09.11.1982
Sameinað þing: 15. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 503 í B-deild Alþingistíðinda. (286)

51. mál, vélhjólaslys

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þessa umr. mikið. Ég hygg að allir hv. þm., þó að þeir séu víðsfjarri nú, geti verið sammála um að mikla nauðsyn beri til að gera könnun á tíðni, orsökum og atleiðingum þessara skelfilegu slysa. Það er öllum ljóst að full ástæða er til að taka þessi farartæki sérstaklega til athugunar, bæði vegna þess að ökumenn þeirra eru miklu óvarðari en í öðrum ökutækjum og ekki síst vegna þess að þarna er oft um að ræða einmitt mjög unga ökumenn. Það er óþarfi að tíunda þá ógn sem yfir okkur hefur dunið síðustu daga, en það mætti kannske vera nokkur lýsing á ástandinu nú, að þeir sem hafa hlotið hin verstu örkuml í umferðarslysum eru svo margir á endurhæfingardeild Borgarspítalans að þar er varla sjúklingi lengur við bætandi. Það er því skylda alþm. að ganga fram fyrir skjöldu og leita einhverra leiða til að koma í veg fyrir þetta.

Þegar við lítum á umferðarlögin er ákaflega lítið talað um bifhjól og eiginlega ekki nema á þrem stóðum. Ákvæði er um að á bifhjóli skuli vera tveir hemlar, sem verka sjálfstætt hvor um sig. Síðan segir hér um skráningu slíkra ökutækja, með leyfi forseta, í 11. gr. umferðarlaga: „Áður en bifreið, bifhjól, létt bilhjól“ — sem mér skilst að séu svokallaðar skellinöðrur — „beltabifhjól eða dráttarvél er tekin í notkun skal eigandi ökutækisins eða umráðamaður senda lögreglustjóra þess umdæmis, sem hann er búsettur í, tilkynningu um það.“

Þetta er, að ég hygg, verulega notað, einfaldlega vegna þess að í lögum um almannatryggingar eru ökumenn skráðra ökutækja slysatryggðir.

Í umferðarlögunum er jafnframt getið um í 38. gr., að enginn megi aka bifhjóli nema hann sé orðinn 15 ára. Og þriðja atriðið um þessi ökutæki er í 59. gr. umferðarlaga og fjallar einungis um að eigi megi aka tveim bifhjólum eða fleiri hlið við hlið á sömu akbraut.

Ég hef ofurlítið kynnt mér hvernig þessi lög eða reglur eru í Danmörku, og þar er augljóst að miklu strangari reglur gilda um akstur þessara ökutækja. Farartæki eins og skellinöðrur svokallaðar eða létt bifhjól komast ekki í meiri hraða en 30 km. Til þess er séð. Hér er þetta ekki þannig og til þess að keyra skellinöðrur þarf aðeins leyfi Bifreiðaeftirlits, en ökuskírteini þarf til að stýra bifhjóli. Bifhjól hér á landi aka alveg eins og bílar, eftir sömu reglum. Í Danmörku er þessu á allt annan veg farið. Vissulega eru sums staðar sérstakar brautir sem þessi ökutæki geta ekið eftir, en þar sem svo er ekki, sem er auðvitað viða, gilda einfaldlega þær reglur að ökutækið ekur alltaf á hægri brún vegar og hefur t.d. ekki leyfi til að fara eins og bifreiðar yfir krossgötur, krossgatnamót, heldur verður hjólið að fara sömu leið og almennur vegfarandi. Ég held að þessar reglur þyrfti að kanna annars staðar á Norðurlöndum og setja um þetta miklu nánari reglur en hér eru nú í gildi.

Við höfum talað hér dálítið um umferðina og umferðarmenningu Íslendinga og um það mætti margt segja. Hún er í stuttu máli nokkurn veginn óþolandi og alveg óskiljanlegt nú í skammdeginu, þar sem við búum oft við illa upplýsta vegi, hvernig ökumönnum leyfist að hegða sér. Það er auðvitað brýnt mál, sem lögreglustjórinn í Reykjavík hefur þegar rætt um í fjölmiðlum, að reynt verði að auka og efla götulögregluna. Við þetta verður ekki unað.

Ég vil aðeins bæta því við ágætt framsöguerindi hv. 1. flm., að ég held að vinda þurfi bráðan bug að því að endurskoða umferðarlögin með tilliti til þessara ökutækja. Við getum ekki sætt okkur við það lengur að fjöldi ungmenna hljóti á ári hverju bana og örkuml vegna þess að litlar sem engar reglur gilda um akstur þessara ökutækja. Þess vegna kunna menn ekki fótum sinum forráð og ætla sér um of, með þessum skelfilegu afleiðingum.