14.03.1983
Efri deild: 68. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 3083 í B-deild Alþingistíðinda. (3064)

243. mál, stjórnarskipunarlög

Flm. (Gunnar Thoroddsen, forsrh.):

Herra forseti. Á þeim árum er stofnun lýðveldis var í undirbúningi þótti það einsýnt og virtust menn almennt um það sammála að endurskoða þyrfti stjórnarskrána frá 1874 í heild.

Á árunum fyrir 1944 var þetta mál mjög rætt, en niðurstaðan var sú, að endurskoðun væri það viðamikil að ekki væri unnt að ljúka henni fyrir stofnun lýðveldisins 17. júní 1944. Það varð því að ráði að breyta stjórnarskránni þá aðeins á þá lund sem leiddi af sambandsslitum við Danmörku og stofnun lýðveldis á Íslandi. Jafnframt var ákveðið að halda áfram heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar. Að því skyldu vinna tvær nefndir: Önnur var stjórnarskrárnefnd undir formennsku Gísla Sveinssonar, sem hafði þá um stund unnið að þessum málum, en jafnframt var ákveðið að skipa svokallaða ráðgjafarnefnd, sem Sigurður Eggerz var formaður fyrir.

Nokkrum árum síðar, 1947, tók við stjórnarskrárnefnd sem Bjarni Benediktsson var formaður fyrir. Árið 1974 var enn skipuð stjórnarskrárnefnd og var Hannibal Valdimarsson formaður hennar.

Í maímánuði 1978 var svo gerð ályktun um endurskoðun stjórnarskrárinnar og þar ákvarðað að þingflokkar skyldu að loknum alþingiskosningum á því ári skipa nýja nefnd, þar sem flokkarnir ættu fulltrúa í hlutfalli við þm.-tölu þeirra á nýkjörnu Alþingi.

Hæstv. þáverandi forsrh., Ólafur Jóhannesson, boðaði þessa nefnd til 1. fundar 1. des. 1978 og gekkst fyrir kosningu formanns. Í þessari nefnd eiga sæti Gylfi Þ. Gíslason, Jón Baldvin Hannibalsson, Matthías Bjarnason, Ólafur Ragnar Grímsson, Ragnar Arnalds, Sigurður Gizurarson, Tómas Tómasson, Þórarinn Þórarinsson og Gunnar Thoroddsen, sem var kjörinn formaður.

Ráðunautur nefndarinnar er Gunnar Schram og ritari Guðmundur Benediktsson.

Í ágústmánuði 1980 sendi nefndin frá sér tvær skýrslur. Önnur þeirra var „yfirlit um ýmis atriði, sem koma til athugunar við endurskoðun stjórnarskrárinnar“, m.ö.o. almennt um endurskoðun stjórnarskrárinnar í heild. Hin skýrslan var „hugmyndir um breytingar á kjördæmaskipan og kosningafyrirkomulagi“. Þetta var í ágúst 1980.

2. des. 1982 gaf svo nefndin út skýrslu um kjördæmamálið og í jan. 1983 skýrslu um endurskoðun stjórnarskrárinnar í heild.

Í formála þeirrar skýrslu segir: „hefur ýmsum greinum stjórnarskrárinnar verið breytt allverulega frá því sem nú er, en aðrar greinar eru óbreyttar... Hefur náðst samstaða í nefndinni um að senda þingflokkunum þessa skýrslu sem grundvöll að umræðum innan þeirra um textann. Nefndarmenn hafa gert fyrirvara um afstöðu flokka sinna og sína, þegar málið kemur fyrir Alþingi“.

Í sambandi við flutning málsins vil ég geta þess, að það var vilji stjórnarskrárnefndar að fullbúið yrði frv. til nýrrar stjórnarskrár, sem lagt yrði fyrir Alþingi nú, en ekki látnar nægja þær skýrslur sem samdar höfðu verið og útbúnar. Þetta þótti æskilegt til þess að skapa betri og aðgengilegri grundvöll að öllum umr., bæði á Alþingi og meðal þjóðarinnar, um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Að þessu var síðan og meiri hluti stjórnarskrárnefndar var fylgjandi því að frv. yrði hér á Alþingi flutt af forsrh. Í því sambandi má geta þess, að samkvæmt lögum og reglugerðum Stjórnarráðs Íslands heyrir stjórnarskráin og þar með endurskoðun hennar, stjórnskipulega og stjórnarfarslega, undir forsætisráðuneytið.

Í grg. frv. er gefið nokkurt yfirlit um helstu breytingar og nýmæli í stjórnarskránni og áður en ég fer út í einstakar greinar vil ég aðeins renna yfir þá skrá.

Þá er í fyrsta lagi: Lýðræði, þingræði og jafnrétti skulu vera grundvallarreglur stjórnskipunarinnar. Stjórnvöld ríkisins fari með vald sitt í umboði þjóðarinnar.

2. Þingræðisreglan er staðfest með því að ríkisstjórn skuli njóta stuðnings meiri hluta Alþingis eða hlutleysis.

3. Hafi viðræður um stjórnarmyndun ekki leitt til nýrrar ríkisstjórnar innan átta vikna er forseta heimilt að skipa ríkisstjórn.

4. Breytt ákvæði eru um skipan og setningu ríkisstarfsmanna.

5. Samningar Íslands við önnur ríki skulu allir kunngjörðir Alþingi.

6. Forseti getur aðeins rofið Alþingi með samþykki þess sjálfs og þingrofsrétturinn er þrengdur.

7. Alþingismenn skuli halda umboðum sínum til kjördags, þegar þing er rofið.

8. Synjunarvaldi forseta er breytt, þannig að frv. fái ekki lagagildi fyrr en að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu sé það þar samþykkt.

9. Heimild til brbl. er þrengd frá því sem nú er.

10. Alþingi starfi í einni málstofu.

11. Kosningaaldur er lækkaður og lögheimilisskilyrði rýmkað.

12. Veruleg breyting er gerð á ákvæðum um nefndir Alþingis, störf þeirra og vald.

13. Nýtt fyrirkomulag er á endurskoðun ríkisreikninga.

14. Landsdómur er lagður niður.

15. Ákvæði um ríkissaksóknara eru tekin í stjórnarskrá.

16. Skýrt er tekið fram að ráðherrar fari með vald forseta nema á tveim sviðum, við stjórnarmyndanir og staðfestingarneitun laga.

17. Ákvæði eru tekin upp um Hæstarétt og dómsmálakaflinn gerður allur ítarlegri og fyllri.

18. Mannréttindakaflinn er gerður miklum mun ítarlegri, breytt er ákvæðum og þau gerð rækilegri og ný í mannréttindi tekin upp í kaflann.

19. Þá eru mun ítarlegri ákvæði sett um réttindi sveitarfélaga landsins.

20. Bann við afturvirkni skattalaga.

21. Ákvæði um auðlindir landsins.

22. Ákvæði um náttúruvernd.

23. Ákvæði um heimild til þjóðaratkvæðagreiðslu.

24. Ný ákvæði um hvernig stjórnarskránni skuli breytt.

25. Umboðsmaður eða ármaður Alþingis verði lögfestur. Hlutverk hans sé að kanna kærur vegna meintra misgerða yfirvalda gagnvart borgurunum.

1. og 2. gr. stjórnarskrárinnar er samkvæmt þessum tillögum mjög breytt frá því sem nú er. Þar segir í 1. gr.: „Ísland er frjálst og fullvalda lýðveldi. Lýðræði, þingræði og jafnrétti eru grundvallarreglur stjórnskipunar Íslands. Handhafar ríkisvaldsins fara með vald sitt í umboði þjóðarinnar.“

2. gr. mælir fyrir um handhafa ríkisvaldsins.

Hér segir í upphafi eins og fram hefur verið tekið: Ísland er frjálst og fullvalda lýðveldi. Það er til áherslu á frelsi og sjálfstæði íslensku þjóðarinnar í eigin málum og gagnvart öðrum ríkjum. Með því er jafnframt minnt á þann merka viðburð í þjóðarsögunni er Ísland hlaut viðurkenningu fullveldis 1. des. 1918. Í því sambandi er rétt að geta þess sem áður var lögð á mikil áhersla og viðkvæmara var þá kannske en hjá sumum í seinni tíð, sem kunna ekki glögg skil á því. Það sem gerðist 1918 hét það, að Danmörk viðurkennir fullveldi Íslands. Það var ekki svo að Ísland öðlaðist fullveldi, því að öll okkar sjálfstæðisbarátta undir forustu Jóns Sigurðssonar byggðist á því að Ísland hefði jafnan verið fullvalda ríki og var m.a. byggt þar mjög á Gamla sáttmála. Hér var því um að ræða viðurkenningu á fullveldi, en ekki það að Ísland öðlaðist fullveldi.

Þá er í 1. gr. tekið fram að grundvallarreglur stjórnskipunar Íslands skuli vera lýðræði, þingræði og jafnrétti. Þessi þrjú atriði hafa í raun verið og eru hornsteinar íslenskrar stjórnskipunar. Þeirra hefur ekki verið getið í stjórnarskrá til þessa, en eru nú skýrt tekin fram og undirstrikuð.

Þingræðisreglan er nú á órækan hátt lögfest í stjórnarskrá, en eitt meginmarkmið sjálfstæðisbaráttunnar var að fá innlenda stjórn sem ábyrg væri gagnvart Alþingi.

Þótt Alþingi væri með stjórnarskránni 1874 veitt hlutdeild í löggjafarvaldinu í hinum svokölluðu sérmálum fékk það ekki rétt til áhrifa á meðferð framkvæmdavaldsins. Einn af ráðherrum dönsku stjórnarinnar fór með málefni Íslands. Alþingi hafði engin áhrif á skipun hans og hann átti ekki sæti á Alþingi. Æðsti fulltrúi konungsvaldsins hér á landi var landshöfðingi. Hann sat á Alþingi stöðu sinni samkvæmt, en bar enga ábyrgð gagnvart Alþingi og það réði engu um skipun hans í embætti.

Á þessu ástandi varð grundvallarbreyting með stjórnarskipunarlögunum árið 1903, þegar heimastjórn var lögfest. Samkvæmt þeim skyldi ráðherra Íslands vera innlendur maður og hafa aðsetur í Reykjavík, eiga stöðu sinni samkvæmt sæti á Alþingi og bera ábyrgð fyrir því. Árið eftir, 1904, voru sett sérstök lög um ábyrgð ráðherra Íslands.

Það hefur verið talið að með heimastjórnarlögunum 1903 hafi þingræðið verið í raun lögleitt hér á landi, þótt þess væri hvergi getið berum orðum í þeim stjórnskipunarlögum. Það má vel vera, en hins vegar er það ekki rétt, sem stundum er haldið fram, að fyrsti ráðherra Íslands, Hannes Hafstein, hafi verið valinn af Alþingi eða meiri hluta þess. Það var danska stjórnin eða danski Íslandsráðherrann sem réði því vali, og m.a. hafði hann boðið öðrum manni ráðherrastólinn áður. Hins vegar kom það í ljós strax að þessi fyrsti ráðherra, Hannes Hafstein, naut stuðnings meiri hluta Alþingis, þó að aðdragandinn væri þessi, sem ég lýsti, og við næstu kosningar á eftir lýsti Hannes Hafstein því yfir að hann viki úr starfi eingöngu fyrir vantrausti, sem síðan var samþykkt. Þar með var náttúrlega þingræðisreglunni formlega slegið fastri.

Með stjórnlagabreytingum sem fylgdu í kjölfar sambandslagasamningsins frá 1918 og fullveldisviðurkenningar var tekið upp það ákvæði í stjórnarskrána að stjórnskipulagið skyldi vera þingbundin konungsstjórn. Með því ákvæði var þingræðinu veitt ótvíræð stoð í stjórnarskránni. Það var tekið óbreytt í lýðveldisstjórnarskrána 1944 nema að lýðveldi kom í stað konungsstjórnar.

Í því frv., sem hér liggur fyrir, er þetta skýrar orðað og beinlínis fram tekið að þingræðið sé ein af grundvallarreglum stjórnskipunarinnar, en nánari ákvæði um hvað í þingræðisreglum felst og um framkvæmd hennar er að finna í 13. gr. frv.

Ákvæði um að jafnrétti skuli vera ein af grundvallarreglum stjórnarskrárinnar er nýmæli í stjórnarskrá. Í margvíslegri löggjöf sér þess hins vegar stað, að gert er ráð fyrir almennu jafnrétti landsmanna, og þess hefur verið gætt í vaxandi mæli í margvíslegri lagasetningu, sem ber þessa vitni. Árið 1976 voru sett almenn lög um jafnrétti kvenna og karla. Nú er hin almenna jafnréttisregla hins vegar í fyrsta sinn lögbundin í stjórnarskrá samkv. þessum till. og tekur hún til allra sviða í íslenskum rétti.

Í mannréttindakafla frv. er síðan nánar vikið að jafnréttisreglunni, bæði í 62. og 63. gr.

Síðasta málsgr. 1. gr. frv, er einnig nýmæli. Hér er sú grundvallarregla lögfest að handhafar ríkisvaldsins fara með vald sitt í umboði þjóðarinnar. Uppspretta alls ríkisvalds er því hjá þjóðinni og má þar vitna til hinnar frægu 3. gr. frönsku mannréttindayfirlýsingarinnar frá 1789: „Allt þjóðfélagsvald á rætur sínar hjá þjóðinni.“

Framkvæmd þessa ákvæðis endurspeglast m.a. í því, að þjóðin velur í almennum, leynilegum kosningum þjóðhöfðingjann og æðstu handhafa ríkisvaldsins.

Um margar greinar frv. þessa vil ég vísa til athugasemda eða greinargerðar með frv., þar sem víða er um ítarlegar skýringar að ræða, en mun þó minnast á nokkrar þessara greina.

Í 11. gr. frv. er fjallað um valdsvið forseta. Umr. urðu um það töluverðar í stjórnarskrárnefnd hvort lagt skyldi til að breytingar yrðu gerðar á valdsviði og verkefnum forseta frá því sem nú er. Ýmsir kostir voru ræddir í því efni.

Það var rætt um þær hugmyndir, sem upp komu við endurskoðun stjórnarskrárinnar á árunum 1942–1944, að löggjafarvaldið og framkvæmdavaldið skyldu með öllu aðskilin, forseti kjörinn sem oddviti framkvæmdavaldsins, er skipaði ráðherra sína úr hópi utanþingsmanna, og þingræðið þar með afnumið. Hér væri um stjórnarfyrirkomulag að ræða áþekkt hinu bandaríska forsetaveldi.

Í öðru lagi var rætt um að ganga nokkru skemmra til breytinga, auka vald forseta frá því sem nú er, en afnema þó ekki þingræðið. M.a. var rætt um valdsvið forseta Finnlands, en stjórnarskrá þess lands mælir m.a. fyrir um veruleg áhrif hans á mótun utanríkisstefnu landsins. Þá var þeim hugmyndum og hreyft að forseti fengi aukið vald í þeirri mynd að hann skipaði upp á sitt eindæmi hæstaréttardómara og ef til vill nokkra æðstu starfsmenn landsins.

Það er skemmst frá því að segja um þessar umr. allar, að sú hugmynd að taka upp forsetaveldi og afnema þingræðið fékk ekki hljómgrunn í stjórnarskrárnefnd. Ekki þótti heldur ástæða til að auka valdsvið og verkefni forseta frá því sem nú er.

Efni 13. gr. frv. er að mestu leyti nýmæli. Þar er fjallað um þingræði og stjórnarmyndanir, en um hvorugt atriðið eru skýr ákvæði í gildandi stjórnlögum.

Í 1. mgr. er nú beinlínis tekið fram að forseti Íslands ákveði hverju sinni hverjum hann felur að mynda ríkisstjórn. Hér er drepið á eitt mikilvægasta hlutverk forseta í stjórnskipuninni, verk sem hann vinnur á eigin ábyrgð, en ekki eftir tillögum ráðherra sem oftast endranær. Hér var honum það í sjálfsvald sett til hverra forustumanna í stjórnmálum hann leitar um stjórnarmyndun og er það vald forseta undirstrikað í þessari málsgrein.

Í 2. mgr. 13. gr. er vikið að kjarna þingræðisreglunnar. Það ófrávíkjandi skilyrði er sett að ríkisstjórn skuli njóta stuðnings meiri hluta Alþingis eða hlutleysis. Hér er um að ræða hina hefðbundnu skilgreiningu á þingræðinu og þótti rétt og sjálfsagt að festa hana í stjórnarskrá.

Í 3. málsgr. er fjallað um stjórnarmyndanir. Ekki eru nú í stjórnarskrá eða lögum nein ákvæði sem mæla fyrir um það, hve langan frest forseti skuli veita þingflokkum til stjórnarmyndunar áður en gripið verði til þess ráðs að forseti skipi ríkisstjórn. Menn tala stundum um utanþingsstjórn. Raunar eru önnur heiti þar notuð, eins og embættismannastjórn eða forsetastjórn, en það er nú undir mati forseta sjálfs komið hvenær hann telur að til þess þurfi að grípa. Þess eru ýmis dæmi að stjórnarmyndanir hafi dregist mjög á langinn og hafa allt að fjórir mánuðir liðið frá því að stjórn segir af sér þar til ný var mynduð. Utanþingsstjórn hefur hins vegar aðeins einu sinni verið skipuð, sú er sat hér árin 1942–1944.

Nefndin taldi eðlilegt að í stjórnarskrá yrðu sett ákvæði um tiltekin tímamörk í þessu efni. Því er lagt til að fram sé tekið að forseta sé heimilt að skipa slíka stjórn, ef viðræður flokkanna um stjórnarmyndun hafa ekki leitt til myndunar nýrrar ríkisstjórnar innan átta vikna. Með þessu ákvæði er flokkunum veittur þessi tiltekni frestur til stjórnarmyndunar. Orðalagið ber hins vegar með sér að sú stjórn sem forseti skipar að fresti liðnum þarf ekki að vera utanþingsstjórn, eins og ég drap á hér áður, heldur gæti hún verið skipuð mönnum bæði utan þings og innan, jafnvel þm. eingöngu. Meginmarkmið þessa ákvæðis er að veita flokkunum aukið aðhald við stjórnarmyndanir, koma í veg fyrir að þær dragist óhóflega á langinn og veita forseta skýrari heimildir til skipunar ríkisstjórnar að eigin frumkvæði en nú er.

Þá er í 15. gr. sú meginbreyting gerð frá ríkjandi skipan að Landsdómur er lagður niður. Er svo mælt fyrir að Hæstiréttur dæmi í þeim málum, er Alþingi kærir ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra.

Landsdómur var upphaflega settur á stofn með lögum frá 1905, en nú gilda um hann lög nr. 3 frá 1963.

Hlutverk Landsdóms er að fara með og dæma þau mál er Alþingi ákveður að höfða gegn ráðherrum út af embættisverkum þeirra.

Landsdómur hefur aldrei komið saman og Hæstiréttur getur að sjálfsögðu eins vel fjallað um þau mál, er Alþingi ákveður að höfða gegn ráðherrum vegna embættisbrota, og ekki ástæða til að halda í stjórnarskrá ákvæðum um sérstakan dómstól í því efni.

Að því er ráðherraábyrgð varðar er engin tillaga gerð um breytingar á þeim ákvæðum í stjórnarskránni, sem um hana fjalla og þau eru nánar útfærð í lögum um ráðherraábyrgð.

Í 19. gr. er fjallað um skipun og ráðningu ríkisstarfsmanna. Er um það mál rætt ítarlega í greinargerð, sem ég ætla ekki að rekja hér nánar, en vísa til hennar.

Í 20. gr. er fjallað um sama efni og nú er í 21. gr. Þar eru tvö nýmæli. Annars vegar er hér bætt lofthelgi við land og landhelgi og ennfremur að gera skuli Alþingi grein fyrir gerð allra samninga við önnur ríki, og getur það gerst með ýmsum hætti, eins og rakið er í athugasemdum.

21. gr. frv. fjallar um það ákvæði að forseti Íslands stefni saman Alþingi og bætt er við orðunum, sem eru staðfesting á framkvæmd þessa ákvæðis, að það skuli gert að tillögu forsrh.

Í stjórnarskrárnefndinni gerðu fulltrúar Alþfl. tillögu um að þessu yrði breytt þannig, að það verði ekki forseti Íslands heldur forseti Alþingis sem stefni Alþingi saman ár hvert.

22. gr. fjallar um frestun á fundum Alþingis og gerði Alþfl. þar einnig till. um að það væri forseti Alþingis en ekki forseti Íslands sem hefði heimildina til slíkrar frestunar.

23. gr. frv. fjallar um þingrof og eru þar gerðar verulegar breytingar. Í fyrsta lagi sú meginbreyting, að í stað þess að þingrofsréttur er nú í höndum forseta Íslands og þá á ábyrgð forsætisráðherra skuli aðeins heimilt að rjúfa Alþingi með samþykkt þess sjálfs. Ennfremur að stofna skuli til nýrra kosninga áður en 45 dagar eru liðnir frá því að það var rofið og Alþingi komi saman eigi síðar en fjórum mánuðum eftir að það var rofið. Þessir frestir báðir eru styttir, annar úr tveim mánuðum í 45 daga og hinn úr átta mánuðum í fjóra mánuði. Loks er sú breyting gerð að alþm. skuli halda umboði sínu til kjördags. Um það hefur ekki verið ákveðið í stjórnarskránni og hefur það hvort tveggja gerst við þingrof að alþm. hafa haldið umboðum til kjördags eða umboð þeirra hafa fallið niður um leið og þing var rofið.

Fulltrúar Alþfl. í stjórnarskrárnefnd gerðu till. um að greinin yrði á annan veg, eins og tekið er fram í aths. Ég kem þá að 24. gr. frv., þ.e. um neitunarvald gagnvart lögum.

Á meðan konungsstjórn var hér á landi hafði konungur algjört neitunarvald gagnvart lögum sem Alþingi hafði samþykkt. Í framkvæmd var það hins vegar svo að eftir 1914 synjaði konungur aldrei staðfestingar. Með lýðveldisstjórnarskránni varð breyting á þessari skipan. Það var ekki lengur um synjunarvald forseta að ræða, hvorki algert né frestandi, heldur var forseta heimilt að neita að staðfesta lagafrv., en það skyldi engu að síður fá lagagildi, en þá skyldi svo skjótt sem kostur væri bera það undir atkvæði kosningarbærra manna í landinu.

Lögin féllu úr gildi, ef samþykkis var synjað, ella halda þau gildi sínu. Þetta eru þau ákvæði sem nú eru.

Hér er lagt til að veruleg breyting verði á þessu ákvæði. Hún er á þá lund, að áður en forseti tekur ákvörðun um hvort hann staðfestir lagafrv. getur hann óskað eftir því, að um það fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla. Ef frv. er fellt er forseta heimilt að neita að staðfesta það. Sé það samþykkt skal hann á hinn bóginn staðfesta það. Ástæðan fyrir þessari breytingu, sem stjórnarskrárnefnd leggur til, er aðallega þessi: Ef forseti neitar nú að staðfesta lagafrv. hefur það í för með sér þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Forseti er þá væntanlega á öndverðum meiði við þing og ríkisstjórn, sem þegar hafa fallist á lögin. Það er óhjákvæmilegt að í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar komi þessir aðilar fram sem andstæðingar. Það er á allan hátt óæskilegt. Hins vegar skerst ekki í odda á sama hátt ef forseti getur áður en hann tekur afstöðu til málsins látið kanna hug þjóðarinnar til málsins og síðan tekið sína ákvörðun.

26. gr. frv. fjallar um rétt til útgáfu brbl. Taldi nefndin rétt að gera þar ýmsar breytingar á og þrengja og takmarka þann rétt sem hingað til hefur verið um útgáfu brbl.

Það er í fyrsta lagi nýmæli að brbl. skuli ætíð lögð fyrir næsta Alþingi í upphafi þings, en slík skylda er ekki samkvæmt núgildandi stjórnarskrá.

Í öðru lagi: Hafi Alþingi ekki samþ. brbl. þrem mánuðum eftir þingsetningu falla þau úr gildi í stað þess að nú gildir sú regla að þau falla úr gildi við þinglausnir hafi þau ekki verið felld áður.

Þá er það nýmæti að kynna skal viðkomandi þingnefnd efni brbl. áður en þau eru sett.

Fulltrúar Alþfl. í stjórnarskrárnefnd lögðu hins vegar til að heimildin til útgáfu brbl. yrði felld niður úr stjórnarskránni.

28. gr. fjallar um kjördæmaskipan og kosningatilhögun og þarf ég ekki að fara um það mál mörgum orðum þar sem umr. hafa verið miklar á þingi um það undanfarnar vikur.

Það frv. sem formenn stjórnmálaflokkanna hafa flutt á Alþingi nýtur stuðnings mikils meiri hluta á Alþingi og verður væntanlega samþykkt á Alþingi nú í dag. Miðað við þessa afstöðu mikils meiri hluta alþm. er texti 1. gr. kjördæmafrv. formannanna tekinn upp í 28. gr. þessa frv.

Í skýrslu stjórnarskrárnefndar frá því í desembermánuði er fjallað mjög ítarlega um leiðir og kosti um breytingar á kjördæmaskipan landsins og þær meginreglur sem eftir skuli fara. Það voru þrjár meginreglur sem stjórnarskrárnefndin setti sér í upphafi: Í fyrsta lagi að stjórnmálaflokkar skyldu fá þingsæti í sem fyllstu samræmi við atkvæðatölur sínar við almennar kosningar, í öðru lagi að draga stórlega úr misvægi atkvæða eftir búsetu kjósenda og í þriðja lagi að auka möguleika kjósenda til að hafa áhrif á val frambjóðenda og þingmanna. Stjórnarskrárnefndin setti fram margar hugmyndir og lét kanna þær og reikna út hvernig fram kæmu, en nokkru áður en nefndin skilaði sinni grg. um kjördæmamálið höfðu formenn stjórnmálaflokkanna hafið viðræður sín á milli um leiðir í því máli til að reyna að finna þar lausn og með hliðsjón af því starfi taldi nefndin ekki ástæðu til að gera ákveðnar tillögur um kjördæmamálið eða setja fram hina margvíslegu kosti. Hún gerði sem sagt ekki ákveðna tillögu um kjördæmamálið, eins og hún gerði um önnur atriði stjórnarskrárinnar.

Í athugasemdum við frv. er getið sérstaklega einnar aðferðar, þeirrar sem í skýrslu stjórnarskrárnefndar er merkt A3 og sem flutningsmaður þessa frv. hefur talið að mörgu leyti æskilegasta og lýst er í grg. um 28. gr.

Með 29. gr. frv. er lagt til að deildaskipting Alþingis verði afnumin og það starfi í einni málstofu. Frá því er Alþingi var endurreist og fram til 1874 starfaði það í einni deild. Með stjórnarskránni 1874 var deildaskipting upp tekin, og þótt stjórnarskráin væri ekki sett í samræmi við vilja Alþingis var þetta ákvæði í samræmi við hana og efnisleg rök lágu til hennar á þeim tíma, svipuð og voru grundvallaratriði deildaskiptingar þjóðþinga um heim allan á þeim tíma. En grundvallarrökin voru þau, að kjörið var með mismunandi hætti til hinna tveggja deilda. Þannig var ákveðið 1874 að í Ed. skyldu sitja tólf þm., sex þeirra konungkjörnir þm. og sex aðrir sem kjörnir voru af Alþingi. Konungur eða ríkisstjórn hafði með þessum hætti stöðvunarvald í Ed., a.m.k. að því leyti sem hinir konungkjörnu töldu sér skylt að fylgja vilja stjórnarinnar eða konungs, sem var mjög oft, en þó ekki undantekningalaust.

Konungkjörið var svo afnumið 1915 og landskjör sett í staðinn. Hinir landskjörnu þingmenn skyldu allir sitja í Ed., voru sjálfkjörnir þangað, en það var ákveðið að kosningarréttar- og kjörgengisskilyrði skyldu vera önnur. Það var miðað við 35 ára aldur í staðinn fyrir 25 ára. En svo gerist það 1934 að landskjörið, sem kom í stað konungkjörs, var fellt niður og jöfnunarþingsæti tekin upp í staðinn og síðan eða í nærri hálfa öld hafa þm. allir verið kosnir til Alþingis með sama hætti og þeir kjósa svo úr sínum hópi lögboðna tölu til Ed. eða 20 þm., þriðjung þingmanna. Því má segja að deildaskiptingin hafi að vissu leyti misst sína fyrri þýðingu þar sem um langt skeið hefur enginn munur verið á kjöri til hinna tveggja deilda og flestar hinar fyrri sögulegu forsendur deildaskiptingar eru horfnar.

Fyrir nokkru var deildaskipting þjóðþinga Dana og Svía afnumin. Stjórnarskrárnefnd kynnti sér rækilega hver reynsla hefði orðið í þessum löndum, bæði með skriflegum upplýsingum og persónuviðtölum við forseta beggja þinganna og ýmsa framámenn í stjórnmálum þessara landa. Þeir luku upp einum munni um það, að breytingin í báðum löndum hefði verið til bóta og í hvorugu landinu hafa síðan komið fram tillögur um afturhvarf til hins fyrra forms. Aðalkostina telja þeir vera þá, að mál gangi greiðar og hraðar og þátttaka þingmanna í þingstörfum hafi almennt aukist. Í danska þjóðþinginu eru umræður um hvert frv. þrjár, eins og er um fjárlög hér á landi. Á hinn bóginn er almenna reglan sú, að aðeins ein umr. fer fram um hvert lagafrv. í Svíþjóð, en þá hefur það líka hlotið mjög ítarlega athugun í þingnefnd.

Í athugasemdum við frv. er drepið á samtal sem formaður stjórnarskrárnefndar og ráðunautur áttu við dómsmrh. Svíþjóðar og getið er um í skýrslu nefndarinnar, þar sem hann sagði m.a. að tvímælalaust væri góð reynsla af störfum sænska þingsins í einni málstofu. Kostir breytingarinnar hafa fyrst og fremst verið þeir, að málsmeðferð nú er öll miklu einfaldari og afleiðing einföldunar málsmeðferðar hafi verið sú, að afgreiðsla gengur öll miklu hraðar fyrir sig en áður. Hins vegar tók dómsmrh. það fram, að þótt hafi nauðsynlegt að gera róttækar breytingar á skipan og störfum þingnefnda þegar deildaskipting var afnumin.

Hér er vikið að mjög mikilvægu atriði því tvímælalaust verður nauðsynlegt að gera miklar breytingar á störfum þingnefnda þegar þingið verður ein málstofa. Um það þarf að fjalla ítarlega í lögum um þingsköp, en í 39. gr. þessa frv. eru þegar gerðar tillögur um gerbreytt stjórnarskrárákvæði um þingnefndir. Það er ætlast til þess að þingnefndir fái mun meiri völd en þær hafa í dag og verði virkari í störfum.

Við afnám deildafyrirkomulags er gert ráð fyrir því samkv. frv., að hvert lagafrv. verði rætt við þrjár umr. í þinginu, auk þess sem ítarlegar umr. fari fram í n. og mun ítarlegri en nú tíðkast. Í þessu sambandi má benda á, að eitt mikilvægasta frv. þingsins, fjárlagafrv., hefur núna í nær 50 ár eða frá 1934 aðeins sætt þremur umr. í Sþ. og hefur það verið talið fullnægjandi, en fram til þess tíma var fjárlagafrv. lagt fyrir og fjallað um það í báðum deildum þingsins, eins og venjulegt lagafrv., við þrjár umræður. Þessi 50 ára reynsla virðist hafa gefist vel og hafa ekki verið uppi raddir í seinni tíð um að þyrfti að breyta því aftur í hið fyrra horf.

Í sambandi við eina málstofu gerðu fulltrúar Alþb. fyrirvara, eins og greint er í athugasemdum. Aðrir nm. höfðu einnig fyrirvara um þetta efni, en þó má fullyrða að það var skýr meiri hluti í stjórnarskrárnefnd fyrir þeirri breytingu að Alþingi verði ein málstofa.

Í 30. gr. frv. eru gerðar breytingar á skilyrðum kosningarréttar frá því sem nú er.

Kosningaaldurinn er lækkaður úr 20 í 18 ár. Það er í samræmi við lækkun á aldurslágmarki í lögum sem lúta að ýmiss konar réttindaneyslu í þjóðfélaginu, sbr. að giftingaraldur var lækkaður 1979. Í flestum nágrannatöndum hefur kosningaaldurinn verið lækkaður í 18 ár og stjórnarskrárnefnd gerir því einróma tillögu um að kosningaaldurinn verði færður úr 20 í 18 ár. Þetta ákvæði hafa formenn flokkanna tekið upp í sitt kjördæmafrv.

Önnur breytingin er um lögheimilisskilyrði sem skilyrði fyrir kosningarrétti. Var upphaflega tillaga stjórnarskrárnefndar að það yrði rýmkað þannig að lögheimill hefðu menn þurft að eiga hér einhvern tíma á næstu fjórum árum fyrir kosningar. Er það mikil rýmkun frá því sem nú er. Niðurstaðan varð svo sú eftir ábendingu og tillögu hagstofustjóra, sem hefur mestan kunnugleika á þessum efnum, að rýmka það þannig, að með atmennum lögum sé heimilt að gera undanþágur frá lögheimilisskilyrðinu í stað þess að ákveða það, eins og stjórnarskrárnefndin hafði uppálagt hér.

Þá er sú breyting gerð á þessari grein einnig, að niður er fellt það kosningarréttarskilyrði að menn hafi óflekkað mannorð, en það skilyrði er úrelt talið. Nefnd sem fjallaði um endurskoðun hegningarlaga á sinni tíð lagði til að þetta ákvæði yrði niður fellt, og er það mál rakið nánar í grg. frv.

Í 31. gr. er rætt um kjörgengi. Þar segir nú í stjórnarskrá að dómendur, sem hafa ekki umboðsstörf á höndum, skuli ekki kjörgengir. Nú er þessu breytt þannig, að það er beinlínis ákveðið að kjörgengir skuli ekki dómarar Hæstaréttar né ríkissaksóknari.

32. gr. fjallar um samkomudag reglulegs Alþingis. Í stjórnarskránni sjálfri stendur að reglulegt Alþingi skuli koma saman ár hvert eigi síðar en 15. febrúar, en breyta megi því með lögum. Það var gert 1967, sett lög um það sem gilda ekki frá ári til árs, heldur áframhaldandi. Hins vegar hefur þessi háttur, að Alþingi kæmi saman um 10. okt., verið viðhafður miklu lengur. Sú dagsetning er hér sett inn, en haldið ákvæðinu um að þessu megi breyta með lögum. Fulltrúar Alþfl. gerðu hins vegar tillögu um að bætt skyldi inn í þessa grein því ákvæði að hvert þing skuli standa þar til næsta reglulegt Alþingi kæmi saman.

Í 37. gr. stjórnarskrárinnar er fjallað um það sem nú segir í 48. gr., en þar segir að alþm. séu eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum og að embættismenn sem kosnir eru af Alþingi þurfi ekki leyfi stjórnarinnar til þess að þiggja kosninguna o.s.frv. Þessi síðari ákvæði eru felld niður í þessu frv. Það er að sjálfsögðu haldið því grundvallarákvæði í okkar stjórnskipun að alþm. séu eingöngu bundnir við sannfæringu sína, en fellt er niður, talið ástæðulaust að taka fram, að þeir séu ekki bundnir við reglur frá kjósendum og fellt niður ákvæðið um að þeir þurfi ekki leyfi yfirvalda til að taka kosningu. Meginatriðinu er sem sagt haldið.

Í 39. gr. er svo farið nánar út í það atriði sem ég minntist á hér áður um ný ákvæði um aukin störf og vald nefnda á þingi í beinu sambandi við það að deildaskipting verði afnumin. Í 39. gr. frv. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi kýs fastanefndir til upphafs næsta þings til þess að athuga þingmál. Um starfsháttu þeirra skal nánar fjallað í lögum. Alþingi getur fatið slíkum þingnefndum að kanna mikilvæg mál, er almenning varða, og veitt þeim rétt til þess að heimta skýrslur, munnlegar eða bréflegar, af opinberum stofnunum, starfsmönnum og einstökum samtökum eða fyrirtækjum. Þá getur Alþingi kjörið sérstakar nefndir þingmanna til að rannsaka mál, þegar brýn ástæða þykir til, og skal í lögum kveðið á um réttindi, skyldur og starfsháttu slíkra nefnda.“

Þessi grein, 39. gr., eins og hún er í frv., er mjög mikilvæg í sambandi við þær hugmyndir að Alþingi verði ein málstofa. Þetta mál allt saman er rakið ítarlega í athugasemdum frv. um 39. gr. og vil ég ekki lengja mál mitt með því að fara frekar út í það að sinni, en vísa til þeirrar grg.

Í 44. gr. er fjallað um nýmæli, sem er endurskoðun á fjárreiðum ríkisins. Þar segir svo í frv., að „endurskoðun á fjárreiðum ríkisins, stofnana þess og ríkisfyrirtækja skal fara fram á vegum Alþingis og í umboði þess.“ „Nánar skal fjallað um endurskoðun á fjárreiðum ríkisins, stofnana þess og ríkisfyrirtækja í lögum.“

Uppi hafa verið tillögur um það á undanförnum árum hér á landi að ríkisendurskoðun yrði ekki undir yfirstjórn fjmrh., heldur undir yfirstjórn Alþingis, og í ýmsum öðrum löndum hefur orðið mikil breyting á þessum efnum hin síðari ár þannig að löggjafarþingin eða þjóðþingin hafa tekið í sínar hendur slíka endurskoðun og breytt henni efnislega þannig að hún er ekki aðallega reikningsleg endurskoðun, heldur miklu fremur málefnaleg og gagnrýnin endurskoðun, eiginlega stjórnsýsluendurskoðun sem sums staðar hefur verið kallað. Í stjórnarskrárnefndinni var þetta mál rætt ítarlega og var það einróma skoðun manna að hér skyldi á gerð breyting og lagt til með 44. gr. að þetta verði ákveðið í sjálfri stjórnarskránni.

V. kafli stjórnarskrárinnar, sem hefst á 50. gr. og nær til 55., er gerður miklu ítarlegri en verið hefur, en hann fjallar um dómsvaldið. Aðaltilgangurinn með þessum ítarlegri ákvæðum er að gera dómstólana sem sjálfstæðasta og tryggja þeirra hlutleysi. Í fyrsta lagi þykir nú eðlilegt að æðsti dómstóll þjóðarinnar sé nefndur í stjórnarskránni, enda segir hér í 51. gr. frv. að Hæstiréttur sé æðsti dómstóll landsins. Slíkt ákvæði er ekki í stjórnarskránni sem nú gildir. Þá er í 52. gr. beinlínis ákveðið í stjórnarskránni að ríkissaksóknari fari með ákæruvaldið, hann sé í embættisstörfum sínum einungis bundinn af lögunum. Áður fyrr var ákæruvaldið í höndum ráðherra, en fyrir u.þ.b. tveim áratugum var það tekið úr höndum ráðherra og fengið óháðum embættismanni, ríkissaksóknara, eins og lengi hafði verið um rætt og óskir og tillögur um. Þetta vald, meðferð ákæruvaldsins og starf ríkissaksóknara í þessu, er svo mikilvægt að sjálfsagt þykir að kveða á um það í sjálfri stjórnarskránni.

Í 54. gr. er rætt um og ákveðið að dómstólar eigi úrskurðarvald um réttarágreining og skeri úr öllum ágreiningi um valdmörk stjórnvalda. Hér er breytt orðalagi. Í staðinn fyrir embættistakmörk yfirvalda er rætt um valdmörk stjórnvalda. En í þeirri grein, 54. grein, er það nýmæli að dómstólar skuli skera úr öllum ágreiningi um hvort lög brjóta í bága við stjórnarskrána. Það er ekkert ákvæði um slíkt í núgildandi stjórnarskrá, en hins vegar hefur Hæstiréttur Íslands talið svo vera að dómstólar hefðu úrskurðarvald hér um. Hér er um svo mikið grundvallaratriði að ræða að rétt þykir að leggja til að ákvæði um það sé sett í sjálfa stjórnarskrána.

Þá er tekinn inn nýr VI. kafli í þessum till., sem fjallar um sveitarfélög. Nú er stuttlega fjallað um þau í stjórnarskránni, í 76. gr. hennar, þar sem segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Rétti sveitarfélaga til að ráða sjálf málefnum sínum með umsjón stjórnarinnar skal skipað með lögum.“ Stjórnarskrárnefndin taldi rétt að setja ítarlegri ákvæði um sjálfstæði sveitarfélaganna og stöðu þeirra og réttindi. Og eru nú í þessum VI. kafla þrjár greinar þar um og er þar því slegið föstu að landinu skuli skipt í sveitarfélög sem ráða sjálf málefnum sínum með umsjón ríkisstj. Stjórnir sveitarfélaga skuli kjörnar í almennum leynilegum kosningum.

57. gr.: „Rétti sveitarfélaganna til að ráða sjálf málefnum sínum, sem og skiptingu á verkefnum sveitarfélaga og ríkisins, skal skipað með lögum. Um tekjustofna sveitarfélaga skal einnig fjallað í lögum.“

Hér er um grundvallaryfirlýsingar að ræða sem skipta verulegu máli.

Nýmæli er í 58. gr.: „Rétti íbúa sveitarfélags til þess að óska eftir atkvgr. um málefni sveitarfélags skal og skipað með lögum“, en slíkur réttur er í lögum sumra landa og hefur lengi verið, eins og Sviss og Bandaríkjanna, og gefið góða raun.

VII. kafli stjórnarskrárinnar fjallar um þjóðkirkjuna. Eru þau ákvæði sem þarna eru í 59. gr. og 60. gr. frv. óbreytt frá því sem er í gildandi stjórnarskrá, að hin evangelíska-lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja á Íslandi og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda, og í 60. gr., um trúfrelsi, að landsmenn eigi rétt á að stofna félög til að þjóna guði með þeim hætti sem best á við sannfæringu hvers eins. Þetta eru óbreytt ákvæði.

Í 61. gr. er þess getið að enginn megi neins í missa af borgaralegum og þjóðlegum réttindum fyrir sakir trúarbragða sinna né heldur má nokkur fyrir þá sök skorast undan almennri félagsskyldu. Þetta er óbreytt ákvæði, en hins vegar varðandi þá menn sem eru utan þjóðkirkjunnar er svo ákveðið í núgildandi stjórnarskrá að gjalda skuli til Háskóla Íslands eða einhvers styrktarsjóðs þau gjöld sem ella hefði borið að greiða til þjóðkirkjunnar, enda heyri hann ekki til öðrum trúarbragðaflokki en viðurkenndur sé í landinu. Þetta ákvæði er rýmkað þannig, að slíkur maður getur goldið til Háskólans eða einhvers viðurkennds styrktarsjóðs, sem hann sjálfur tilnefnir, slík gjöld.

Við komum þá að síðasta kafla stjórnarskrárinnar, VIII. kafla, um mannréttindi, og er þar um að ræða margvíslegar og mikilsverðar breytingar frá því sem nú er í stjórnarskrá. Í fyrstu tveim greinunum, 62. og 63., eru almenn ákvæði. Allir skuli njóta frelsis, mannhelgi og jafnréttis að lögum og mannréttinda skuli menn njóta án manngreinarálits vegna kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernis, kynþáttar, litarháttar, efnahags eða stöðu sinnar í öðru tilliti. Í þessum kafla eru bæði endurskoðuð mörg ákvæði um þau mannréttindi sem fyrir eru í stjórnarskrá, gerð fyllri og ítartegri með hliðsjón af þróun og breytingum sem gerst hafa í þjóðfélaginu, og ennfremur tekin upp ný ákvæði um réttindi, höfð hér mjög hliðsjón af ýmsum hinum nýrri stjórnarskrám og m.a. af mannréttindasáttmála Evrópuráðs, félagsmálasáttmála Evrópu, alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi eða Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna og samningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi einnig samþykkt á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.

Í 63. gr. gerir Alþb. brtt. og um nokkrar aðrar greinar í mannréttindakaflanum eru sértillögur frá Alþb. og Alþfl., eins og rækilega er rakið í grg.

Í 64. gr. er reynt að tryggja menn gegn frelsissviptingu og ákvæði er um handtöku og gæslu sakaðra manna.

65. gr. á að tryggja réttláta meðferð mála fyrir dómstólum. Í 66. gr. er bann lagt við því að refsilög verði látin hafa afturvirk áhrif og er þetta nýmæli.

Í 67. gr. er ákvæði um heimili og einkalíf, sem vernda skuli sem mannréttindi.

68. gr. er um tjáningarfrelsi, sem er orðað mjög á annan veg en nú er og miklu rýmra og tryggður réttur manna til að afla sér upplýsinga eða til að mynda sér skoðanir og koma skoðunum sínum og hvers konar upplýsingum á framfæri við aðra.

I 69. gr. er ákvæði um fundafrelsi og félagafrelsi.

Í 70. gr. er ákvæði til verndar eignarrétti. Meiri hluti n. lagði til að þau ákvæði sem þar eru skyldu óbreytt, m.a. það, að ef um eignarnám er að ræða þurfi að uppfylla viss skilyrði og m.a. að komi fullt verð fyrir, en Alþb. og Alþfl. leggja til að í staðinn fyrir orðin „fullt verð fyrir“ komi orðin: sanngjarnt verð fyrir.

71. gr. er óbreytt, um atvinnufrelsi.

72. gr. fjallar um frelsi íslenskra ríkisborgara til að flytja eða koma óhindraðir til landsins, ráða för sinni og dvöl innanlands og rétt til að fara úr landi. — (Forseti hringir.) Herra forseti. Ég á ekki eftir nema eina eða tvær mínútur. (Forseti: Já.)

73., 74. og 75. gr. tryggja margvísleg félagsleg réttindi og er þar um stefnumörkun að ræða sem löggjafinn verður að útfæra nánar í almennum lögum. Þar eru einnig fyrirvarar frá fulltrúum Alþb. um breyt. á orðalagi og nýjar greinar. Þarna eru ákvæði um fasteignir og náttúruauðæfi.

Nú skal ég stytta mál mitt vegna þess að annað stendur nú til og þarf að fresta þessum fundi eftir skamma stund.

Það er bann í 77. gr. við afturvirkni skattalaga.

Það er tillaga um að ármaður eða umboðsmaður Alþingis skuli kosinn til þess að þeir geti leitað þangað sem vilja fá leiðréttingu mála sinna og telja á rétt sinn gengið af hálfu yfirvalda. Þetta hefur verið tekið upp í nokkrum löndum og gefist mjög vel, en er mikilvæg vernd fyrir borgarana.

Þá er það nýmæli einnig, að í sambandi við stjórnarskrárbreytingar í framtíðinni skuli þær lagðar beint undir þjóðaratkvæði, sem ekki er nú, þ.e. þurfi samþykki tveggja þinga með kosningum í milli, en eftir samþykkt fyrra þingsins skuli frv. lagt undir þjóðaratkvæði.

Herra forseti. Ég hef nú reynt að kynna í meginatriðum efni þessa frv., sem hér liggur nú fyrir, og þar sem svo langt er á þinghaldið liðið að ekki verður tími til að fjalla um það frekar mun ég ekki gera till. um að því verði vísað til n. á þessu stigi, en að sjálfsögðu formsins vegna til 2. umr. En það er von mín, að með því að þetta frv. verður lagt fram gefist bæði alþm. og þjóðinni allri betri kostur en ella til þess að hugleiða þetta mikla mál.