11.03.1983
Sameinað þing: 64. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2989 í B-deild Alþingistíðinda. (3028)

Um þingsköp

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég vil taka það fram að mér þykir ákvörðun hæstv. forseta í hæsta máta eðlileg. Forseti Sþ. hefur æðsta vald hér um fundarstjórn og það er alveg ómótmælanlegt að samkv. þingsköpum hefur hann fullan rétt til að halda áfram fundi í Sþ. Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, formaður þingflokks Alþb., er að vísu mikill valdsmaður hér í þinginu, en ákvarðanir forseta Sþ. eru þó ennþá gildari en óskir hans.

Það er auðvitað fjarstæða að telja að forseti Sþ. hafi misbeitt valdi sínu. Það er líka fjarstæða að telja að ég hafi lagst á hann með nokkrum hætti eða knúið hann til eins eða neins. Ég styð hins vegar ákvörðun þá, sem hann hafði þegar tekið og öllum var vitanleg strax í gærkvöld, að hér verði fundur í Sþ. síðdegis og fram á kvöld eða nótt, ef þurfa þykir.