10.03.1983
Efri deild: 66. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2882 í B-deild Alþingistíðinda. (2865)

5. mál, Útvegsbanki Íslands

Frsm. (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Hér eru til meðferðar nokkur frv. sem fjalla um bankastofnanir ríkisins. Við félagar í fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar höfum bróðurlega skipt með okkur að mæla fyrir nál. um þessi frv.

Þessi frv. eru öll eins. Í þeim eru ákvæði sem skylda bankastofnanir til að birta opinberlega í reikningum sínum greinargerðir um launakostnað, eignir, risnu og ýmislegt annað í þeim tilgangi að skýrt liggi fyrir með opinberum hætti hvernig trúnaðarmenn þessara stofnana stjórna þeim. Við erum þeirrar skoðunar, að slík meðferð sé eðlileg í okkar lýðræðisríki að þeir sem stjórna voldugustu fjármálastofnunum ríkisins standi að málum með þeim hætti sem hér er gert. Auðvitað mætti tilgreina nánar í lögum slíka skipan, en við teljum rétt að styðja þær tillögur sem í frv. felast. Síðar mætti endurskoða þessa skipan, þegar ljóst er hvernig hún hefur gefist.

Fjh.- og viðskn. Ed. mælir því með því að þetta frv. verði samþykkt.