11.03.1983
Neðri deild: 62. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2938 í B-deild Alþingistíðinda. (2970)

230. mál, almannatryggingar

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir gagnrýni hv. 3. þm. Austurl. að því er varðar meðferð á þessu máli og hvernig það horfir við í sambandi við efnahagsástand þessa dagana. En ég vil fyrst og fremst koma hér til þess að benda á aðra staðreynd, sem hlýtur að tengjast eðlilega þessu máli, hvort sem um er að ræða það frv. sem hér er til umr. á þskj. 575 eða ákvörðun ríkisstj. í sambandi við endurgreiðslu, og það er sú staðreynd að engir samningar eru í gildi milli Tannlæknafélags Íslands og Tryggingastofnunar ríkisins. Þeim var sagt upp 1981 af þeirri einföldu ástæðu, að Tannlæknafélag Íslands neitaði að fallast á þau skilyrði sem reynt var að koma á um meðferð reikninga, meðferð á upplýsingum í þeirra starfi, sem auðvelduðu eða gerðu nauðsynlegt opinbert eftirlit með þessari gjaldtöku. Þetta finnst mér nauðsynlegt að komi hér fram. Ég minni á það, að hér hafa verið gerðar fyrirspurnir árið 1979, 1980 og 1981 um þessi mál, þar sem þetta hefur greinilega komið fram. Það eru ekki til neinir samningar eða samræmdar opinberar reglur um skyldur tannlækna, bæði að því er varðar gjaldskrá og upplýsingar í sambandi við gjaldtöku þeirra, sem hægt væri að byggja á slíkar niðurgreiðslur. Mér finnst ákaflega þýðingarmikið að menn átti sig á þessu, ekki síst með tilliti til hinna opinberu upplýsinga sem hér hafa komið fram í sölum Alþingis um launagreiðslur Reykjavíkurborgar vegna tannlækninga skólabarna eða þeirra sem njóta núna samkv. lögum réttinda í sambandi við tannviðgerðir. Það voru engar smáupphæðir. Og það kom fram í sambandi við þetta, sem ég var að tala hér um, að engar samræmdar reglur eru til. Hvernig í ósköpunum á að fara að því að endurgreiða tannlæknakostnað ef þetta atriði er ekki tekið til meðferðar um leið? Tannlæknar geta hækkað sinn taxta ekki aðeins um 20% heldur jafnvel um 40–50% áður en til kemur sú viðmiðun sem þarf að nota til þess að ákvarða slíka endurgreiðslu. Þetta finnst mér nauðsynlegt að komi fram í þessu máli. Hér er verk að vinna sem ég álít að heilbrmrn. og Tryggingastofnun ríkisins verði að koma í framkvæmd.