14.03.1983
Efri deild: 70. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 3100 í B-deild Alþingistíðinda. (3100)

221. mál, lánsfjárlög 1983

Frsm. minni hl. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Eins og fram kom hér hjá frsm. meiri hl. hv. fjh.- og viðskn. hefur n. haft til athugunar frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1983 og eins og fram kom raunar við 1. umr. var þetta síðbúna mál til athugunar hjá fjh.- og viðskn. beggja deilda.

Í nál. minni hl. hv. fjh.- og viðskn. Nd. segir svo, með leyfi forseta:

„Hins vegar telur n. nauðsynlegt að vandlega verði fjallað um notkun fjármagnsins og ekki komi fram fullnægjandi skýringar í frv. varðandi öll atriðin, enda liggur fjárfestingar- og lánsfjáráætlun ekki fyrir.“

Það er því alveg ljóst að bæði hv. þm. sem eiga sæti í þessum n. og styðja enn ríkisstjórnina og öðrum þm., sem í þessum n. eiga sæti, er ljóst að þetta mál hefur hvergi nærri hlotið þá athugun sem vert væri um svo stefnumótandi frv. sem frv. til lánsfjárlaga er.

Á fundi n. komu fulltrúar frá Seðlabanka og Þjóðhagsstofnun og þessir aðilar bentu á margvíslega ágalla í þessu frv. og greinargerð þess, enda liggur engin fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir, en skylt er, eins og kunnugt er, samkv. svonefndum Ólafslögum að leggja þá áætlun fyrir jafnframt frv. til fjárlaga. Það er því augljóst að þetta frv. er ófullburða eins og það er frá hálfu hæstv. ríkisstj.

Í fskj. með nál. minni hl. fjh.- og viðskn., þ.e. þm. sem styðja ríkisstjórnina í Nd., er fylgiskjal frá seðlabanka Ístands þar sem skýrt kemur fram hversu þessi áætlun um lánsfjáröflun, sem gert er ráð fyrir samkv. frv., er vanáætluð og fjarri því að vera í samræmi við þær ákvarðanir sem teknar hafa verið. Það er mikið alvörumál að þetta mál skuli vera þannig úr garði gert, þar sem lánsfjárlög eru mjög mikilvægt stjórntæki í efnahagsmálum. Það hefur verið sagt að lánsfjárlög séu meira stefnumarkandi en fjárlög og má það til sanns vegar færa.

Ég vil þá gera hér, herra forseti, nokkur atriði að umræðuefni við 2. umr. um þetta mál. Þá eru það þessi helst:

Í fyrsta lagi eru forsendur þessa frv. algerlega brostnar. Forsendur frv. eru þær, að verðbreytingar milli áranna 1982–983 verði 42%, þ.e. sama forsenda og fjárlög eru byggð á, svonefnd reiknitala, en þetta þýddi um 30–32% verðbólgu frá ársbyrjun til ársloka á árinu 1983. Nú er spáð 60–70% meðalhækkun verðlags milli áranna og 70–80% verðbólgu á árinu 1983. Þeir fjármunir, sem ákveðnir eru til tiltekinna verkáfanga á slíkum forsendum í fastri krónutölu, verða stórlega vanáætlaðir eða þá að það verður að gera ráð fyrir stórfelldum niðurskurði á framkvæmdamagni þar sem forsendur frv. eru svo rangar sem raun ber vitni.

Annað atriði, sem ég vil gera hér að umræðuefni, er innlend fjáröflun, en hún er augljóslega ofmetin, eins og raunar hefur verið undanfarin ár í þeim lánsfjárlögum sem hæstv. ríkisstj. hefur lagt fyrir Alþingi. Hún er talin 821 millj. kr., en Seðlabankinn hefur þegar endurmetið þessa áætlun og telur að 623 millj. kr. séu nær sanni. Úr lífeyrissjóðunum er ætlað að afla 860 millj. kr., en 40% af ráðstöfunarfé þeirra er áætlað 770 millj. Sem kunnugt er er lögboðið að lífeyrissjóðirnir kaupi fyrir 40% af ráðstöfunarfé sínu verðtryggð skuldabréf hjá ríkissjóði, Framkvæmdasjóði og fleiri aðilum. Þessi lánsfjáröflun er því augljóslega ofmetin.

Um erlendar lántökur væri hægt að hafa langt mál, en mikið er búið að ræða um erlendar lántökur hér á undanförnum árum og misserum. Ég minnist þess, að hæstv. fjmrh. sagði við umr. um lánsfjárlög í fyrra að margvísleg fjarstæða kæmi fram í máli stjórnarandstæðinga um efnahagsmál, en þó fimbulfömbuðu þeir aldrei meira og segðu meiri vitleysur en þegar væri verið að tala um erlendar lántökur. Síðan hefur hæstv. ráðh. skrifað í blað sitt Þjóðviljann að við séum að sökkva í ískyggilega skuldasöfnun erlendis. Ég vænti þess að við, hæstv. ráðh. og ég, getum orðið alveg sammála um þetta orðalag, þannig að það verði ekki lengur ágreiningur um það milli okkar og ég verði ekki kallaður fimbulfambari þó að ég noti orð hæstv. ráðh. sjálfs í þessu efni.

Í skýrslu seðlabankans segir, sem hann gaf út 1. febr. um stöðu efnahagsmála, með leyfi forseta: „Skuldasöfnun Íslendinga gagnvart umheiminum er nú hins vegar orðin svo mikil að háskalegt væri að halda lengra áfram á þeirri braut. Háu atvinnustigi verður því ekki enn haldið uppi með þessum ráðum nema um skamman tíma.“

Þegar rætt er um erlendar lántökur verður það fyrst fyrir að benda á hvað viðskiptahallinn hefur orðið geigvænlegur undanfarin ár. Í nál. minni hl. fjh.- og viðskn. er gerð grein fyrir þessu. Þar kemur fram að jafnvel í metgóðærunum 1980-1981 var verulegur viðskiptahalli, 2.4% 1980 og 4.5% af þjóðarframleiðslu 1981. Þessi viðskiptahalli varð mun meiri í fyrra, eins og kunnugt er, eða rúm 11%. Spáð hefur verið í ár að viðskiptahallinn verði 6%. Opinberar spár um að hann verði enn verri en það liggja ekki fyrir, en öll framvinda sem af er þessu ári og það sem menn geta séð fyrir í þeim efnum bendir til þess að hann verði mun verri eða jafnvel 8-10%.

Til þess að mæta þessum mikla viðskiptahalla hefur þurft að taka mjög mikið af eyðslulánum erlendis. Að þetta séu eyðslulán er mjög auðvelt að sjá á því, að á þessum árum — 1980, 1981, 1982 og á árinu í ár — hefur fjármunamyndunin í landinu staðið nokkurn veginn í stað og dregst verulega saman í ár, en skuldaaukning okkar erlendis verður gífurlega mikil á þessu tímabili.

Árið 1978 voru löng erlend lán 33.7% af þjóðarframleiðslu, en verða yfir 50% í lok þessa árs, að mati Seðlabankans. Þetta gerist á sama tíma sem fjárfesting í landinu fer ekki vaxandi, heldur þvert á móti heldur minnkandi. Greiðslubyrði þessara lána er orðin svo

mikil að 25–26% af útflutningstekjum okkar ganga nú til greiðstu erlendra lána, en árið 1978 voru þetta 13%. Og það er athyglisvert að greiðslubyrði erlendra lána var aðeins 16.7% af útflutningstekjum þegar verst lét eftir erfiðleikaárin 1968–1969, sem voru miklu meiri erfiðleikaár en við höfum við að glíma nú, og greiðslubyrðin var 14.2% árið 1975, sem var eftir það erfiðleikatímabil sem þá gekk yfir.

Menn hafa talað um að ekki væri eðlilegt að tala um þessi hlutföll, mikla greiðslubyrði, í prósentum af þjóðarframleiðslu þar sem þjóðarframleiðslan hefði dregist saman og því væri eðlilegt að fengjust út hærri tölur nú en áður. Við þennan málflutning er það að athuga, að þó að þjóðarframleiðslan hafi dregist saman nú um skeið er hún ekki minni en hún var á þeim árum sem miðað er við. Það er einmitt vegna þess að íslenskt efnahagslíf er svo sveiflukennt. Útflutningstekjur okkar fara eftir afla og við erum mjög háð viðskiptakjörum við önnur lönd. Þess vegna er einmitt ástæða til að fara varlega á þessum sviðum. Menn geta því ekki afsakað sig með því að þjóðartekjur dragist saman, heldur ættu menn að segja þvert á móti að hér væri ljóst dæmi um að ekki má fara á ystu nöf í erlendri skuldasöfnun og alveg sérstaklega ekki í erlendri skuldasöfnun til eyðslu, eins og við höfum gert núna síðustu misseri.

Ég ætla ekki að lengja mál mitt mjög við 2. umr., herra forseti, en fara mun ég nokkrum orðum um erlendar lántökur á árinu 1983, eins og þær eru fyrirhugaðar, og um þær forsendur sem gengið er út frá í þessu frv.

Fulltrúar Seðlabankans komu á fund fjh.- og viðskn. í morgun og þar voru þeir spurðir um hvort staða þjóðarbúsins mundi ekki versna meir, ef þau erlendu lán sem frv. gerir ráð fyrir yrðu tekin, en gengið er út frá í frv., en þar er gert ráð fyrir að raungildi langra erlendra lána aukist ekki. Svar þeirra var, að þegar litið væri á heildargreiðslustöðuna í heild mundi hún versna. Það væri aðeins litið þarna á löng erlend lán, en það yrði nauðsynlegt að ganga á gjaldeyrisforðann á þessu ári ef stefnt væri að því sem í frv. segir. Þess vegna er það rétt, sem ég sagði hér við 1. umr. og vil ítreka, að staða þjóðarbúsins mun versna á þessu ári gagnvart útlöndum um a.m.k. 2 þús. millj. kr. á áætluðu verðlagi ársins 1983.

Herra forseti. Það munu liggja fyrir nú frumupplýsingar um framkvæmd lánsfjárlaga árið 1982. Þegar þau voru hér til afgreiðslu gagnrýndi ég nokkra þætti þess frv. sem þá var til afgreiðslu. Það voru í fyrsta lagi forsendur frv. Ég gagnrýndi innlenda fjáröflun, erlend fjáröflun væri vanáætluð og óvissa um fjármögnun Framkvæmdasjóðs, húsnæðismálasjóðanna og að fjölmargir lausir endar væru í þessari áætlun.

Nú liggja fyrir upplýsingar um þetta. Þar kemur í ljós að öll þessi gagnrýni átti rétt á sér. Það má eiginlega segja að það sé skólabókardæmi um hvernig lánsfjárlög, sem giltu árið 1982, voru framkvæmd, hvernig staðið hefur verið að lánsfjáráætlunargerð frá hálfu núverandi hæstv. ríkisstj. Allt þetta, sem gagnrýnt var í því sambandi, kom fram. Innlend fjáröflun var miklum mun minni en gert var ráð fyrir í þeim lánsfjárlögum. (Fjmrh.: Það er ekki rétt. Það er vitlaust lagt saman í dálkinum hjá hv. þm.) Það er ekki rétt hjá hæstv. ráðh. (Fjmrh.: Þessi niðurstöðutala er kolvitlaus.) Það kann að vera að það hafi orðið einhvers konar prentvilla í þessu, ég hef þetta ekki í höfðinu, en niðurstaðan er rétt, að því miður tókst ekki að afla þess fjár sem gert var ráð fyrir innanlands í sambandi við framkvæmd lánsfjárlaga í fyrra. Það er kjarni málsins. (Fjmrh.: Það er bara ekki rétt.) Hæstv. ráðh. verður þá að koma og sanna að svo sé ekki. Ég bendi á að sala spariskírteina var minni, ég bendi á að skuldabréfakaup banka urðu minni, ég bendi á að úr lífeyrissjóðunum kom miklu minna fé í Framkvæmdasjóð og Byggingarsjóð ríkisins en gert var ráð fyrir, þannig að innlend fjáröflun samkvæmt gildandi lánsfjárlögum í fyrra var miklu minni og slakari en gert var ráð fyrir í lögunum, enda hafði ég bent á þetta fyrir fram.

Erlendar lántökur fóru á hinn bóginn langt fram úr því sem lánsfjárlög gerðu ráð fyrir. Ef reiknað er á föstu gengi fóru erlendar lántökur 751 millj. kr. fram úr lánsfjárlögum, löng erlend lán, eða 26.5%. Langmestur munurinn varð á erlendum lántökum sem sveitarfélög tóku. Þær fóru 144% fram úr lánsfjárlögum. Opinberir aðilar fóru 21.7% fram úr, atvinnufyrirtæki 28.2% og lánastofnanir 56.5%.

Það er nokkuð merkilegt í sambandi við lánakerfið að hæstv. ráðh. verður að leggja saman aftur og aftur til að fá þá útkomu sem hann var að tala um áðan. Það er athyglisvert við erlendar lántökur að sjóðakerfið þarf sífellt að taka meiri og meiri erlend lán. Nú vita hv. þm. að framlög til þessara sjóða eru sífellt skorin niður á fjárlögum. Það er út af fyrir sig kannske ekkert við það að athuga, vegna þess að sjóðirnir eiga að lána út með verðtryggingu og einhverjum raunvöxtum, en ein afleiðingin hefur orðið að þeir hafa þurft á hærri og hærri erlendum lánum að halda.

Ég sagði áðan, herra forseti, að ég ætlaði ekki í þessari þröngu stöðu að verða langorður og ég skal efna það. Þessi atriði, sem ég hef talið til nú um framkvæmd lánsfjárlaga í fyrra, sýna og sanna að sú gagnrýni, sem ég hef hér haft uppi um gerð lánsfjárlaga fyrri ára, hefur sýnst vera rétt í reynd. Það má geta nærri að þegar þannig er að þessum málum staðið nú, sem raun ber vitni, verður árangurinn þeim mun verri og það er illt til þess að vita vegna þess að lánsfjárlög eru jafnvel mikilvægara stjórntæki í efnahagsmálum en sjálf fjárlögin.