10.03.1983
Efri deild: 66. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2881 í B-deild Alþingistíðinda. (2860)

206. mál, stjórnarskipunarlög

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Innan þingflokks Alþb. var gerð sátt í þessu máli um að þingflokkurinn stæði að afgreiðslu máls þessa svo sem það kemur fram í frv. Það skildist mér að þess háttar sátt hefði verið gerð innan annarra stjórnmálaflokka einnig. Ég hef grun um að svo hafi verið í öðrum flokkum sem í mínum flokki að þar hafi enginn verið alveg ánægður. Hitt veit ég, að hefðum við skipst í fylkingar innan þingflokks Alþb. og haldið hvor sínum málstað fram til fullnustu og af hörku hefði þar ekkert samkomulag orðið og Alþb. ekki orðið aðili að flutningi þessa máls. Ég er eindregið þeirrar skoðunar, að það hefði gilt innan allra stjórnmálaflokkanna að ef þeir sem öðrum megin stóðu hefðu beitt sér af fullri einurð og hreinskilni innan flokka sinna og látið það kosta svo mikið sem þeir láta í veðri vaka nú þegar þetta er gagnrýnt hefði þetta frv. alls ekki komið fram. Ég kýs, þó að ég sé ekki ánægður, hvergi nærri til hlítar, með frv. það sem hér liggur frammi eða þá skipan mála, sem hér er gert ráð fyrir, að standa að þessu máli með félögum mínum, en nota ekki tímann nú þegar málið kemur til afgreiðslu til handþvottar og til að koma sök yfir á flokksfélaga mína þegar til kastanna kemur til þess að geta veifað því heima í kjördæmi. Ég segi því já.