11.03.1983
Sameinað þing: 64. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 3016 í B-deild Alþingistíðinda. (3039)

Afbrigði vegna almennra stjórnmálaumræðna

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Eins og hv. alþm. er kunnugt hefur það tíðkast síðan þessi ríkisstj. var mynduð að hópur manna, sem nefndur hefur verið sjálfstæðismenn sem styðja ríkisstj., hefur fengið sérstakan umræðutíma við útvarpsumr. frá Alþingi. Nú hefur það gerst að tveir úr þessum hópi, hæstv. dómsmrh. Friðjón Þórðarson og hæstv. landbrh. Pálmi Jónsson, hafa tekið sæti sem efstu menn á listum Sjálfstfl. í komandi þingkosningum. Þeir hafa lýst því yfir að þeir muni ganga til þess leiks undir einingarmerki Sjálfstfl., hvernig svo sem það lítur nú annars út. Þeir munu væntanlega um þessa helgi taka þátt í stefnumótandi fundi með öðrum frambjóðendum flokksins, þar sem stefna flokksins í næstu kosningum verður ákveðin. Þess vegna höfum við ýmsir talið að ekki væri eðlilegt að haldið væri áfram þeim hætti sem hér hefur ríkt. Það væri óeðlilegt að þessir tveir frambjóðendur Sjálfstfl. sem skipa efstu sæti listans í Norðurl. v. og Vesturl., fengju hér aukatíma á hv. Alþingi í útvarpsumr. til að fjalla um málið. Um þetta var fjallað á fundum formanna þingflokka og forseta fyrir nokkrum dögum.

Nú hefur það hins vegar gerst, að hæstv. forsrh. hefur á fundi formanna þingflokka og forseta í dag mótmælt því eindregið að þessir tveir hæstv. ráðherrar, Pálmi Jónsson og Friðjón Þórðarson séu þannig merktir Sjálfstfl. sérstaklega að þeir tilheyri honum hér á Alþingi. Hæstv. forsrh. hefur óskað eftir því að þeir verði áfram merktir sér í umr. frá Alþingi og tali sem slíkir. (Gripið fram í.) Þessi ósk hæstv. forsrh., að þessir tveir frambjóðendur Sjálfstfl. gangi þess vegna til leiks í útvarpsumr. sérstaklega eyrnamerktir ráðh. einum, sem ekki verður í framboði fyrir Sjálfstfl. hefur orðið til þess að sú afstaða sem áður hafðir verið talin eðlileg af okkur mörgum hefur nú breyst. Það mun koma fram í atkvgr. við þá till., sem hæstv. forseti hefur hér kynnt og sem hæstv. forsrh. óskaði eftir að hann flytti, hverjir hér í þingsalnum telja eðlilegra, að hæstv. ráðh. Pálmi Jónsson og Friðjón Þórðarson séu áfram merktir forsrh. sérstaklega en ekki Sjálfstfl.