14.03.1983
Efri deild: 68. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 3096 í B-deild Alþingistíðinda. (3075)

206. mál, stjórnarskipunarlög

Guðmundur Bjarnason:

Herra forseti. Svo sem fram hefur komið í umr. um frv. það sem hér er til afgreiðslu og í ræðum margra hv. þm. hefur náðst í þinginu allvíðtækt samkomulag um flutning og afgreiðslu máls þessa milli formanna flokkanna og í þingflokkum. Þegar samkomulag næst milli manna með ólík sjónarmið er vart við því að búast að nokkur sé fullkomlega ánægður eða hafi náð fram öllu því sem hann helst óskar sér. Ég vil minna á að fleira telst til mannréttinda en kosningarréttur einn og um það verður að fjalla ítarlega við heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar. Máli mínu til áréttingar vil ég leyfa mér, með leyfi forseta, að lesa örfáar línur úr grg. frv. Þar segir:

„Þingflokkar Alþb., Alþfl., Framsfl. og Sjálfstfl., sem að frv. þessu standa, hafa auk þess orðið ásáttir um eftirfarandi:

...2. Að beita sér fyrir aukinni valddreifingu og virkara lýðræði samhliða afgreiðslu nýrrar stjórnarskrár. M.a. fái sveifarfélög meira sjálfsforræði og þannig verði völd og áhrif landsmanna allra í eigin málum aukin, óháð búsetu þeirra. Jafnframt munu þingflokkarnir beita sér fyrir sérstökum aðgerðum til þess að jafna félagslega og efnahagslega aðstöðu manna þar sem mismununar vegna búsetu gætir helst.“

Með hliðsjón af framangreindu og í trausti þess að staðið verði við gefin fyrirheit segi ég já.