10.03.1983
Neðri deild: 61. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2900 í B-deild Alþingistíðinda. (2909)

221. mál, lánsfjárlög 1983

Frsm. meiri hl. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Við 2. umr. fékk ekki náð fyrir augum hv. þdm. till. sem við fluttum fjórir hv. þdm. um að ábyrgjast 15 millj. kr. lán til Verslunarskóla Íslands vegna byggingar nýs skólahúss í Kringlumýri við Ofanleiti. Ég leyfi mér, herra forseti, að flytja hér við 3. umr. brtt. — það eru sömu flm. — um að ábyrgðin verði ekki 15 heldur 10 millj. Ég vek athygli á að hér er aðeins um að ræða ábyrgð fyrir byggingu skóla sem er sennilega ódýrasti skólinn fyrir íslenska ríkið. Það var sagt áðan úr þessum ræðustól af hv. 3. þm. Austurl., formanni fjh.- og viðskn., þegar hann dró till. sína til baka um lækkun á lántöku úr 860 í 800, að það skipti kannske ekki meginmáli hvort upphæðin væri 860 eða 800. Þá trúi ég því ekki að mönnum finnist það skipta meginmáli hvort ábyrgð ríkissjóðs er 10 millj. meiri eða minni, — ég tala nú ekki um þegar það er nokkuð öruggt að ríkissjóður þarf aldrei að borga það fé.

Ég leyfi mér að flytja till. skriflega og fer fram á að forseti veiti afbrigði, en það eru sömu flm. á till. og þeirri sem flutt var við 2. umr.