09.11.1982
Sameinað þing: 15. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 504 í B-deild Alþingistíðinda. (287)

51. mál, vélhjólaslys

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég lýsi stuðningi við þessa þáltill. um könnun vélhjólaslysa. Það verður að segjast eins og er, að það er ákaflega miður að svo fáir þm., og ég tala nú ekki um hæstv. dómsmrh., skuli geta verið viðstaddir þessar umr. því að eins og fram hefur komið hjá hv. frsm. og síðasta ræðumanni er hér um alvarlegt mál að ræða sem hlýtur að vekja menn til umhugsunar um þá miklu ábyrgð sem á löggjafarvaldinu hvílir í sambandi við þessi mál.

Þegar talað er við fólk um þau alvarlegu slys, sem alltaf eru að ske, svo til daglega nú orðið, segir fólk gjarnan: Það verður að fara að gera eitthvað. Það verður að fara að gera eitthvað til að koma í veg fyrir þessi slys. — Auðvitað hlýtur maður að taka undir þessa fullyrðingu, en það er spurningin hvað á að gera. Ég verð að segja það alveg eins og er, að mér finnst að við gerum of lítið. Við gerum of lítið í sambandi við þessi mál til að koma í veg fyrir hina miklu umferðarslysaöldu. Ég tel að það verði að taka höndum saman um að gera markvissar aðgerðir gegn umferðarslysum. Mér hefur t.d. oftar en einu sinni komið til hugar: Hvað getur hið opinbera, hvað getur löggjafinn gert til að hafa frumkvæðið á þessu sviði? Er ekki t.d. eitt ráð að taka upp sérstakan dag, sérstaka umferðardaga eða jafnvel viku sem væri eingöngu ætlað til þess að vekja menn til umhugsunar um þessi mál, fá almenning til beinna afskipta af þessum málum með opnum umræðum, með því t.d. að senda alla löggæslu landsins út á götur og gatnamót og með því að taka fjölmiðlana, sjónvarp, útvarp og aðra fjölmiðla, í notkun eingöngu til að reyna aðvekja almenningsálitið til varnar í þessum málum?

Mér finnst að þessi umferðarmál öll og umferðarmenning okkar almennt séu alls ekki á því stigi að ekki sé þörf að við tökum okkur tak hvert og eitt. Ég vil þess vegna, um leið og ég lýsi stuðningi við þessa till., sérstaklega koma því á framfæri að mér finnst að við verðum, fyrst við erum að ræða þessi mál á annað borð, að fylgja því eftir með því að reyna að hafa bein áhrif á að það verði gert eitthvert stórátak til að forða, eftir því sem hægt er, þeim miklu hörmungum sem umferðarslysin leiða yfir fjölda fólks í landi okkar. Ég vildi undirstrika þetta um leið og ég lýsi stuðningi við till.