11.03.1983
Efri deild: 67. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2913 í B-deild Alþingistíðinda. (2951)

Um þingsköp

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Eins og kunnugt er hafa allir flokkarnir, þ. á m. Framsfl., komið sér saman um það að það eigi að kjósa. Hins vegar virðist Framsfl. ekki hafa áhuga á að hið nýja þing komi saman, en væntanlega hefur það verið kosið til að koma saman. Ég vísa algerlega á bug þeim aðdróttunum sem hæstv. viðskrh. hafði hér uppi áðan varðandi hvað byggi á bak við.

Ég tel að það sé einsýnt að flokkar í þingi geti haft skoðun án þess að það þurfi að vera fellt undir einhverja einokun hjá framsóknarmönnum. Ef flokkarnir hafa þá skoðun að þeir telji að þing eigi að koma saman geta þeir látið þann vilja sinn koma fram hver og einn og saman eftir því sem þeim hentar og þurfa ekki að bíða eftir löggildingu frá Framsfl.