11.03.1983
Efri deild: 67. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2911 í B-deild Alþingistíðinda. (2949)

Um þingsköp

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. (Gripið fram í.) Ég hélt að hæstv. forseti hefði verið að gefa mér orðið, en ekki hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni. (Forseti: Það er rétt.)

Hér er um að ræða mjög óvenjulegt mál, svo að ekki sé meira sagt. Það verður að hafa í huga að við erum nú að ljúka þingi. Innan skamms verður þing rofið og efnt til kosninga. Það er þess vegna ljóst að stutt er eftir af þeim tíma sem þm. halda umboði sínu. Síðan fara fram kosningar og kosið verður nýtt Alþingi, sem hefur auðvitað nýtt umboð og verður sjálfsagt allt öðruvísi skipað en það Alþingi sem nú situr, og veit auðvitað enginn hvernig það verður skipað eða hvernig það tekur á málum.

Till. til þál. um samkomudag Alþingis að loknum næstu kosningum hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Alþingi lýsir yfir þeim vilja sínum, að þing verði kvatt saman eigi síðar en 18 dögum eftir að næstu kosningar hafa farið fram.“

Síðan er stutt grg. með þessari ályktun á þessa leið: „Þar sem allt útlit er fyrir að breyting á stjórnarskránni verði samþykkt í samræmi við samkomulag fjögurra flokka um að þing verði rofið og efnt til nýrra kosninga, þykir flm. þessarar till. nauðsynlegt að Alþingi lýsi yfir“ o.s.frv.

Síðar kemur fram í þessari grg. að í stjórnarskrárnefndum beggja deilda þings hafi komið skýrt fram að fulltrúar Alþfl., Alþb. og Sjálfstfl. teldu óhjákvæmilegt að þing kæmi saman fljótlega eftir næstu kosningar og áskildu þeir sér rétt til að flytja frv. eða tillögu um það efni, lagafrv. um það efni. Spurningin er hvort slík tillögugerð hefur lagagildi. Ef litið er á stjórnarskrána, og það er kannske ástæðan fyrir því að ég hef kvatt mér hljóðs um þingsköp og efni þess máls sem hér er á dagskrá (ÓRG: Þetta er greinilega málþóf, en á að vera um þingsköp.) kemur í ljós — Ég ætla að ef lesin væru þingtíðindi mundi fljótlega koma í ljós að hv. 11. þm. Reykv. hefur varið drjúgum lengri tíma til málskrafs hér á Alþingi en ég hef gert og margt af því sem hv. þm. hefur þar sagt hefði gjarnan mátt vera ósagt. (Gripið fram í.) Fresta því. (Forseti: Ég óska eftir því að það verði þögn í salnum. Ég óska einnig eftir því að hér fari fram umr. um þingsköp, sem knöppust að sjálfsögðu, og bið hv. ræðumann að taka tillit til þess, sem ég vænti að hann geri.) Já, herra forseti, það er sjálfsagt. Ég skal halda áfram minni ræðu, en þá verð ég náttúrlega að hafa frið til þess að tala í samfelldu máli án þess að vera truflaður af hv. þm.

Í stjórnarskránni, 22. gr. hennar, segir beinlínis, með leyfi hæstv. forseta:

„Forsetinn stefnir saman Alþingi ár hvert og ákveður, hvenær því skuli slitið.“

Forseti lýðveldisins stefnir saman Alþingi, segir stjórnarskráin. Samt er gert ráð fyrir því í grg. fyrir þessari till. til þál.þm. hafi áskilið sér rétt til að flytja frv. eða tillögur þessa efnis. Það er alveg ljóst af þessu, sem ég hef nú tilgreint um stjórnarskrána, að það kemur ekki til mála, er gersamlega útilokað, að flytja lagafrv. um að Alþingi skuli koma saman á tilteknum degi á sama tíma sem það stendur í sjálfri stjórnarskránni að forseti lýðveldisins stefni saman Alþingi. Það er alls ekki hlutverk Alþingis að gera það. Það er samkv. okkar stjórnskipunarlögum og stjórnarskrá hlutverk forseta lýðveldisins.

Nú hafa flm. þessa máls valið aðra leið í þessu efni en að flytja lagafrv. — þá leið að flytja till. til þál. Það er miklu vægari leið, þó að hún sé ákaflega óviðfelldin og allt að því móðgandi fyrir forsetaembættið þar sem það er skýlaust kveðið á um í stjórnarskránni að forseti lýðveldisins skuli stefna saman Alþingi. Ekki er till. því sérlega þingleg þegar af þeirri ástæðu.

Það má kannske segja að svona till. hafi í sjálfu sér sáralítið gildi, vegna þess að það er forsetinn, að tillögu forsrh. þess sem situr hverju sinni, sem kallar saman Alþingi. Þess vegna er það, að þeir sem að till. standa, ef þetta ætti í sjálfu sér að hafa nokkurt innihald og gildi, þyrftu hreinlega að búa til nýjan forsrh. Þeir þyrftu að mynda ríkisstjórn og nýr forsrh. tæki við og hinn nýi forsrh. legði það til við forseta lýðveldisins, að Alþingi yrði kallað saman á tilteknum degi. Þá fyrst hefði þetta eitthvert gildi í sjálfu sér. Málið, eins og það er lagt fyrir hér, hefur í raun og veru sáralítið gildi vegna þess að það er ekki í samræmi við það sem ætlast er til með því beina ákvæði stjórnarskrárinnar að forseti stefni Alþingi til funda. Málið er því að mínu mati óþinglegt og óeðlilegt. En það er kannske ekki það sem skiptir höfuðmáli í þessu efni. Það skiptir auðvitað höfuðmáli hvað býr á bak við tillöguflutninginn. Ég skal ekki segja um hvort þessir þrír flokkar eru þegar byrjaðir stjórnarmyndunarviðræður. Það er ekki óeðlilegt að halda að svo sé og að þeir séu að gefa Alþingi og þjóðinni til kynna með þessum tillöguflutningi að svo sé, þeir vilji ráða því saman hvenær Alþingi verði kvatt saman að loknum kosningum. En sá er hængur á því, að það veit enginn hvernig nýtt Alþingi verður skipað. Það veit enginn hvaða flokkar fara þar með meiri hl. Þess vegna er þetta mál í rauninni reifað með ákaflega óvenjulegum hætti.

Eins og ég sagði áður liggur við að hér sé um að ræða móðgandi till. við embætti forseta landsins.

Ég vildi, herra forseti, við upphaf þessarar umr. vekja athygli á að þessi till., sem hér um ræðir, er örugglega ekki í anda þess sem stjórnarskrá lýðveldisins segir skýrum stöfum.