14.03.1983
Efri deild: 68. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 3096 í B-deild Alþingistíðinda. (3073)

206. mál, stjórnarskipunarlög

Egill Jónsson:

Herra forseti. Ég vísa til fyrri afstöðu minnar varðandi þetta mál, en til viðbótar vildi ég kannske mega minna á að landsfundur Sjálfstæðisflokksins setti fram till. um kjördæmaskipanina. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins, eins og menn væntanlega vita, er valdamesta stofnun flokksins og á þeim landsfundi var samkomutag um tillögugerð við stjórnarskrármálið og m.a. að því er varðaði kjördæmabreytinguna. Þar var gert ráð fyrir fleiri þm. en eru í frv. um stjórnskipunarlögin og greiddi þar enginn maður atkv. á móti. Á þeim fundi var líka gert ráð fyrir því, að hið svokallaða vægi atkvæða væri ekki miðað við að það væri alls staðar einn á móti einum. Það hafa sem sagt sumir hv. þm. orðið nokkuð vitrari í þessum málum frá því að landsfundur Sjálfstfl. var haldinn og allir voru þar sammála. En rétt til viðbótar við þetta, af því að það er svo mikið verið að tala um hið svokallaða misvægi, get ég fagnað þeim yfirlýsingum sem um það hafa gengið og það verður látið á það reyna í umr. hér í þjóðfélaginu og hér á Alþingi hvort alþm. muni verða tilbúnir að hafa vægi í aðstöðu og kjörum íslensku þjóðarinnar það sama hvar sem er á Íslandi, og segi ég nei.