11.03.1983
Sameinað þing: 64. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2989 í B-deild Alþingistíðinda. (3029)

Um þingsköp

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hefur rakið í sínu máli gang þessa máls og ég þarf ekki að ítreka í sjálfu sér margt af því sem hann hefur sagt. En ég vil þó segja að á þessum fundi okkar í dag kom fram formleg ósk þriggja þingflokka um að deildafundir yrðu haldnir í dag eða kvöld til þess að halda áfram umr. um þau mál sem þar eru á dagskrá. Ég lýsi sérstökum vonbrigðum mínum yfir því, að hæstv. forseti Sþ. hefur ekki talið sér fært að verða við þessum óskum þriggja þingflokka. Ég skil satt að segja ekki í því hvernig á því stendur að ekki megi verða við þessari sjálfsögðu beiðni.

Það er staðreynd, að það eru ýmis mál óafgreidd í deildum þingsins og mér sýnist að þessi afstaða hæstv. forseta hljóti að leiða til þess að við lendum í vandræðum með þingstörf á mánudaginn. Það hefur þegar verið ákveðin sjónvarpsumr. frá Alþingi á mánudagskvöldið. Það hefur verið talað um að þinglausnir verði að loknum þessum sjónvarpsumr. Ég get ekki með nokkru móti séð að af því geti orðið, ef staðið verður að málum eins og hér er ætlað.

Við höfum sjálfsagt misjafnan áhuga á framgangi einstakra mála sem ennþá eru á dagskrá bæði deilda og Sþ. Við í stjórnarandstöðunni og Alþb. höfum áhuga á að tillögurnar, sem eru fyrir báðum deildum þingsins um samkomudag hins nýja Alþingis, verði afgreiddar fyrst. Og ég vænti þess að hæstv. forsetar hafi skilið að við munum ekki greiða fyrir framgangi mála í þinginu meðan þær tillögur hafa ekki verið afgreiddar. Við höfum boðið samstarf. Það hafa ekki verið settar fram neinar hótanir. Við höfum boðið samstarf við stjórnarliða um þinghaldið, en slíkt tilboð, sem frá okkur hefur komið, hefur æ ofan í æ verið lítilsvirt og það er enn verið að því með afstöðunni sem hér er tekin.

Ég vil taka það mjög skýrt fram að við sjálfstæðismenn erum ekki að koma í veg fyrir afgreiðslu á till. um álviðræðunefndina þó að við séum að fara fram á frestun á þeirri umr. núna um stund. (ÓÞÞ: Það bendir nú allt til þess.) Það er mikill misskilningur, hv. þm. Ólafur Þórðarson, en þú hefur misskilið það sem meira er. Það er okkar sameiginlegt áhugamál, stjórnarandstöðunnar og hæstv. forseta Sþ., ef ég hef skilið rétt, að það mál hljóti afgreiðslu á þessu þingi, og það skal ekki standa á okkur í stjórnarandstöðunni að sitja hér á fundi í nótt, ef þarf, til þess að koma þeirri umr. áfram, og það munum við gera.

Ég ítreka þessa ósk okkar, að gert verði hlé á fundum Sþ. Ég ætla ekki að taka svo djúpt í árinni, sem hér var gert áðan, að hæstv. forseti Sþ. hafi misbeitt valdi sínu. Það tel ég ekki að hann hafi gert. Mér er alveg ljóst það, sem hv. þm. Páll Pétursson var að segja áðan, að forseti Sþ. hæstv. hefur vald til þess að halda áfram störfum í Sþ. En það kemur okkur á óvart ef hann ætlar gersamlega að hundsa beiðni þriggja þingflokka og það vekur vissar grunsemdir um að hann meti meira óskir síns eigin flokks í þessu efni en óskir hinna þriggja þingflokkanna.

Ég ítreka að ég vænti þess að hæstv. forseti endurskoði þessa afstöðu sína um leið og ég lýsi því yfir að við sjálfstæðismenn erum reiðubúnir að taka þátt í störfum Sþ. í kvöld og nótt, ef þurfa þykir.