11.03.1983
Neðri deild: 62. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2948 í B-deild Alþingistíðinda. (2994)

163. mál, verðlag

Frsm. meiri hl. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að tala mikið í þessu máli og mun ekki gera. Ég hélt að nóg væri að mæla fyrir nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. En því miður hefur hv. 3. þm. Austurl. gefið mér tilefni til þess að leiðrétta hér misskilning sem fram kom hjá honum þegar hann mælti fyrir nál. minni hl. fjh.- og viðskn. í þessu máli.

Ég vil fyrst benda á að borgarstjórn hefur sótt um hækkun hvað eftir annað, í mörg ár og síðast í nóv. s.l., án þess að fá svar. Því var það að borgarstjórn vildi láta á það reyna í byrjun árs, í febr., að taka einhliða ákvörðun um hækkun gjaldskrár Strætisvagna Reykjavíkur. Var þá haldinn fundur í verðlagsráði. Borgarstjóri fyrir hönd borgarstjórnar óskaði eftir fundargerðum verðlagsráðs fyrir þann fund með það í huga að eiga fund með verðlagsstjóra. Þær fundargerðir voru ekki tilbúnar. Fundur var næst haldinn seint í febr. og þá lögð fyrir fundargerð verðlagsráðs frá byrjun febr. En það var gerð við hana aths. og sú aths. kom ekki í fundargerð verðlagsráðs fyrr en í byrjun mars og var þá liðinn um mánuður frá því að borgarstjóri óskaði eftir upplýsingum í fundargerð til þess að undirbúa fund með verðlagsstjóra.

Ég held að hér sé alrangt farið með þegar talað er um að lýðræði sé í hættu af völdum borgarstjórnar Reykjavíkur eða af aðgerðum borgarstjóra sem starfar í fullu umboði borgarstjórnar. Ég segi borgarstjórnar, vegna þess að ég á hér við fleiri en borgarstjóra, því að málið er það sama undir þessari meirihlutastjórn í Reykjavík eins og það var á síðasta kjörtímabili þegar vinstri meiri hl. ríkti hér í höfuðborginni. En hvað er það sem ágreiningurinn stendur um núna? Ágreiningurinn stendur um það að fargjöld hjá Strætisvögnum Reykjavíkur voru hækkuð án samráðs við verðlagsstjóra nú síðast upp í 10 kr. vegna þess að verðlagsstjóri og verðlagsráð hafði leyft Strætisvögnum Kópavogs að hækka sín gjöld upp í þá upphæð. Barnafargjöld eru að sjálfsögðu þau sömu hjá báðum fyrirtækjum, þ.e. 5 kr. farið.

En um hvað erum við þá að tala? Við erum að tala um það, að þegar borgarstjórn Reykjavíkur hækkar sín gjöld upp í það sama sem Kópavogsvagnarnir hafa, þá kemur fyrirskipun frá verðlagsstjóra um að Strætisvagnar Reykjavíkur skuli taka upp afsláttarkort og selja, afsláttarkort sem borgarstjórn Reykjavíkur hafði ákveðið að fella niður. Það er þar sem ég álít að verðlagsráð eða verðlagsstjóri fari út fyrir sína heimild samkv. lögum. Hann getur ekki ákveðið þar hvort fyrirtæki eða stofnanir úti í bæ gefi afslátt eða gefi ekki afslátt.

Þessu til viðbótar vil ég benda á að Strætisvagnar Reykjavíkur keyra lengri vegalengdir en Kópavogsvagnarnir. Þeir keyra lengri vegalengdir en Hafnarfjarðarvagnarnir. Frá Lækjartorgi í Reykjavík upp í Breiðholt er sama vegalengd og frá Lækjartorgi til Hafnarfjarðar, en það eru hér um bil þrisvar sinnum lægri fargjöld hjá Strætisvögnum Reykjavíkur, þrátt fyrir það að til viðbótar kemur leiðin frá Lækjartorgi vestur í bæ og út á Seltjarnarnes, þannig að vegalengdin sem keyrð er er þó nokkuð miklu lengri, ef ekki helmingi lengri en það sem Strætisvagnar Hafnarfjarðar keyra og miklu meira en það sem Strætisvagnar Kópavogs keyra.

Ég vil bara að þetta komi hér fram til upplýsinga, þannig að ef ætti að meta gjaldskrá Strætisvagna Reykjavíkur og bera hana saman á þann hátt að ekinn kílómetrafjöldi væri tekinn inn í gjaldskrána, þá væri gjaldskrá Reykjavíkurvagnanna mun lægri en t.d. Hafnarfjarðarvagnanna. En það er ekki það sem verið er að fara fram á. Hér er ágreiningurinn nú vegna þess að opinber aðili, þ.e. framkvæmdavaldið eða verðlagsstjóri í umboði framkvæmdavaldsins, tekur sér heimild til að fyrirskipa kjörnum fulltrúum sveitarfélaga að gefa afslátt af verði, sem þegar er það lágt, að Reykjavíkurborg þarf að standa undir a.m.k. um 600 millj. gkr. sem þarf að borga með rekstrinum til viðbótar við allan fjárfestingarkostnað kringum fyrirtækið og rekstur þess.

Ég hafði ekki búist við því að inn í þessar umr. mundi fléttast ágreiningurinn á milli borgarstjóra og verðlagsstjóra, sem er algert aukaatriði í þessu máli, og síst af öllu að það kæmi frá hv. formanni fjh.- og viðskn., vegna þess að ég hef reynt hann í samstarfi vera mjög samvinnuþýðan og skilningsgóðan þegar um mál til samkomulags er að ræða. Hér hafa deiluaðilar úti í bæ orðið sáttir við lausn á málinu. Samþykkt þessa frv., sem hér er lagt fram á þskj. 253, 1. flm. Friðrik Sophusson, er talin til bóta af báðum deiluaðilum. En meðan þessi breyting er ekki samþykkt telur verðlagsstjóri sig vera að fara að lögum og það láir honum það enginn. Við erum hér sem stjórnvald að reyna að koma málum þannig fyrir, að ágreiningur skapist ekki, málaferli verði óþörf og samkomulag um gjaldskrá Strætisvagna Reykjavíkur og önnur samskipti við verðlagsyfirvöld geti verið eðlileg á þann hátt sem þau eiga að vera annars vegar á milli framkvæmdavalds, sem telur sig starfa í umboði Alþingis, en hins vegar kjörinna sveitarstjórnarmanna.