14.03.1983
Efri deild: 70. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 3103 í B-deild Alþingistíðinda. (3101)

221. mál, lánsfjárlög 1983

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Það gerist nú heldur þunnskipað í salnum til þess að taki því að halda stefnumarkandi ræðu, en eins og kom fram hjá hv. þm. Lárusi Jónssyni, 3. þm. Norðurl. e., er margvísleg vansmíð á þessu frv. til lánsfjárlaga. Lánsfjárlög og lánsfjáráætlun eru þó ekki síður stefnumarkandi, og að mínum dómi langtum frekar, um efnahagsstjórn í landinu en fjárlögin sjálf. Þess vegna er fyllsta ástæða til að vanda til gerðar lánsfjáráætlunar og leitast við að sjá til þess að lánsfjárlögum og lánsfjáráætlun sé fylgt til hins ýtrasta.

Í umfjöllun nefndarinnar um þetta frv. til lánsfjárlaga komu fram margvíslegar upplýsingar, sem hv. 3. þm. Norðurl. e. hefur hér rakið, og í nál. frá formanni fjh.og viðskn. hv. Nd. kom fram að brýna nauðsyn bæri til að takmarka lántökur eftir föngum á þessu ári. Samt var það útkoman úr meðferð Nd. á þessu frv. til l. að það hækkaði heldur.

Nú virðist vera ljóst að það eigi ekki að gefast tækifæri til að fjalla eins ítarlega um þetta mál og eðlilegt og sjálfsagt væri. Það var ákveðið í hv. fjh.- og viðskn. þessarar deildar gegn mótmælum mínum í morgun að ljúka umfjöllun um málið. Er þá fátt til ráða, þegar gagnasöfnun getur ekki verið með eðlilegum hætti og ekki gefur tækifæri til að bera saman bækur sínar með þeim hætti sem nauðsynlegt er. En vegna þess að ég held að öllum hér hljóti að vera ljóst að eitthvert brýnasta viðfangsefnið sem við höfum á þessu ári er að halda aftur af erlendri skuldasöfnun tel ég þrátt fyrir þessar aðstæður að það sé alveg nauðsynlegt að það komi stefnumarkandi samþykkt frá Alþingi um takmörkun á erlendum lántökum á þessu ári.

Í samræmi við þetta hef ég flutt hér brtt. sem dreift hefur verið á borð þm. Í þeirri brtt. eru að vísu tvær prentvillur. Í fyrsta lagi er sagt að sú grein sem hér er gerð till. um bætist við 28. gr., en hún á að bætast við 29. gr. Í öðru lagi kemur fyrir orðið „langtímanefndar“ í brtt., en á að vera langlánanefndar. Bið ég forseta að sjá til þess að þessari breytingu verði komið á framfæri þegar þskj. verður prentað, að þessar villur verði leiðréttar, og eins bið ég hv. þm. um að taka eftir þessum villum og leiðrétta þær.

Brtt. er í sjálfu sér afar einföld. Hún hljóðar svo: „Við ráðstöfun þessa fjár og í starfi langlánanefndar skal við það miðað, að erlendar lántökur í heild á árinu 1983 verði innan við 3 300 millj. kr.“

Í fskj. 7 með frv. til lánsfjárlaga er yfirlit yfir erlendar langtímalántökur á árinu 1983. Þar er heildartala þeirra tilgreind sem 3 388.6 millj. kr. Sú till. sem ég hér flyt gerir ráð fyrir að takmarka erlendu lántökurnar nokkuð frá þessari till. eða lækka heildarlántökurnar samkv. frv. um 88.6 millj. kr. En þar með er ekki öll sagan sögð því að í umfjöllun Nd. voru lántökur hækkaðar um 73 millj. kr. Í heild er hér því till. um takmörkun frá því sem frv. litur út þegar það kemur hér til þessarar hv. deildar um 160 millj. kr.

Það hefur verið reynsla okkar að erlendar lántökur hafi haft tilhneigingu til þess að fara fram úr því sem heimilað hefur verið. En nú er meiri nauðsyn en um mörg undanfarin ár að hafa hóf á erlendum lántökum og strangt aðhald. Úr því að ekki gefst annað tækifæri til þess að koma því markmiði á framfæri þykir mér rétt að Alþingi marki stefnuna að þessu leyti og setji í rauninni þak á erlendar lántökur við 3 300 millj. kr.

Eins og hv. þm. er kunnugt er í 16. gr. laga nr. 13/1979 gert ráð fyrir því að með skýrslu ríkisstjórnarinnar um fjárfestingar- og lánsfjáráætlanir skuli einmitt lagt fram frv. um heimildir til lántöku innanlands og utan, ábyrgðarheimildir og aðrar nauðsynlegar fjáröflunarráðstafanir vegna opinberra framkvæmda og fjárfestingarlánasjóða að því marki sem slík ákvæði eru ekki í frv. til fjárlaga. Lánsfjáráætlun hefur ekki verið lögð fram, en engu að síður er nauðsynlegt að marka stefnuna eftir því sem mögulegt er. En ég ætla að leyfa mér að lesa þá grein sem hér um ræðir að öðru leyti. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Lántökuheimildir eða ábyrgðarheimildir, sem veittar eru vegna opinberra framkvæmda eða fjárfestingarlánasjóða í lánsfjárlögum þessum, skulu skoðast sem hámarksákvæði á því fjárlagaári, sem þær eiga við.

Skýrslu ríkisstjórnarinnar um fjárfestingar- og lánsfjáráætlanir skal og fylgja rammaáætlun um erlendar lántökuheimildir einkaaðila, sem langlánanefnd skal framfylgja sem hámarksáætlun.“

Hér var um að ræða á sínum tíma merkt nýmæli að því er varðaði hagstjórn á Íslandi. Það hefur ekki verið efnt til þessa og það hefur tekist illa að efna önnur ákvæði þessarar greinar. En einmitt vegna þessa ákvæðis, þar sem gert er ráð fyrir að langlánanefnd skuli starfa eftir rammaáætlun, er ennþá frekar ástæða til þess að flytja till. af því tagi sem ég hér geri. Í þessari till., sem ég geri hér, er einmitt gert ráð fyrir að langlánanefnd viti hver sá heildarrammi er sem á að fara eftir og langlánanefnd sé gert að starfa innan þess heildarramma. Að því leytinu mundi hér reyndar líka vera um framför að ræða frá því sem áður hefur gilt hjá okkur hér á landi. En meginatriðið er að það er eindregin skoðun okkar Alþýðuflokksmanna að við þær aðstæður sem ríkja í þjóðfélaginu, þegar erlendar skuldir hafa sífellt verið að hlaðast upp, dugi ekki að þm. kvarti undan því að nú aukist erlendu lánin, en flytji ekki till. um takmarkanir á erlendum lántökum í samræmi við þann málflutning sem þeir hafa í frammi. Það er skoðun okkar Alþýðuflokksmanna, að við þessar aðstæður verði að taka af skarið í þessum efnum og setja þak á erlendar lántökur, sem opinberum aðilum og langlánanefnd, sem starfar við úthlutun lána til einkaaðila, verði gert að starfa eftir.

Það er af þessum sökum, herra forseti, sem þessi brtt. er flutt og ég vænti þess að hún fái góðan stuðning hér í Ed., ekki síst með tilliti til þess að fulltrúi hvers flokksins á fætur öðrum hefur einmitt talað um nauðsyn þess að takmarka erlendar lántökur.

Við þær aðstæður sem nú ríkja hefur ekki gefist möguleiki til þess að fara nánar ofan í saumana á þessu máli eða athuga með hvaða hætti þessi takmörkun eigi að fara fram á einstökum liðum. Ef ráðrúm hefði gefist til þess hefði að sjálfsögðu verið hægt að flytja sundurliðaða till. um það efni. Nú er það ekki hægt. En það er hins vegar ekki síður mikilvægt í þessari till. að hér er langlánanefnd tekin með inn í dæmið, þannig að það liggi alveg ljóst fyrir að það séu heildarlántökurnar erlendis sem verið er að takmarka, — ekki bara lántökur hins opinbera, heldur allar erlendar lántökur.