11.03.1983
Efri deild: 67. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2928 í B-deild Alþingistíðinda. (2958)

249. mál, samkomudagur Alþingis

Utanrrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Þegar ég flutti ræðu mína áðan heyrðist í salnum tuldrað: Þetta er einkennileg lögskýring. Ég átti von á að þeir sem töluðu slíkt í hljóði kæmu hér upp og skýrðu í hverju þessi einkennilega lögskýring væri fólgin. Ég sýndi fram á að niðurlag 22. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem segir að forseti kveðji Alþingi saman til aukafundar ef nauðsyn ber til, stæði öldungis óbreytt þrátt fyrir að þessi viljayfirlýsing — skulum við segja — þessa Alþingis verði samþykkt. Þetta er einföld lögskýring, en jafnvel einfaldar lögskýringar þarf stundum að lemja inn í höfuðið á mönnum. En ég tek það svo, að þeim hafi gefist tími til að melta þetta og þeir hafi áttað sig og þögn sé sama og samþykki. Það hafa engin andmæli komið fram gegn þessari lögskýringu.

Ég gerði ennfremur að umtalsefni þann einkennilega hátt sem er á flutningi þessa máls í báðum deildum. Till. eru fluttar samhljóða í hvorri deild fyrir sig, sem ætlað er að ganga á milli deilda. Kannske er þá meiningin að Alþingi sendi frá sér þær ályktanir eða felli. Það hefur ekki verið gerð nein tilraun til þess hér að gefa skýringar á því, af hverju þessi einkennilegi máti er á hafður. Hins vegar gerði hv. 11. þm. Reykv. tilraun til þess í Sþ. í gær að gera grein fyrir því, en þær skýringar, verð ég nú að segja, voru ekki haldbetri en nýju fötin keisarans, og allir vita hvert skjól var í þeim.

Ég bar upp tvær spurningar til hv. 1. flm. Ég bar ekki upp spurningu um það, hvort það ætti að fara að mynda nýja ríkisstjórn. Ég bar í fyrsta lagi upp spurningu um hvort þessi samþykkt á þessari viljayfirlýsingu táknaði að þeir sem að henni stæðu, væru með því að boða og vildu hafa tvennar alþingiskosningar í sumar. Ekkert svar. (ÓRG: Það er rangt hjá ráðh. Hann fékk svarið strax.) Það tekur enginn mark á svari þar sem gjammað er fram í fyrir ræðumönnum, enda er það ekki fært þannig til bókar að það sjáist í þingskjölum hver hefur talað þau orð. (ÓRG: Það er sjálfsagt að endurtaka það í ræðustólnum fyrir ráðh.) Já, ég spurði ennfremur og í öðru lagi að því, hvort það væri skoðun og viðhorf hv. þm., 11. þm. Reykv. persónulega að hann vildi hafa tvennar alþingiskosningar í sumar, og gerði það raunar að gefnu tilefni eftir að hann hafði skotið þessu eina litla orði, sem er svo ólíkt honum, inn í mína ræðu.

Ég verð að segja að það er nú sjaldan að þessum hv. ræðumanni verði orðs vant, þ.e. 11. þm. Reykv., en það var hógvær maður sem stóð hér í ræðustól áðan. Ég var eiginlega farinn að örvænta um að hann ætlaði nokkuð að láta til sín heyra. Það er bara eins og allur vindur hafi farið úr honum í ofstopanum í Sþ. áðan. Það er jafnvel svo, að stærstu vindbelgir geta sprungið ef of mikið er á þá reynt og gat kemur á þá.

Ég hef lýst því áður, að með tilliti til þess að þetta breytir í engu þeim ákvæðum stjórnarskrárinnar, sem um kvaðningu aukaþings gilda, og með tilliti til þess að það verður algerlega á valdi forseta, í reyndinni á valdi þess forsrh. sem þá situr við völd, hvenær aukaþing verður kallað saman, þá er þetta markleysa. Þess vegna er það síður en svo að þessi þáttill. sé nokkurt hitamál fyrir okkur framsóknarmenn. Við göngum út frá því sem gefnu að þessi till. nái fram að ganga og hún verði samþykkt af þeim þremur flokkum sem að henni standa. Það er sjálfsagt mál og ekkert við því að segja. En hún er hitamál fyrir þá. Það er bersýnilegt af því sem hér hefur gerst í þingi og þeim óróa sem vakinn var upp í Sþ. fyrir skömmu þar sem allt, ekki framtíðarheill þjóðarinnar en allur gangur mála á Alþingi, var undir því komið að þessi till. næði fram að ganga, það væri bara ekkert hægt að gera fyrr en búið væri að afgreiða hana.

Þessi till. er vissulega kappsmál þeirra sem að henni standa, en hún er síður en svo kappsmál og hitamál frá hendi okkar framsóknarmanna. Við látum samþykkt hennar okkur í léttu rúmi liggja. En við teljum óeðlilegt að vera á þessu stigi að ákveða samkomudag þings fyrir fram þegar menn vita svo lítið um framtíðina, jafnvel þó með þessari viljayfirlýsingu sé aðeins verið að gera ráð fyrir ákveðnum samkomudegi aukaþings. Þess vegna munum við greiða atkv. gegn till., en það er ekki annað en það sem oft kemur fyrir að menn greiða atkv. gegn því sem þeir eru ekki samþykkir þó að ekki sé um nein stórmál að ræða.

En þó að litlar skýringar hafi komið fram á málsmeðferðinni á þessari till. hefur komið fram sú skýring að hún sé fylgifiskur við stjórnarskrárbreytingu. Stjórnarskrárbreyting sú, sem hér er langleiðina komin, hefur verið gerð með samkomulagi allra flokka. Það hefur að ég hygg ekki gerst fyrr á Alþingi að hafi verið staðið þannig að stjórnarskrárbreytingu í því samstarfi og því samkomulagi og þeirri málamiðlun sem menn hafa staðið að, og er óskemmtilegur endir að egna þannig til ósamkomulags um algert aukaatriði og óþarft í því sambandi.

En hvað sem því líður verð ég að segja það, og ég held að allir hv. deildarmenn hljóti að fallast á það, að úr því að þetta er túlkað sem fylgifiskur við stjórnarskrármálið hefði verið rökréttara að afgreiða það að fullu áður en farið er að afgreiða þennan fylgifisk. Látum það vera að hann hefði fram komið, en að fara að leggja þessa ógnaráherslu á það að hann sé afgreiddur áður en sjálft stjórnarskrármálið er afgreitt, það vekur furðu. Á dagskrá hv. Ed. er 3. umr. um stjórnarskrárbreytinguna, 1. málið. Eins og ég sagði rétt áðan hefði það verið það eina rökrétta að afgreiða það mál áður en farið er að afgreiða þetta, sem sagt er að sé fylgifiskur við stjórnarskrármálið. Hvað sem því líður vænti ég þess að jafnskjótt sem þessi ályktun hefur verið afgreidd verði 1. dagskrármál, stjórnarskrármálið, afgreitt á þessum fundi.