10.03.1983
Efri deild: 66. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2881 í B-deild Alþingistíðinda. (2859)

206. mál, stjórnarskipunarlög

Stefán Guðmundsson:

Herra forseti. Mér er ljóst að með þeirri röskun á búsetu sem orðið hefur í landinu er leiðrétting á vægi atkv. milli kjördæma ekki óeðlileg. Við þá leiðréttingu ber þó mjög að hafa í huga að því aðeins að við byggjum landið allt og nýtum á þann hátt gögn þess og gæði tryggjum við sjálfstæði þjóðarinnar. Af því sem hér er sagt þykir mér óeðlilegt að kosningatilhögunin, sbr. frv. til stjórnskipunarlaga á þskj. 367, skuli tekin ein sér til afgreiðslu. Þar sem heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar er nú lokið er óeðlilegt annað en allir þættir hennar séu teknir til umfjöllunar og afgreiðslu samhliða. Hér er um grundvallarmál að ræða, hornstein þess lýðræðis er við byggjum á. Slík mál þurfa og eiga að ræðast jafnt innan Alþingis sem utan. Þjóðin öll á og þarf að vera þátttakandi í þeirri sköpun. Til þess hefur ekki verið gefinn nægjanlegur tími og því segi ég nei.