18.10.1982
Efri deild: 3. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í B-deild Alþingistíðinda. (29)

11. mál, orkulög

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Hér er til umr. frv. til orkulaga, flutt af hv. 4. þm. Vestf. í þriðja sinn að ég hygg, og það kemur fram hjá honum hér sem áður áhugi á þessum málum. Ég er honum sammála um það að æskilegt er að ganga frá endurskoðun á orkulögum. Að því máli hefur verið unnið af hálfu núv. ríkisstj. og undir forgöngu iðnrn. og ég vænti þess að á þessu þingi, væntanlega fyrir jól, verði hægt að leggja fram frv. af hálfu ríkisstj. um þetta efni.

Ég vil vekja athygli á því að á undanförnum árum hafa orðið stórfelldar breytingar á skipulagi orkumála innan ramma núgildandi löggjafar. Og það eru þau atriði, sem þar hafa verið til meðferðar, sem hafa ráðið því að ekki hefur verið talið rétt að bera fram tillögur um heildarendurskoðun orkulaganna fyrr en ljóst væri hvort vilji væri til þess og möguleikar að ná samstöðu um þau atriði sem reynt hefur á. Nú hefur það tekist í veigamiklum atriðum á nýliðnu sumri, fyrir um tveimur mánuðum síðan, þegar samkomulag varð milli ríkisstj. og Landsvirkjunar um mjög þýðingarmikla þætti sem varða skipulag orkumálanna. Sá samningur, um virkjanamál, yfirtöku byggðalína og fleiri atriði, er prentaður sem fskj. með þessu frv. og raunar einnig sá sameignarsamningur sem gerður var á s.l. ári um sameiningu Laxárvirkjunar og Landsvirkjunar.

Þessi mál hafa verið unnin innan ramma gildandi orkulaga og ekki verið þörf lagabreytingar til þess að koma þeim á. En með þeirri víðtæku samstöðu sem um þessi mál hefur tekist, sem skipta mjög miklu máli fyrir stöðu raforkumálanna í landinu, er það auðveldara viðfangs að ganga frá endurmati á orkulögunum og útfæra þau í ljósi þeirrar samstöðu sem þarna hefur tekist.

Ég vil alls ekki gera lítið úr áhuga hv. flm. þessa frv. fyrir því að fá breytt ýmsum þáttum orkulaga. Ég er honum sammála um ýmis atriði þessara mála en ekki um önnur. Ég vísa í því efni til ræðu minnar í umr. um þetta sama mál á síðasta þingi. Frv. er nú flutt óbreytt þannig að þar er út af fyrir sig engu við að bæta nema þeim atriðum sem síðan hafa gerst í reynd og skýra mjög hvaða leiðir séu færar varðandi framhaldið, byggt á þeim samningum sem tekist hafa.

Hv. 1. flm. þessa frv. vék hér að tilteknum atriðum og beindi til mín fsp. þar að lútandi, m.a. um orkumálaáætlun til 10 ára sem gert er ráð fyrir í hans frv. Ég tel mjög eðlilegt að gerðar séu áætlanir fram í tímann um þessi mikilvægu mál sem önnur. Núverandi ríkisstj. hefur raunar beitt sér fyrir því og fengið lögfest frumvörp um heimildir til að reisa og reka stórar virkjanir, sem auka mjög við þær heimildir sem fyrir voru, reyndar meira en tvöfalda þær heimildir sem veittar hafa verið og komnar eru til framkvæmda í sambandi við raforkuöflun í landinu. Frv. um raforkuver nr. 60 frá 1981 fylgdu í greinargerð m.a. áform um nýtingu orkunnar, svo og þeirri þáltill. um virkjanaframkvæmdir og orkunýtingu sem samþykkt var samhljóða í Sþ. undir lok síðasta þings. Þar var af þingsins hálfu dreginn upp rammi um framkvæmdir í orkumálum til næstu 10–15 ára. Slíkan ramma þarf vissulega að endurskoða í ljósi reynslu og ég tel mjög eðlilegt að gengið sé frá áætlunum sem taki a.m.k. til 10 ára í þessum efnum.

Hv. 4. þm. Vestf. vék að Orkustofnun og stjórn þeirrar stofnunar en í hans frv. mun gert ráð fyrir því að henni verði kjörin stjórn af Alþingi. Ég er þeirrar skoðunar að í stjórn slíkra stofnana sé farsælla að tilnefnt sé af framkvæmdavaldinu heldur en þinginu. Það er mitt viðhorf og ég tel eðlilegt að það gildi einnig um fyrirtæki, sem ríkið stendur að að meiri hl., að það sé ekki löggjafinn sem kjósi þeim stjórnir heldur sé það framkvæmdavaldið sem geri það. En um þau efni eru eflaust deildar meiningar eins og raunar kemur fram með flutningi þessa frv. Ég ætla ekki að fara hér út í almennar umr. um ástæður fyrir minni skoðun í þessum efnum, en ég tel að það sé farsælla að framkvæmdavaldið beri ábyrgðina á þessum málum og tilnefni í stjórnir stofnana og fyrirtækja á vegum ríkisins. Við skipan slíkra stjórna er hins vegar m jög eðlilegt að haft sé í huga bæði verksvið viðkomandi stofnana og pólitísk valdahlutföll í landinu þannig að ekki sé um neina einsýni að ræða í þeim efnum, hvorki pólitískt né faglega.

Þá vék hv. 4. þm. Vestf. að Orkusjóði og beindi til mín fsp. um hann. Af því að hann vék að þessu tel ég rétt að fram komi að ég tel að málefni Orkusjóðs þurfi mjög gaumgæfilegrar athugunar við. Sú athugun hefur reyndar staðið yfir um nokkurt skeið. Ég held að það sé ekki hægt að orða það svo, að það beri brýna nauðsyn til að efla Orkusjóð í núverandi formi. Ég held að það sé miklu fremur nauðsyn að átta sig á því hvaða verkefni eðlilegt sé að falli undir Orkusjóð, eigi hann að starfa áfram, og að reynt sé að beina lánveitingum til einstakra þátta í raforkuiðnaðinum með beinum hætti til viðkomandi fyrirtækja, án þess að þau séu millifærð í Orkusjóði, oft með þeim hætti að lánskjör verða önnur heldur en reynast við endurlánveitingar úr sjóðnum. Það liggur m.a. fyrir í núverandi fjárlagafrv. að hjá Orkusjóði hefur safnast upp mjög há upphæð sem halli á sjóðnum vegna þess að úr honum hefur ekki verið endurlánað með þeirri ávöxtun að það tryggði eðlilegan rekstur. Þó er ég ekki þar með að segja að ekki komi til greina að lána til þessara mála með hagstæðari kjörum í vissum tilvikum heldur en almennt gilda.

Ég tel sem sagt mjög mikla þörf á því að ofan í málefni Orkusjóðs sé farið, fremur til að grynna á þeim upphæðum sem renna í gegnum sjóðinn heldur en auka þar sérstaklega við. Það mætti margt um þetta segja en ég vísa til fram komins fjárlagafrv. um þessi efni og vil geta þess, að iðnrn. var alls ekki ljóst hvaða upphæðir höfðu safnast fyrir hjá Orkusjóði sem hallabúskapur milli ára, og fjárlaga- og hagsýslustofnun var það raunar ekki ljóst fyrr en farið var ofan í þessi málefni til undirbúnings fjárlaga. Svona ráðstöfun fjármagns á ekki að endurtaka sig. Það er nauðsynlegt að menn átti sig á því með hvaða hætti fjárstreymið er til stórra verkefna eins og á sviði orkumálanna og að komið verði þar á betri skipan.

Ég held að það hafi komið fram í máli hv. 1. flm. þessa frv. að ráðh. skipi stjórn Orkusjóðs samkv. gildandi lögum. Svo er ekki. Það er engin sérstök stjórn sem fer með málefni Orkusjóðs, fyrir utan það sem orkuráð kemur að þeim málum. Því er það orkuráð sem helst hefur yfirlit yfir málefni sjóðsins og framkvæmdastjóri þess. Er ég þó engan veginn að vísa neinni ábyrgð til orkuráðs í sambandi við þessi efni, en vildi aðeins að það kæmi fram og lægi fyrir að sérstök stjórn er ekki fyrir þessum sjóði umfram þá umsýslu sem orkuráð hefur þarna með höndum.

Þá vék hv. flm. til mín fsp. varðandi raforkudreifinguna, hvort ég teldi ekki eðlilegt að hún væri í höndum sveitarfélaga. Ég tel að núverandi háttur á raforkudreifingu sé ekki óeðlilegur miðað við núverandi aðstæður og ég er ekki þeirrar skoðunar að eðlilegt sé að stefna að því að leggja Rafmagnsveitur ríkisins niður, síður en svo. Ég held að þær hafi mjög þýðingarmiklu hlutverki að gegna nú og muni hafa það í framtíðinni og ég tel ekki einsýnt að þau mál væru í betra horfi ef farið væri að deila þeim verkefnum upp til sveitarfélaga, sem Rafmagnsveiturnar hafa haft með höndum í sambandi við raforkudreifingu um hinar dreifðu byggðir og staðið þar vel að verki almennt séð. Ég get því ekki tekið undir það sem sérstakt markmið að fara að leysa Rafmagnsveitur ríkisins upp og fela verkefni þeirra sveitarfélögum í landinu. Hitt liggur fyrir, að sveitarfélög annast verkefni hliðstæð og Rafmagnsveitur ríkisins hafa á vissum svæðum, eins og Rafveita Siglufjarðar og þó alveg sérstaklega Orkubú Vestfjarða, svo sem kunnugt er.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa hér langt mál um þessi efni en taldi rétt að fram kæmi að unnið er að endurskoðun orkulaga. Ég hef lagt á það áherslu að reynt verði að flýta því verki, sem er umfangsmikið, og við þá endurskoðun verði tekið tillit til þeirra ákvarðana sem teknar hafa verið á undanförnum þingum, þeirra samninga sem tekist hafa, eins og samningsins milli ríkisstj. og Landsvirkjunar frá 11. ágúst á síðasta sumri.

Ég vænti þess að frv. af hálfu ríkisstj. varðandi orkulög komi fram þannig að það geti verið til umr. samhliða þeirri meðferð sem þetta frv. hér fær hjá hv. d. Ég tel að það sé fyllilega tímabært að fara yfir þessi mál og reyna að ná saman um endurskoðun á þessum málaflokki í heild sinni.