að leita. Hver eru þau ráð og hvernig á að beita þeim? Við því hef ég engin bein svör eða við flm. frekar en gagnvart umferðinni almennt, en þó veit ég að hv. 2. flm. þessarar till. er hér með upplýsingar um annarra þjóða reynslu, sem vissulega eru mikillar athygli verðar. Ég vildi hér aðeins benda á fáein atriði:

Í fyrsta lagi kennsluþáttinn: Hann er vægast sagt ekki sá sem hann ætti að vera. Sumir telja kennsluna litið meira en stimpil um rétt til aksturs á vélhjóli, en allar leiðbeiningar varðandi umferð, varðandi ökutækið og raunhæf kennsla í heild eru ekki til staðar. Á þessum vettvangi ber að gera stórátak, því ófyrirgefanlegt er að nýta ekki til fullnustu þá möguleika sem góð leiðsögn í upphafi á að geta gefið sem veganesti. Ákveðin kennsluskylda er því eins sjálfsögð og varðandi bifreiðina, þó ætíð sé hægt að segja að góður vilji geri þar litla stoð.

Þá er það spurningin um aldurinn. Æ ofan í æ hefur sú spurning leitað á huga minn hvort hér væri ekki rétt að miða við sömu aldursmörk og varðandi bifreiðar og er þó vægast sagt umdeilt hversu réttmætt sé að 17 ára aldur gildi þar. Ekki ætla ég neinn dómari að gerast. en á 15 ára aldursskeiði er unglingurinn oftast í mestri mótun, uppreisnarhneigð og mótþrói eru þá e.t.v. mest og aldrei er löngunin meiri en þá til ofurmennskunnar og þá um leið fífldirfskunnar, þó að segja megi að misjafnt sé og af sumum eldist slíkar hneigðir aldrei. Aldursmarkið þarf a.m.k. að taka til nánari athugunar í tengslum við fræðsluþáttinn.

Þá eru það sérreglur í umferðinni, m.a. varðandi hraða, sem margar þjóðir hafa tekið alveg sérstaklega fyrir til að sporna við fótum og forðast hætturnar sem mest. Hér þarf a.m.k. að huga betur að en gert er. Í dag gildir í raun sama um vélhjól og bifreiðar og er þá enn að vandanum komið: Eitt er að setja reglur og annað að halda þær.

Eftirlitsþátturinn er auðvitað mikils virði, að hann sé virkur og taki til sem flestra þátta. Eftirlit með vélhjólum og búnaði þeirra er vægast sagt ekki mikið, en það segir ekki mikið heldur því skoðun bifreiðar einu sinni á ári gefur ekki mikla hugmynd um ástand hennar á hverjum tíma, svo sem menn þekkja, og skyndiskoðanir breyta ekki miklu. Það ætti í raun að vera kappsmál eiganda og ekils að allt væri í fullkomnu lagi, en trassaskapur er í þessu efni algengari en aðgæslan þó menn viti um hverjar afleiðingarnar kunni að verða. Eftirlit í umferðinni sjálfri er hvergi nærri nóg og skal þar ekki þeim um kennt sem það annast. Hið virka eftirlit allra okkar, sem í umferðinni erum. og aðhald við sjálfa okkur er eins og við þekkjum oft minna en ekki neitt.

Útbúnaður bifreiða til aksturs í hálku hefur oft verið ræddur og úrbóta leitað. Vélhjólin eru hér á fullri ferð um glerísaðar götur eða svellbólstraða landsbyggðarvegina okkar og á þeim er enginn útbúnaður mér vitanlega, nema í hreinum undantekningartilfellum, enginn útbúnaður til að mæta þessum stórhættulegu aðstæðum.

Hér hefur á fátt eitt verið minnst. Dæmin eru deginum ljósari en flest það eða allt sem ég hef tæpt á. En ofar öllu þessu, og þar af leiðandi hafði ég framsöguna á þennan hátt vegna þeirra áminninga sem við flm. hófum fengið núna síðan við fluttum þessa till., stendur þó sú mikla ábyrgð sem á okkur hvílir að vekja til umræðu og umhugsunar og hefja markvissar aðgerðir sem mættu draga úr þeim yfirþyrmandi tíðindum sem dynja yfir okkur nær daglega. Þar má einskis láta ófreistað að finna hin haldbestu ráð svo ekki sé beinlínis hægt að saka löggjafann og framkvæmdavaldið um vítaverða vanrækslu og kæruleysi gagnvart svo hrikalegum staðreyndum. Til þess að feta sig að markinu, ef unnt er, er till. þessi flutt.

Ég tel ekki ástæðu til þess, herra forseti, að hafa um till. fleiri orð. Ég held að hún sé of ógnvekjandi fersk í öllum sínum hrikaleik til þess að ástæða sé til að finna frekari stoð fyrir flutningi hennar. Ég vænti þess hins vegar, að sú nefnd sem fær þetta mál til meðferðar kanni rækilega það álit sem bæði læknar og lögreglumenn hafa á þessu máli, þeir menn sem best til þekkja, og kanni um leið ýmislegt í því sem hægt er að upplýsa um að gert sé í öðrum löndum til að koma í veg fyrir vélhjólaslys, sem eru, eins og læknarnir bentu réttilega á í sumar, oft kannske ekki eins áberandi og bilslysin, en þegar þau verða hafa þau þó oftar enn hörmulegri afleiðingar en jafnvel bifreiðaslysin og skal þó ekkert dregið þar úr.

Ég vil svo að lokinni þessari umr. leggja til að þessu máli verði vísað til hv. allshn.