11.03.1983
Efri deild: 67. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2931 í B-deild Alþingistíðinda. (2960)

249. mál, samkomudagur Alþingis

Flm. (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að tala hér aftur, en það er greinilegt að hæstv. utanrrh. er mikið kappsmál að fá að hlýða á ræðu mína um þetta mál. Færi nú betur að það hefði löngum verið svo. Það hefur ekki alltaf verið svo að hæstv. utanrrh. hafi verið kappsmál að hlýða á mínar ræður. Man ég þá tíð. að vísu fyrir mörgum árum, að honum var kappsmál að ég segði sem minnst. (Utanrrh.: Föðurleg umhyggja.) Það er greinilegt að sú föðurlega umhyggja bar ekki mikinn árangur. Enda er hæstv. utanrrh. eini formaður stjórnmálaflokks á Íslandi sem hefur afrekað að láta fylgi flokksins minnka um þriðjung frá því að hann tók við og þar til að hann skilaði formennskunni af sér. Betur hefði því verið að föðurhlutverkið gagnvart flokknum hefði verið ræki sem skyldi.

Það fór ekki fram hjá neinum að hæstv. ráðh. var reiður mjög. Ekki gekk það upp í hans ræðu að telja þetta annars vegar ómerkilegt mál og merkingarlaust og hins vegar lýsa því yfir að þetta mál jafngilti því að egna til ósamkomulags hér í þinginu. Hins vegar var greinilegt að hæstv. ráðh. lýsti öðru yfir en formaður Framsfl. og aðrir talsmenn Framsfl. hafa gert undanfarna daga. m.a. hæstv. viðskrh. Það hefur vakið undrun okkar margra að því hefur verið lýst yfir af hálfu Framsfl. að þessi till., sem hæstv. utanrrh. kallar merkingarlausa og léttvæga, hefur engu að síður af ýmsum talsmönnum Framsfl. verið talin tilefni til þess að þeir gengju út úr ríkisstj., ef hún yrði samþykkt. Formaður flokksins hefur meira að segja lýst því yfir af þessu tilefni að hann hafi lengi langað út úr þessari ríkisstj. og fagni því jafnvel að fá nú á grundvelli þessarar till. tækifæri til að fara út úr ríkisstj. Nú kemur það fram hjá hæstv. utanrrh. að Framsfl. hefur ekkert slíkt í hyggju. Það kom fram hjá hæstv. ráðh. áðan að auðvitað mundi Framsfl. taka því ef þessi till. yrði samþykkt. Enn einu sinni hefur það gerst, sem sumir hafa kallað, að blaðrið í formanni Framsóknarflokksins hefur reynst markleysa. Enda hafa fáir lagt trúnað á þessar stóru yfirlýsingar um brottgöngu úr ríkisstj. vegna þessarar till. Að því leyti var ræða hæstv. utanrrh. merkileg að hann var fyrst og fremst að tala til formanns Framsfl. Hann var enn einu sinni að gera tilraunir til þess hér á Alþingi að ala upp núverandi formann Framsfl. Kannske er það sams konar föðurleg umhyggja eins og hann taldi sig á sínum tíma sýna mér.

Það er alveg sjálfsagt að endurtaka það fyrir hæstv. ráðh. hér úr ræðustól að það ber alls ekki að túlka þessa till. sem viljayfirlýsingu um tvennar kosningar. Það er alveg skýrt. Hins vegar spurði hæstv. ráðh. að því, hvort ég teldi persónulega að aðrar kosningar væru heppilegar í sumar. Ég hef ekki tekið afstöðu til þess á hvaða dagsetningu slíkar kosningar eiga að fara fram. Ég hef hins vegar verið þeirrar skoðunar, að það væri óeðlilegt að er þjóðþingið hefur samþykkt nýja skipun á kosningum í landinu færi þingmeirihluti að byggja ríkisstjórn á skipulagi sem þegar er búið að ákveða að eigi að heyra sögunni til. Það hefur reyndar verið venjan á undanförnum áratugum þegar slíkar breytingar hafa verið gerðar, 1942 og 1959. Mér heyrðist hæstv. ráðh. reyndar fyrr í dag, þegar þessi till. kom til umr., ekki vera fjarri þeirri skoðun að óeðlilegt væri að það liði langur tími þar til hið nýja skipulag væri framkvæmt. Það verður hins vegar matsatriði hvenær þær kosningar eiga að fara fram.

Eins og ég gerði skýra grein fyrir í minni framsöguræðu eru það fyrst og fremst þrenns konar málefni sem verður að vinna að að loknum þessum kosningum. Það er myndun nýrrar ríkisstjórnar. Það eru aðgerðir í efnahagsmálum. Það er umfjöllun um það kosningalagafrv. sem tilheyrir þessari stjórnarskrá. Ég er ekki, né neinn annar, í stöðu til þess að meta hér og nú hvað þetta tekur langan tíma. Það er hins vegar ljóst að hæstv. viðskrh. hefur endurtekið það oft hér í kvöld að það er Framsfl. mikið kappsmál að mynda sem fyrst ríkisstjórn án Alþb. Það er auðvitað merkilegasti atburðurinn við þessa yfirlýsingu, að hæstv. viðskrh. skuli hafa tekið svona af skarið.

Hins vegar vil ég vekja athygli á því í tilefni af öllum þessum umr. um ríkisstj., og menn geta velt því fyrir sér sér til skemmtunar, að ráðh. Framsóknarflokksins hafa lýst því yfir að þessi ríkisstj. ætti að segja af sér. Þeir hafa hins vegar talið að þeir ættu ekki að gera það fyrr en eftir einn og hálfan til tvo mánuði. Hæstv. ráðh. Pálmi Jónsson hefur líka lýst því yfir að þessi ríkisstj. ætti að segja af sér strax eftir 23. apríl. Það liggja alveg skýrt fyrir yfirlýsingar frá tveimur aðilum þessarar ríkisstj. um að þessi ríkisstj. eigi að segja af sér. Ég veit ekki til þess að nokkur talsmaður Alþb. hafi lýst því yfir að þessi ríkisstj. ætti að segja af sér. Ég skil því ekki hvaðan allar þessar hugleiðingar hjá hæstv. ráðh. um viðræður okkar við stjórnarandstöðuna ættu að vera spunnar. Það eru þeir en ekki við sem hafa lýst því yfir að það væri bráðnauðsynlegt að fara að mynda aðra ríkisstj. en þessa. Ef einhverjir eru búnir að gera það upp við sig skýrt og klárt opinberlega að þeir vilji vista sig annars staðar eru það ráðh. Framsfl. og hæstv. ráðh. Pálmi Jónsson.

Hæstv. utanrrh. vék að því áðan að honum fyndist sérkennilegt að 3. umr. um stjórnarskrárfrv., sem fjallar um breytingu á kjördæmaskipuninni, færi ekki hér fram. Ég get tjáð hæstv. ráðh. það hvað mig snertir og fleiri, að við höfum áskilið okkur rétt til að taka til máls í þeirri 3. umr., þegar að henni kemur, m.a. í tilefni af þeirri ræðu sem hæstv. ráðh. Tómas Árnason flutti hér á sínum tíma. Ennfremur höfum við talið það sjálfsagða kurteisi við hæstv. forsrh. Gunnar Thoroddsen að það stjórnarskrárfrv., sem hann hefur hér flutt, verði tekið til umr. í þessari hv. deild áður en 3. og lokaumr. um hitt stjórnarskrármálið fer fram. Ég heyri greinilega á hæstv. utanrrh. að hann er ekki þeirrar skoðunar að sýna eigi hæstv. forsrh. þessa kurteisi. Hæstv. forsrh. hefur lagt fram frv. um stjórnarskrána — viðamikið frv., byggt á vinnu margra manna. Hann hefur óskað eftir því að mæla fyrir því frv. Hæstv. forseti þessarar deildar hefur tilkynnt okkur að hann muni verða við þeirri ósk innan tíðar. Við töldum sjálfsagt og eðlilegt, þegar við fjölluðum um þessi mál á samvinnufundum forseta og formanna þingflokkanna, að 1. umr. um stjórnarskrárfrv. hæstv. forsrh. færi fram áður en endanlegri afgreiðslu þingsins á stjórnarskrármálum lýkur. Það er af minni hálfu ásamt hinni ástæðunni, um rétt til þess að fjalla um kjördæmamálið við 3. umr., meginástæða þess að það sé rétt hjá hv. Ed. að bíða með afgreiðslu 3. og lokaumr. frv: sem snertir kjördæmaskipunina þar til 1. umr. um stjórnarskrárfrv. hæstv. forsrh. hefur farið fram.