14.03.1983
Efri deild: 70. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 3107 í B-deild Alþingistíðinda. (3103)

221. mál, lánsfjárlög 1983

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson hefur lagt nokkrar spurningar fyrir mig, sem ég vil leitast við að svara. Hann spyr í fyrsta lagi um sjóefnavinnslu á Reykjanesi og í hvaða skyni verið sé að taka lán með heimild í lánsfjáráætlun.

Eins og kunnugt er hefur verið ráðgert að sjóefnavinnslan á Reykjanesi verði byggð í nokkrum áföngum og nú er stefnt að því að stækka verksmiðjuna upp í 9 þús. tonna afköst, en síðar er áformað að verksmiðjan verði stækkuð í 40 þús. tonna afköst. Ég vek á því athygli, að ákvæði til bráðabirgða í lögunum, þar sem fyrirvari er gerður um að Alþingi fjalli um málið áður en stækkun á sér stað, er bundin við 40 þús. tonnin, þ.e. stærstu gerðina, og er ekki gert ráð fyrir að Alþingi fjalli sérstaklega um málið þegar um er að ræða að stækka verksmiðjuna í 9 þús., en það er það sem verið er að gera nú. Ég hygg þess vegna auðvelt að svara því til að vafalaust hlýtur málið að koma til meðferðar Alþingis þegar um verður að ræða að stækka verksmiðjuna í 40 þús. tonna afköst, en það er ekki það sem er á dagskrá um þessar mundir.

Hv. þm. spurði síðan um stálbræðslu og vakti athygli á að í ákvæði til bráðabirgða væri kveðið svo á að ríkisstj. væri ekki heimilt að gerast eignaraðili að hlutafélaginu og ekki leggja fram fé ríkissjóðs sem hlutafé né veita ríkisábyrgð eða taka lán fyrr en tryggð hefðu verið hlutafjárframlög annarra aðila fyrir 60% hlutafjár. Hann spurði að því, hvort hlutafé hefði verið lagt fram í þessu fyrirtæki og því er óhjákvæmilegt að svara neitandi. Það er ekki um það að ræða að félagið hafi uppfyllt þetta skilyrði og því ekki um það að ræða að ríkið hafi lagt fram sitt hlutafé. Hvort það verður á því ári sem nú er að líða gef ég ekkert um sagt. Ég veit að félagið hefur átt í miklum erfiðleikum með að uppfylla þetta skilyrði og hefur enn ekki séð fyrir endann á því hvernig það má verða. Talsmenn fétagsins hafa haft orð á því við mig hvort til greina kæmi að breyta þessu skilyrði þar sem óvíst er að þeir geti uppfyllt það, en það er þá mál sem yrði að fjalla um hér á Alþingi, ef slíkt yrði gert. Málið stendur sem sagt þannig nú, að ekki hefur tekist að uppfylla skilyrðið og hlutaféð hefur því ekki verið lagt fram.

Öðru máli gegnir um lög um steinullarverksmiðju og áform um byggingu hennar á Sauðárkróki, en eins og kunnugt er hefur ríkisstj. ákveðið að svo verði gert. Svo er litið á, að ákvæði í lögum um steinullarverksmiðju, sem þar eru til bráðabirgða, séu uppfyllt og hlutafjárframlög annarra aðila fyrir 60% af hlutafé væntanlegs félags hafi verið tryggð og aflað hafi verið öruggra viðskiptasambanda. Þess vegna hefur hlutaféð þegar verið lagt fram í þessu fyrirtæki, en að vísu aðeins í réttu hlutfalli við hlutafjárframlög annarra aðila og ég hygg að enn hafi ekki verið lagt fram hlutafé nema sem nemur 20% af væntanlegu hlutafé. (Gripið fram í: Ríkisins?) Já, bæði ríkisins og annarra aðila. Hins vegar liggja fyrir skýr og klár hlutafjárloforð um framlagningu alls hlutafjárins og það er því talið að fullnægt sé þessum fyrirvara.

Hvað varðar athugasemd hv. þm. varðandi Byggingarsjóð ríkisins verð ég nú að valda honum þeim vonbrigðum, að ég er ekki reiðubúinn að styðja till. hans í þessum efnum. Ég held að við verðum að halda okkur við fjárlagatölur. Ég verð að láta mér nægja að vekja athygli á því, að í fjárlögum og þar með í lánsfjáráætluninni er gert ráð fyrir verulega mikilli aukningu á framlögum til Byggingarsjóðs ríkisins, þar sem nú er gert ráð fyrir að framlög til sjóðsins verði 141.5 millj. og fari ekki fram úr þeirri tölu, en það er mjög veruleg aukning á fjárframlögum til sjóðsins frá fyrra ári. Ég hef ekki þá tölu fyrir framan mig, en ég get látið mér detta í hug að hækkunin á milli ára sé vel á annað hundrað prósent, sennilega einhversstaðar nærri því að vera kringum 130% hækkun milli ára. Þar er því um verulega aukningu að ræða og við verðum að vona sameiginlega að svo verði áframhaldandi og að mönnum verði gert kleift að inna sitt mikilvæga hlutverk af hendi með viðunandi hætti.

Í sambandi við lánsfjáráætlunina að öðru leyti vil ég sem minnst um hana ræða til að fara ekki að vekja hér umr. Það er skammt eftir af fundartíma deildarinnar og ég vil ekki fara að vekja hér umræðu. En vegna þess að ég greip fram í fyrir hv. þm. Lárusi Jónssyni áðan, sem var talsmaður fyrir minni hl. fjh.- og viðskn., og vakti athygli á því að hann færi ekki alls kostar með rétt mál varðandi innlenda lánsfjáröflun á seinasta ári, þá er kannske eðlilegt að ég útskýri það í örfáum orðum.

Hann hélt því sem sagt fram að innlend fjáröflun ríkissjóðs hefði mistekist á árinu 1982 og spádómar hans um þá lánsfjáröflun hefðu reynst réttir. En það er ekki alls kostar rétt. Ef menn líta að vísu á bls. 13 í nefndaráliti hans, þar sem gerð er grein fyrir þessum málum, sjá menn að það vantar verulega mikið upp á að endar hafi náð saman, því að hans tala er 377 millj., en í lánsfjáráætlun hafði verið 440 millj. En þegar tölurnar eru nánar skoðaðar sjá auðvitað allir að hér er vitlaust lagt saman. Svo einfalt er það. Það er vitlaust lagt saman í dálkinum. Ef menn leggja saman tölurnar, sem hv. þm. er með á bls. 13, fáum við ekki út 377 millj., heldur fá menn út 432 millj., sem er nokkurn veginn hliðstæð tala og var í lánsfjáráætlun. Þetta sjá menn auðvitað þegar menn bera saman upphæðirnar, að sumar tölurnar eru kannske aðeins lægri, en aðrar heldur hærri, þannig að niðurstaðan hlýtur að vera nokkuð svipuð og var. T.d. má nefna að sala spariskírteina og innheimt endurlán spariskírteina áttu að nema samkvæmt lánsfjáráætlun 257 millj., en nema 252 millj., skakkar ekki miklu. Frá lífeyrissjóðum kom töluvert meira en gert hafði verið ráð fyrir og fjáröflun af öðru tagi var töluvert meiri en gert hafði verið ráð fyrir og það vegur upp að skuldabréfakaup banka eru minni. Þannig er það alveg ljóst að innlend fjáröflun ríkissjóðs, þegar tekið hefur verið tillit til þessarar mistalningar í dálkinum, er mjög hliðstæð því sem spáð hefur verið.

Hitt er alveg rétt hjá hv. þm., að innlend fjáröflun Framkvæmdasjóðs og Byggingarsjóðs ríkisins varð ekki eins og ráð var fyrir gert. Þar vantaði 150 millj. upp á. En það er önnur saga. Lánsfjáráætlunin var auðvitað fyrst og fremst lánsfjáráætlun ríkisins og þá um leið lánsfjáráætlun þessara sjóða, en þeir leystu sín mál, bæði Framkvæmdasjóður og Byggingarsjóður ríkisins, með því einfaldlega að skera niður áformuð útlán og dæmi þeirra gekk að lokum upp þannig að það olli ekki neinum stórvandræðum í sjálfu sér. Það er hins vegar rétt hjá hv. þm. að það var hjá þessum tveimur félögum að fjáröflunin brást. Hjá ríkissjóði stóðst hún.