10.03.1983
Sameinað þing: 63. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2876 í B-deild Alþingistíðinda. (2850)

Um þingsköp

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Það eru örfá orð. Ég hef ekki misnotað tíma fundarins, aðeins gert þá sjálfsögðu aths. við fundarstjórn hæstv. forseta að hann skyldi leyfa sér að fresta umr. eftir að aðeins iðnrh. og annar hv. Austfirðingur hafa látið ljós sitt skína, sem var því miður býsna dauft, enda tapskuggi yfir áætluninni sem birtist í þáltill. um kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði.

Ég hef ekki gert hingað til aths. við fundarstjórn hæstv. forseta. Hann hefur verið að tala um það hér að hann sé minna metinn en aðrir forsetar þingsins, að þeir séu góðir forsetar í deildum, en slæmi maðurinn sitji í sæti forseta Sþ. Það er hörmulegt að hæstv. forseti skuli segja þetta og byggja það á upplýsingum úr Tímanum eða einhverju slíku blaði eða Helgarpóstinum eða hvað þessi rit heita sem eru sífellt með slúðursögur sem reynast svo vera meira og minna ósannindi, því miður. En ég byggði mína aths. fyrst og fremst á þeirri eðlilegu skýringu, að forseta sé skylt að leyfa andstæðum sjónarmiðum að koma fram. (Forseti hringir.) Herra forseti. Nú tala ég um þingsköp og ég vil ekki missa heyrnina af þessum bjölluslætti.

Ég hef nokkra reynslu af fundarstjórn hér í þinginu sjálfu, en aldrei leyft mér að misnota vald mitt með neinum hætti, að sjálfsögðu ekki. Og ég er viss um að hæstv. forseti Sþ. gerir það ekki núna í þessu máli af ásetningi, heldur af því að hann hefur ekki kynnt sér nægilega vel anda þingskapanna sem kveða á um að menn eigi að fá að tala fyrir gagnstæðum skoðunum í því máli sem er á dagskrá. Niðurstaða hæstv. forseta er því miður sú,.að hann leyfir tveim einstefnumönnum að koma fram sínum sjónarmiðum, en neitar mér síðan, þm. úr sama kjördæmi og hann er fulltrúi fyrir eða sagður vera, um orðið. Það finnst mér aðfinnsluvert.

Herra forseti. Aðeins örfá orð um þessa till. til þál. Menn hafa kannske veitt því athygli að lengst til vinstri — kannske horfa allt of fáir þangað — stendur: Prentað upp. Og í staðinn fyrir hvaða þskj. er þetta prentað upp? Það er prentað í stað annars þskj. sem einnig var merkt svona, Prentað upp. Þetta er sem sagt 3. útgáfa þessa þskj. vegna þess að ekkert þeirra hefur fram að þessu verið fullnægjandi. Það hefur verið formlega rangt. Og hvernig stendur á því að flm. eru nú tilnefndir á þessu þskj.? Það er vegna þess að ég óskaði eftir því við skrifstofustjóra Alþingis, ósköp einfaldlega vegna þess að á forvera þessa þskj. stóð einungis að meiri hl. atvinnumálanefndar flytti tillöguna. Ef við tölum um meiri hl. leiðir af sjálfu sér að minni hl. hlýtur að vera til. Til þess að komast að því hverjir væru í raun flm. og hverjir ekki þurftu menn að leggja það á sig að lesa afburðaleiðinlega og umfram allt vitlausa grg. til þess að sjá hver var ekki flm. Svona vinna menn ekki. Ég tala nú ekki um ef þessi grg. hefði verið mjög löng og nafn mitt hefði kannske verið á síðustu síðunni, (Gripið fram í.) t.d. síðu 355 eða eitthvað slíkt, ef um það væri að tefla. Það var ekki svo slæmt að þessu sinni að vísu, en það væri full ástæða til að gera þetta þskj. með endurbótum, fá 4. útgáfuna sem sagt, sem væri með fullnægjandi upplýsingum um hverjir væru í meiri hl. og hverjir væru í minni hl. og hver væri frsm. Þannig líta almennileg þskj. út. En það lá svo mikið á að böðla þessu í gegn. Í fyrsta lagi var ekki nokkur einasta von að fá þessa menn til að ganga til einhverra samninga. Ég margreyndi hins vegar í nefnd samninga í málinu og bauð upp á jafnvel — ég segi ekki hvað sem er, en ýmislegt. En þessir menn sáu bara beint fram fyrir sig og neituðu að ræða þessi efni.

Þetta mál, herra forseti, sýnir auðvitað hversu óvönduð þessi vinnubrögð hafa verið öll, svo að ég tali nú ekki um ef menn fara að lesa till. Um það ræðum við síðar. En hún sýnir þó að hér í þinginu hefur myndast nýr meiri hl. — það kemur nýr meiri hl. eins og annan hvern dag í þessari virðulegu stofnun.

Að lokum, herra forseti. Ég óska eftir að fá að koma hér í ræðustólinn og ræða um kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði. (Forseti: Það verður tekið á dagskrá síðar á þessum fundi. Það hafa verið ákveðnir deildafundir núna kl. 5. En hv. 10. þm. Reykv. hefur hér mál sitt um 17. dagskrármálið).