11.03.1983
Neðri deild: 62. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2953 í B-deild Alþingistíðinda. (3005)

248. mál, samkomudagur Alþingis

Flm. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þessi till. til þál. er þess efnis, að Alþingi lýsi yfir þeim vilja sínum, að þing verði kvatt saman eigi síðar en 18 dögum eftir að næstu kosningar hafa farið fram. Flm. till. eru þeir þm. sem sæti áttu í stjórnarskrárnefnd frá Sjálfstfl., Alþb. og Alþfl. Við töldum rétt að flytja þessa till. í báðum deildum þingsins en ekki Sþ. vegna þess hvað þetta mál var rætt í stjórnarskrárnefndinni. Þar var rætt um það að flytja sameiginlega till. hvað þetta varðar, en fulltrúar Framsfl., sem er fjórði stjórnmálaflokkurinn sem stóð að flutningi frv. til breytinga á stjórnskipunarlögum, lýstu því yfir, að þeir vildu ekki vera með í flutningi þessa máls. Því töldum við rétt, fulltrúar hinna flokkanna, að flytja þessa till. í deildum af þessum sömu aðilum en ekki í Sþ.

Það er mikill misskilningur, sem fram kom hér í Sþ. í gær og fréttaskýrendur hafa verið að ræða síðan till. var flutt, að þessi flutningur í deildum væri vantraust á forseta Sþ. Þetta er alger misskilningur. Tillöguflutningur í deildum byggist eingöngu á því, að við töldum að ef þm. almennt óska eftir því, eða sérstaklega sá flokkur sem stendur ekki að þessum tillöguflutningi, að málið verði rætt í nefnd, sem ég tel sjálfsagt að gert sé ef fram kemur ósk um það, þá sé eðlilegt að sama nefndin fjallaði um málið en ekki væri kosin þriðja stjórnarskrárnefndin í Sþ. Ég vil láta þetta koma fram, því að annars getur þetta lítið út eins og nokkurs konar vantraust á hæstv. forseta Sþ., sem enginn fótur er fyrir.

Tveir flokkar, sem standa að þessari till. um samkomudag, eru í stjórnarandstöðu. Þeir hafa því ekki aðild að þingrofsréttinum og því er eðlilegt að þeir geri þá kröfu, þegar þeir standa að stjórnlagabreytingunni, að það sé trygging fyrir því að Alþingi verði kvatt saman fljótlega að kosningum loknum. Annars hefði verið hægt að segja að flokkar þeir og flokksbrot, sem að ríkisstj. standa, geti setið svo lengi sem þeir vilja og ekki kvatt þing saman fyrr en 10. okt. í haust. Ég tek alveg undir það að það eru fleiri mál á ferðinni, sem þarfnast úrlausnar og afgreiðslu, en stjórnskipunarlögin. Það er brýn nauðsyn á því að ræða hið allra fyrsta hið alvarlega ástand í efnahagsmálum þjóðarinnar. Af þeirri ástæðu einnig er brýn nauðsyn að tryggja að Alþingi lýsi því yfir að þing komi saman eigi síðar en 18 dögum eftir að næstu kosningar hafa farið fram.

Ég tel að hið nýja þing verði að ákveða hvað ákvarðað er í þessum efnum en ekki þetta þing sem senn fer að kveðja. Mannabreytingar verða alltaf töluverðar eins og menn vita og því er rétt að yfirlýsing komi fram um það frá Alþingi sjálfu, af því að hér er það mikill meiri hluti fyrir því, að þessi háttur verði á hafður.

Herra forseti. Ég geri ekki ákveðna till. um að vísa þessari þáltill. til nefndar nema fram komi ósk um það, en þá hef ég þann fyrirvara á að ég tel eðlilegast að málinu verði vísað til stjórnarskrárnefndar sem hefur áður fjallað um málið.