11.03.1983
Neðri deild: 62. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2950 í B-deild Alþingistíðinda. (2996)

163. mál, verðlag

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal hafa orð mín fá. Það dylst engum, sem kunnugir eru rekstri hinna ýmsu fyrirtækja Reykjavíkur, að þau gjalda þess mjög illa að vísitölufjölskyldan er staðsett í Reykjavík, eins og þar stendur og notað er í daglegu tali, þannig að það eru 100 fjölskyldur á Reykjavíkursvæðinu sem tekið er mið af. Ýmis þjónustufyrirtæki Reykjavíkurborgar fara mjög illa út úr málum af þessum orsökum, t.d. Hitaveita Reykjavíkur. Hún hleypir upp vísitölu. Aftur á móti þó að hitunarkostnaðurinn hækki fjórfalt utan Reykjavíkur, þá kemur það ekkert inn í vísitölu. Þess vegna er það keppikefli allra stjórnvalda að halda niðri ýmiss konar þjónustuatriðum í Reykjavík. Ég hefði álitið að það væri hægt að taka upp nýjan vísitölugrundvöll án þess að í honum þyrftu að felast sérstakar skerðingar og væri það ákaflega mikið atriði fyrir Reykjavík. Þá væru það 170 eða 200 fjölskyldur í Reykjavík, á Ísafirði, á Akureyri, í Neskaupstað, á Hvolsvelli, í Vestmannaeyjum o.s.frv., sem miðað væri við, og þá kæmi þarna mynd af kostnaði á landsbyggðinni. Ef þessi nýi grundvöllur væri tekinn upp, þá liggur það fyrir samkv. könnun að vísitalan mundi hækka beinlínis út af ferðakostnaði, flugfargjöldum, símakostnaði og fleiri atriðum, ég tala nú ekki um hitunarkostnaði. Þetta væri raunhæfasta leiðin —.

Ég vil taka undir með hv. 3. þm. Austurl. Hvernig í ósköpunum er hægt að ætlast til þess að þessum lögum sé breytt eins og á stendur, jafnvel þó að menn séu þm. Reykv., þegar borgarstjórinn í Reykjavík og — af því að hann er hér fjarstaddur — forseti borgarstjórnar, Albert Guðmundsson, eru búnir að túlka þessi lög þannig að þeir þurfi ekki að sækja um hækkun til verðlagsstjóra. Og þeir hafa ekki sótt um hækkun eftir áramót heldur hækkað einhliða og verið sett lögbann á þá. Þeir túlka þessi lög svona einhliða. En þessi lög koma kostnaði við strætisvagna ekki nokkurn skapaðan hlut við. Við þurfum ekkert að sækja, þetta er gerunnið mál. Ekki er það nú sterkt fyrir borgarstjórann í Reykjavík eða forseta borgarstjórnar að viðhafa þessa túlkun annars vegar fyrir dómstólum og koma svo hér á Alþingi og leggja til að þessi lög verði afnumin til þess að hægt sé að hækka eðlilega ákveðin þjónustugjöld. Þetta er alger andstæða í málflutningi. Það er heldur ekki hægt, eins og hv. 3. þm. Austurl. tók fram, að stefna málum, sækja ekki um hækkanir og stofna til átaka og leggja svo til, meðan málið er fyrir dómstólum, að lögin séu afnumin. Ég væri til í að endurskoða þessi lög, en alls ekki undir þessum kringumstæðum.

Ég held að slíkur málflutningur og þessi tillögugerð verði ekki til að styrkja borgarstjóra fyrir dómstólum. Þessi lagagrein kemur því ekkert við hvort við hækkum strætisvagnagjöld eða ekki, það fellur ekki undir þessa lagagrein. Síðan er talið nauðsynlegt að Alþingi felli niður þessa lagagrein til að við getum hækkað strætisvagna og ýmislegt annað.

Það má tala um þetta langt mál. Vandamál Reykjavíkur í sambandi við þessi þjónustufyrirtæki eru til staðar, það ber að viðurkenna. Ég er á því að þau þurfi að leysa. En svona uppstilling á málum er engum til góðs.