11.03.1983
Efri deild: 67. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2904 í B-deild Alþingistíðinda. (2933)

221. mál, lánsfjárlög 1983

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1983, en frv. hefur þegar verið afgreitt frá Nd.

Eins og kunnugt er hefur sá háttur verið hafður á á undanförnum árum að lögð hefur verið fram svonefnd fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir hvert ár, en jafnhliða því hefur verið lagt fram sérstakt frv. til lánsfjárlaga þar sem aflað er heimilda til að taka megi þau lán sem ekki hefur þegar verið aflað heimilda fyrir. Lánsfjáráætlun er síðbúin að þessu sinni og eru ástæðurnar fjölmargar og þá fyrst og fremst sú óvissa sem hefur verið ríkjandi bæði í efnahagslífi landsmanna og í pólitísku lífi.

Það eru mjög óvenjulegir tímar sem við búum við nú. Samdráttur hefur nú orðið meiri í þjóðarframleiðslu en dæmi eru um um mjög langt skeið og þetta mikla samdráttarástand, sem er jafnvel hér á landi orðið meira en í flestum nálægum löndum þó að þar hafi vissulega ríkt mikil kreppa, hefur skapað sérstakar aðstæður.

Það er eðlilegt að kvartað hafi verið yfir því að ekki skuli lagt fram sérstaki þskj. nefnt fjárfestingar- og lánsfjáráætlun. Á hinn bóginn ber á það að líta að grg. með frv. til lánsfjárlaga er miklu ítarlegri nú en nokkru sinni fyrr og má með fullum rétti segja að í grg. sé að finna flestallar þær töflur sem vani hefur verið að birta í svokallaðri fjárfestingar- og lánsfjáráætlun. Jafnframt er þar að finna upplýsingar um áætlaða heildarfjárfestingu eða fjármunamyndun í efnahagslífi þjóðarinnar á því ári sem hafið er.

Fjárfestingar- og lánsfjáráætlun mundi hins vegar vafalaust vera greinarbetra yfirlit yfir lánsfjármál líðandi árs. en þar mundu ekki koma fram nemar þær upplýsingar um efnisatriði þess máls, sem hér er um að ræða, sem þörf væri á til að hægt væri að taka þær ákvarðanir sem felast í þessu frv. Ég geri ráð fyrir að eftir að lánsfjárlög hafa verið afgreidd verði unnið frekar að fjárfestingar- og lánsfjáráætlun þannig að unnt sé að gefa þinginu skýrslu um þau mál og mun hún þá vera lögð fram á nýju þingi, hvenær svo sem það kemur saman.

En hér liggur sem sagt fyrir að afgreiða frv. til lánsfjárlaga. sem fyrst og fremst felur í sér heimildir fyrir ríkissjóð til lántöku á árinu 1983 vegna A- og B-hluta ríkissjóðs, auk heimilda fyrir Framkvæmdasjóð Íslands og fyrir fyrirtæki með eignaraðild ríkissjóðs og fyrir sveitarfélög til erlendrar lántöku.

Í þessu frv. eru breytingar á lögum um fjárfestingarlánasjóði og ákvæði um hámarksframlög til nokkurra verkefna í samræmi við markaða stefnu í fjárlögum fyrir árið 1983 og leitað heimilda til viðbótarlántöku vegna ársins 1982. Samkv. þessu frv. er gert ráð fyrir að heildarfjárhæð erlends lánsfjár nemi um tæpum 3390 millj. kr., eins og frv. var lagt fram í Nd. Þessi upphæð hefur lítillega hækkað við meðferð málsins í Nd., en þar skeikar ekki miklu. Hitaveitur hafa fengið aukna lántökuheimild frá því sem áður hafði verið ákveðið og er rétt að upplýsa að þar er fyrst og fremst um framlengingu að ræða. Þar er ekki um raunverulegar nýjar lántökur að ræða, heldur að verið er að breyta lánum sem þegar hafa verið tekin í lán til lengri tíma. Á þetta fyrst og fremst við lán, sem Hitaveita Akureyrar hefur fengið að taka, að fjárhæð allt að 70 millj. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt, en þessi lántökuheimild bættist við við meðferð málsins í Nd. Þar er sem sagt ekki um nýja lántöku að ræða.

Eins og ég sagði eru heildarlántökur á árinu áætlaðar tæpar 3390 millj., en í lánsfjárlögum fyrir árið 1982 var hliðstæð tala um 2256 millj. kr. Hækkunin milli ára er 50%.

Sú stefna er mörkuð í þessu frv. að erlendar lántökur verði við það miðaðar að skuldir aukist ekki að raungildi á árinu 1983. Í grg. frv. er gerð grein fyrir hvernig þessi viðmiðun er síðan reiknuð út út frá þeim forsendum sem frv. er miðað við og er gert ráð fyrir 6% verðbólgu í viðskiptalöndum okkar. Miðað við þá útreikninga sem þar er að finna og miðað við þær tölur sem lágu fyrir í desembermánuði um föst erlend lán, sem þá voru að meðalgengi í árslok talin verða 13 630 millj. kr., mættu erlendar lántökur ekki fara yfir 3439 millj. kr. á árinu 1983 til þess að unnt væri að segja að erlendar lántökur ykjust ekki að raungildi sínu á árinu 1983. Eins og hér hefur komið fram er lántökuheimildin miðuð við að erlendar lántökur verði lægri fjárhæð en ég hef hér nefnt eða 3390 millj. kr. tæpar.

Rétt er að geta þess, að í fskj. 9 á bls. 15 í frv. til lárisfjárlaga kemur fram önnur tala um heildarupphæð erlendra lána en miðað er við hér í grg. Er hún þar talin vera samkv. nýjustu upplýsingum Seðlabanka Íslands um 14 700 millj. kr. En eins og ég hef áður nefnt var hér í grg. rætt um að erlend lán væru á meðalgengi ársins 1982 talin vera í árslok 13 630 millj. Munurinn á þessum tveimur tölum liggur fyrst og fremst í því, að lægri talan er frá því í des., en hærri talan er alveg ný og miðast við allra seinustu upplýsingar. Sé hærri talan og sú nýrri notuð til viðmiðunar verður svigrúm til erlendrar lántöku á árinu 1983 heldur meira en það sem gert er ráð fyrir í grg. og þar af leiðir að enn meiri líkur eru á að unnt verði að halda við þá meginviðmiðun, sem fram er sett í grg. frv., að skuldir aukist ekki að raungildi á árinu 1983. Jafnvel þótt í ljós komi að eitthvað sé vanáætlað í þessu frv., eins og raunar var bent á við umr. um málið í Nd., t.d. að lántökur einkaaðila verði ívið meiri en hér er gert ráð fyrir, þá má ætla að eftir sem áður eigi erlendar lántökur að geta orðið innan þess ramma sem hér er settur fram, þ.e. að erlendar skuldir aukist ekki að raungildi á árinu 1983.

Ljóst er að fjármunamyndun í landinu er þrengri stakkur skorinn nú en oft áður. Að mati Þjóðhagsstofnunar gæti fjármunamyndun á árinu 1983 numið um 2526% af vergri þjóðarframleiðslu, en það er svipaður hundraðshluti og á árinu 1982. Hins ber að gæta, að altar hundraðstölur sem ganga út frá spám um þjóðarframleiðslu og útflutningstekjur 1983 verða hærri vegna samdráttarins en ella væri. Gleggsta dæmið um áhrif sveiflna í þjóðhagsstærðum eru hundraðstölur um skuldabyrði og greiðslubyrði þjóðarinnar út á við, en þessar tölur hafa að sjálfsögðu farið hækkandi um leið og deilitalan í hlutfallinu þjóðarframleiðsla hefur farið lækkandi.

Í fskj. 8 er sýnt að horfur eru á að fjárfestingar atvinnuveganna dragist saman um 7.6% frá árinu 1982. Svipuðu máli gegnir um byggingar og mannvirki hins opinbera. Þar er spáð rúmlega 9% samdrætti. Íbúðabyggingar hafa aftur á móti ekki dregist saman frá því sem var á árinu 1981 og horfur eru á að íbúðabyggingar geti orðið í raun áþekkar því sem var 1982. Hér veldur fyrst og fremst átak í byggingu íbúða á félagslegum grundvelli og aukin framlög ríkissjóðs til Byggingarsjóðs ríkisins.

Ástæðan fyrir því að fjármunamyndun sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu helst nokkuð svipuð og verður svipaður hundraðshluti og var árið 1982, þrátt fyrir að fjárfestingar atvinnuvega og byggingar hins opinbera dragast saman, er að sjálfsögðu sú, að fjárfestingar og fjármunamyndun eru látnar dragast saman í réttu hlutfalli við þann samdrátt sem hefur orðið í þjóðartekjum. Við það helst að sjálfsögðu hlutfall fjármunamyndunar af þjóðarframleiðslu óbreytt, þar sem tölurnar bæði fyrir ofan og neðan brotastrikið dragast saman með hliðstæðum hætti.

Við meðferð málsins í Nd. voru þær breytingar helstar gerðar, að bætt var inn í frv. lántökuheimild fyrir Hitaveitu Akureyrar, eins og ég hef nú þegar greint frá, að fjárhæð allt að 40 millj. kr., en eins og ég sagði er þar fyrst og fremst um framlengingu á þegar teknu láni að ræða. Aðrar breytingar eru nú ekki stórvægilegar. 7. gr., sem nú er orðin 6. gr. frv., var breytt á þann veg að ekki einungis sveitarfélögum væri heimilt að taka lán á árinu 1983, eins og þar segir, heldur sveitarfélögum og fyrirtækjum þeirra. Þá var bætt inn í frv. nýrri grein, sem varð 8. gr., að fjmrh. væri heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð lán Byggðasjóðs að fjárhæð allt að 5 millj. kr. vegna smíði fiskiskipa innanlands. Hér mun vera um að ræða byggingu tveggja tiltekinna báta og er upphæðin við það miðuð að einungis verði um að ræða sjálfskuldarábyrgð á lánum Byggðasjóðs vegna þeirra.

Af öðrum ástæðum er rétt að benda sérstaklega á nýja grein, sem varð 28. gr. frv., en þar segir: „Lánsfé samkv. lögum þessum skal ráðstafa í samræmi við fjárlög fyrir árið 1983. Að því leyti sem ákvæði laga þessara fela í sér viðbót við heimildir fjárlaga skal því fé ráðstafað að höfðu samráði við fjvn. Alþingis, og skal núverandi fjvn. starfa þar til önnur hefur verið kjörin.“

Með þessu ákvæði er farið inn á nýja braut, þar sem lántökur hafa fram að þessu ekki verið bornar sérstaklega undir fjvn. áður en þær hafa verið afgreiddar, en viss rök mæla með því að nú sé afbrigðilegur háttur hafður á, þar sem ekki hefur tekist að veita Alþingi það svigrúm til umfjöllunar um lánsfjáráætlun og lánsfjárlög sem æskilegt væri, og finnst mér því að þessi viðbót Nd. við lánsfjárlögin eigi fyllsta rétt á sér.

Ég vil taka það fram í þessu sambandi að það mundi hins vegar vera nokkuð tafsamt ef fjvn. þyrfti að koma saman oft í hverri viku til að fjalla um mál af þessu tagi, því að mál þau sem hér um ræðir eru til afgreiðslu flesta daga ársins, og ég hygg nú að fjvn.-mönnum, sem eru að hefja kosningabaráttu og hafa í mörg horn að líta, fyndist ekki að sér væri mikill greiði gerður ef þeir væru kvaddir til funda oft í hverri viku til að fjalla um þessi mál. En auðvitað verður reynt að safna þeim málum saman sem hér um ræðir. (LJ: En ef einhverjir þeirra féllu í kosningunum?) Það verður reynt að safna þessum málum saman og bera þau undir fjvn. í nokkrum áföngum. Það skal líka tekið fram, að hér er fyrst og fremst um samráð að ræða. Fjvn. á þess kost að segja álit sitt á fyrirhuguðum lánveitingum, en lánveitingarnar eru sem sagt ekki háðar samþykki nefndarinnar og nefndin hefur ekki neitunarvald gagnvart einstökum lánveitingum. En þarna er um samráð að ræða, sem verður að teljast mjög eðlilegt þegar haft er í huga að Alþingi hefur haft fremur skamman tíma til meðferðar málsins.

Herra forseti. Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál, en legg til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. fjh.- og viðskn. og það er ekki um annað að ræða en óska eftir sem hraðastri afgreiðslu málsins.