14.03.1983
Efri deild: 70. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 3109 í B-deild Alþingistíðinda. (3104)

221. mál, lánsfjárlög 1983

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir svör hans við spurningum mínum varðandi sjóefnaverksmiðjuna, stálbræðsluna og steinullarverksmiðjuna.

Hann sagði að nú væri gert ráð fyrir að stækka sjóefnaverksmiðjuna upp í um 9 þús. tonna framleiðslu og verksmiðjan væri stækkuð þannig í áföngum. En ef það verður haldið áfram með þessa áfanga verður væntanlega komist einhvern tíma upp í 40 þús. tonna stækkun. Mér virðist að það sé eðlilegt að líta á hvern áfanga fyrir sig þegar við gerum okkur grein fyrir því hvort skilyrðum laganna er fullnægt, því það mundi vera nokkuð seint að gera það ef það væri gert við síðasta áfangann, á síðasta spottanum, upp í 40 þús. tonn. Ég vildi vekja athygli á þessu.

Ég skildi hæstv. ráðh. þannig varðandi stálbræðsluna, að það yrði ekkert fé látið rakna af hendi úr ríkissjóði eða fyrir atbeina ríkissjóðs fyrr en fullnægt væri þeim skilyrðum sem lögin gera ráð fyrir. Ég hef áður greint frá því að þeim skilyrðum sé ekki fullnægt í dag.

Hins vegar er samkvæmt því sem ráðh. sagði bjartara yfir steinullarverksmiðjunni, því að samkvæmt hans upplýsingum virðist mér að það sé fullnægt þeim skilyrðum sem eru fyrir því að ríkisstj. hafi heimild til þátttöku í því félagi, þ.e. bæði með því að það hefur verið tryggt hlutafjárframlag annarra aðila fyrir 60% af hlutafé og það hefur verið aflað öruggra viðskiptasambanda. Það hefði verið ósköp æskilegt að heyra nánar um þá hlið málsins.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta. Ég þakka hæstv. ráðh. þær upplýsingar sem hann hefur gefið og svör hans við spurningum mínum.

Hæstv. ráðh. vék svo nokkrum orðum að því sem ég sagði um húsnæðismálin, 14. og 15. gr. frv., og gaf nú ekkert undir fótinn með það að afstaða hans til þeirra mála yrði jákvæðari en á undanförnum árum. Hins vegar sagði ráðh. að nú hefði hann bætt ráð sitt — mér skildist það á orðum hans — frá því sem var í fyrra því að það hefðu aukist verulega framlög til Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna frá því í fyrra. Ég hef nú ekki þessar tölur fyrir framan mig. Það skiptir ekki miklu máli þó að það fjölgi eitthvað krónum, verðminni krónum í ár en voru í fyrra. En ég fullyrði að það hefur ekkert batnað í þessum efnum raunverulega frá því sem áður var. Og hæstv. ráðh. hefur sannarlega ekki efni á því að vera að gera því skóna að ástandið í þessum mátum sé harla gott og fari batnandi.

Kjarni málsins er sá, að hæstv. ráðh. er að svipta Byggingarsjóð ríkisins löglegum tekjustofni sínum — og hvað er sú upphæð há á þessu ári? Það nemur 200 millj. sem hæstv. ráðh. sviptir Byggingarsjóð ríkisins í tekjum af launaskattinum. Launaskatturinn á að gefa Byggingarsjóði ríkisins samkvæmt lögum um 340 millj. kr., en hér er gert ráð fyrir að hann fái einungis um 140 millj. kr. Er þetta nú eitthvað til þess að hæla sér af? Þetta eru staðreyndir.

Hvað um Byggingarsjóð verkamanna? Af hverju er hæstv. ráðh. að guma í því efni? Samkvæmt lögum á Byggingarsjóður verkamanna að fá í sinn hlut af launaskatti sem nemur 170 millj. kr. á þessu ári. En ráðh. vill að hann fái ekki nema 158 millj. Og þetta er Byggingarsjóður verkamanna, sem þeir hv. Alþb.menn eru sýknt og heilagt að guma af að sé óskabarn þeirra í byggingarmálunum.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta efni í tilefni af ummælum hæstv. fjmrh. Málið er augljóst og skiljanlegt öllum sem vilja sjá og skilja.