11.03.1983
Sameinað þing: 64. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2976 í B-deild Alþingistíðinda. (3023)

Um þingsköp

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Það er einkennilegt að varaformaður Framsfl. skuli gera sér sérstakt ómak til þess að halda uppi málþófi hér utan dagskrár eða um þingsköp. Ég veit ekki hvaða ástæðu þessi hv. þm. hefur til þess að reyna að koma í veg fyrir það að virðulegur hæstv. iðnrh. fái að láta ljós sitt skína í þessum efnum. Ég ætla mér a.m.k. ekki að biðja um orðið fyrr en það er víst að þeir sem mest vita um málið og hafa best um það að segja hafi möguleika til þess að koma hér á undan mér.

En, herra forseti. Ástæðan til þess að ég kom hérna upp er einfaldlega sú, að ég leyfði mér að gera aths. við þetta þskj. sem menn veifa hér í kringum sig en ég hef því miður ekki undir höndum. Hins vegar veit ég hvernig það er. Þetta er 3. útgáfa þess þskj. sem átti að brúka. (HÁ: Þetta sagðirðu í gær.) Ég sagði það í gær og ég get alveg fullyrt það, að það hefur ekki farið verulega vel inn í heilabúið á þeim mönnum sem eiga að sjá um að hafa þetta í lagi, vegna þess að þskj. er langt frá því að vera nægilega gott.

Hvaða ástæður lágu að baki því þskj. sem var undanfari þessa? Mig langar að vita með hvers konar hugarfari menn láta slíkt þskj. frá sér fara, því að þar stóð einvörðungu að þetta væri þskj. frá meiri hl. n. og ekki sagt hverjir þeir væru. Það vill svo til að ég er einn af nm. og menn gætu nefnilega haldið, með því að lesa eingöngu þetta orð, meiri hl. n., að ég væri einn af flm. Slíkt er auðvitað ósæmilegt. (FrS: Það stendur í grg.) Já, greinargerðir gerast nú býsna langar og hætt við því að menn leggi ekki í það verkefni að lesa greinargerðir. Og þessi er svo leiðinleg og vitlaus, að ég trúi því ekki að menn almennt leggi það á sig að lesa hana, eftir að hafa lesið þessa dæmalausu till. Ég leyfði mér að benda á það, að á þetta þskj. vantaði auðvitað að greina frá því hver væri frsm. Það er ekkert svo sjálfgefið að hv. þm. Friðrik Sophusson sé frsm. málsins, nema síður sé, vegna þess að hv. þm. og formaður stjórnar Framkvæmdastofnunarinnar í landinu er þó nefndur þarna fyrstur.

Ég ætla ekki að eyða tíma Sþ., herra forseti, í að ræða þessi vinnubrögð n. undir þessum lið, um þingsköp, því að ég neyðist til að skýra gang þess máls allan áður en þessari umr. lýkur og vil mælast til þess að hv. frsm. hlýði þá vel á og taki eftir.