11.03.1983
Efri deild: 67. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2907 í B-deild Alþingistíðinda. (2934)

221. mál, lánsfjárlög 1983

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég minnist þess að fyrir nokkru, þegar hæstv. núv. viðskrh. var fjmrh. og mælti fyrir lánsfjárlögum á Alþingi, viðhafði hann þau orð að það frv. væri ekki síður stefnumótandi fyrir einstaka þætti efnahagsmálanna en sjálf fjárlögin. Ég held að hann hafi þá kannske fyrst notað orðin frv. til lánsfjárlaga. Ég vek athygli hv. Ed. á því að þegar hæstv. fjmrh. mælti fyrir þessu frv. viðurkenndi hann það, enda ýmsar brtt. Nd. í þá veru, að hér væri raunar um hálfkarað verk að ræða og það í máli sem varðar svo mjög alla stefnu í efnahagsmálum, eins og hæstv. núv. viðskrh. vakti athygli á, og ég er honum hjartanlega sammála í þeim efnum.

Ég ætla ekki að viðhafa mörg orð við þessa umr. Ég á sæti í þeirri nefnd sem fær þetta mál til umfjöllunar. En ég vil aðeins ræða nokkuð um þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið við undirbúning þessa máls.

Á sameiginlega fundi fjh.- og viðskn. beggja deilda komu að venju ýmsir aðilar til viðræðna út af þessu máli. Þar komu m.a. fulltrúar frá Seðlabankanum og þeir gerðu margvíslegar aths. við þetta frv. og þá grg., sem hæstv. fjmrh. nefndi, sem fylgdi því, en auðvitað er margt i þessari grg. sem á vantar miðað við þær upplýsingar, sem komu fram í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun, sem ekki hefur séð dagsins ljós eins og hann tók fram. Margar þessar aths. Seðlabankans voru mjög alvarlegs eðlis og alls ekki hefur verið upplýst enn hvernig á því standi að margar þær upplýsingar sem fram koma í fskj. með þessu frv., fái ekki staðist að mati þessara manna. Sama má segja um fulltrúa Þjóðhagsstofnunar. Ég held að ég hafi skrifað orðrétt niður það sem forstjóri Þjóðhagsstofnunar sagði. Hann sagði:

„Nú er öðruvísi að þessu máli staðið en áður. Það hefur verið miklu minna samráð við okkur um undirbúning þessa máls en áður.“

Ég leyfði mér að viðhafa þau orð að kannske væri rétt að afgreiða þrenn lánsfjárlög frá Alþingi, lánsfjárlög sem hæstv. ríkisstj. legði fram, lánsfjárlög sem Seðlabankinn legði fram og lánsfjárlög sem Þjóðhagsstofnun legði fram, því að þessar upplýsingar, sem komu fram frá þessum aðilum, voru það ólíkar að kannske hefði verið ástæða til að gera þetta. En auðvitað er þetta ekki mælt í alvöru, heldur sem dæmi um hvernig þetta mál er í pott búið.

Ég vil nefna hér eitt dæmi, án þess að fara út í fleiri efnisatriði um þetta mál við þessa 1. umr. Ég hef í höndum drög að spá um greiðslujöfnuð við útlönd frá Seðlabankanum, sem hefur ekki verið endurskoðuð, við höfum ekki fengið nýja spá um greiðslujöfnuð við útlönd í fjh.- og viðskn. Í þessari spá er gert ráð fyrir að staða þjóðarbúsins versni við útlönd um 2000 millj. kr., hvorki meira né minna. Það skakkar talsvert miklu, hæstv. ráðh., miðað við forsendur þessa frv. Hæstv. ráðh. talaði hér um að stefnt væri að því með þessu frv. að staða þjóðarbúsins versnaði ekki við útlönd í erlendum lántökum, að erlendar nýjar lántökur væru nánast þær sömu og afborganir af erlendum lánum. Í þessari greiðslujafnaðarspá er gert ráð fyrir að lántökur verði 3500 millj. kr., en afborganir ekki nema 2300 og að gjaldeyrisstaðan versni um 800 millj. kr., þ.e. staða þjóðarbúsins versni við útlönd um hvorki meira né minna en 2 milljarða kr. Þannig er nú þetta mál vaxið og þannig eru þær upplýsingar sem hv. Alþingi á að fá. Annars vegar segir í grg. að það sé stefnt að því að staða þjóðarbúsins versni ekki. Á hinn bóginn segja ríkisstofnanir að það séu allar líkur á að hún versni um 2000 millj. kr. Ég vil taka fram að hér er um að ræða drög að spá frá Seðlabankanum, sem var gerð einhvern tíma nálægt áramótum að ég held, en hún er með nákvæmlega sömu hugmyndum um erlendar lántökur og nýjar lántökur eru í þessu frv., en þar er gert ráð fyrir verulegum viðskiptahalla. Ég held að allir sem þekkingu hafa á íslenskum efnahagsmálum séu þeirrar skoðunar að viðskiptahallinn verði verulega meiri en spáð var um áramót. Niðurstaða þessarar spár er sú, að staða þjóðarbúsins versni um 2 milljarða kr.

Mér er nokkuð vel kunnugt um vinnubrögð í hv. fjh.og viðskn. og ég þarf þess vegna ekki að fara þess á leit við hana sem hæstv. utanrrh. fór fram á út af ákveðnu máli hér, sem varðaði ríkisábyrgð um 50 millj. kr. Hér er verið að fjalla um nokkra milljarða. Upplýsingar sem komið hafa fram á sameiginlegum fundum fjh.- og viðskn. Ed. og Nd. eru eins og ég hef hér bent á. Ég tel því æskilegt að skoða þetta mál og ég tel þetta mál lýsandi dæmi um að hæstv. ríkisstj. getur ekki verið alvara að ætla sér, eins og hún hefur sagt síðustu viku, að ljúka þingi núna í kvöld. Ég trúi því ekki að menn með fullu viti stefni að því með mál eins og þetta, undirbúið eins og það er.

Ég vil að lokum segja að ég er hæstv. ríkisstj. sammála um að auðvitað þarf að afgreiða mál eins og lánsfjárlög, svo stefnumarkandi mál sem það er, frá Alþingi áður en því lýkur. Það verður að gerast með skaplegri hætti en mér sýnist að í horfi nú. Ég lýsi mig reiðubúinn að vinna að þessu máli og ætla ekki á einn eða annan hátt að tefja framgang þess, en ég tel að það verði að skoðast nánar í hv. nefnd.