14.03.1983
Efri deild: 71. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 3115 í B-deild Alþingistíðinda. (3115)

221. mál, lánsfjárlög 1983

Frsm. minni hl. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Í upphafi máls míns vil ég víkja örlítið að vinnubrögðum á þingi þessa dagana.

Ég hef sagt áður að ég skilji mætavel afstöðu hæstv. ríkisstj. og að hún vilji fá afgreidd lánsfjárlög og ég hef lagt mig í líma við að vinna að því máli eins og aðrir hv. þm. í þeim n. sem hafa haft þetta mál til afgreiðslu. En hæstv. ríkisstj., stuðningslið hennar á Alþingi, hefur tekið það til bragðs síðustu daga til að koma í veg fyrir framgang þingmála, sem njóta augljóslega mikils þingmeirihluta, að standa í pontu hér hálfar og heilar nætur og halda uppi málþófi. Í þessari hv. deild var haldin löng ræða í dag um mál sem allir vita að mundi ekki komast áleiðis á þingi. Ég álít að hér sé um forkastanleg vinnubrögð að ræða og dæmalaust virðingarleysi fyrir þingræði og fyrir því að hv. þm. séu að leggja sig fram um afgreiðslu mála eins og þessa máls hér.

Ég hef lýst því hvað þetta mál er illa undirbúið á allan hátt. Aðeins því til áréttingar vil ég benda á fskj. með nál. stuðningsliðs hæstv. ríkisstj. Í plaggi sem þeir birta frá Seðlabanka Íslands frá 21. febrúar kemur fram að innlend lánsfjáröflun er ofáætluð um nálægt 200 millj. kr. að mati Seðlabankans. Engin skýring hefur verið gefin á þessu né áform um að mæta þessari ofáætlan.

Hæstv. ráðh. fór áðan nokkrum orðum um málflutning minn að því er varðaði innlenda lánsfjáröflun í fyrra. Ég vil segja honum að ég átti að sjálfsögðu við innlenda lánsfjáröflun í heild, en ekki einungis lánsfjáröflun ríkissjóðs, enda er fjáröflun til hans aðeins hluti af lánsfjáröflunardæminu í heild. Nú lítur þetta þannig út að mati Seðlabankans þegar verið er að afgreiða þetta mál: Ef litið er á lánsfjáröflun til fjárfestingarsjóða er gert ráð fyrir að afla fjár samkv. þessu frv. upp á 1020 millj. kr., en Seðlabankinn gerir ráð fyrir að horfast beri í augu við að það verði ekki hægt að afla nema 890 millj. Í sambandi við erlendar lántökur tekur þó steininn úr. Það er sagt hér í fskj. með nál. stuðningsliðs ríkisstj. og vitnað í seðlabankann að það sé búið að taka ákvarðanir um erlendar lántökur upp á 4215 millj. kr., en þetta frv. gerir ráð fyrir 3400 millj. Í þessu áliti segir:

„Knýjandi nauðsyn ber til að beita þrengri takmörkunum en felast í endurskoðaðri áætlun, 4215 millj. kr. Sú tala kemur eigi að síður fram við það, að ekki er sjáanlegur neinn kostur á að komast lægra eftir allt sem á undan er gengið. Þarf jafnvel að beita verulegri ýtni og hörku til þess að komast niður í það mark frá hinum upphaflegu áætlunum.“

Þetta eru beinar tilvitnanir, herra forseti, í gögn sem stuðningslið hæstv. ríkisstj. lætur fylgja nál. sínu.

Á síðasta fundi fjh.- og viðskn. komu fram viðbótarupplýsingar, sem hv. þm. Þorv. Garðar gerði raunar að umtalsefni hér, þ.e. í sambandi við húsnæðismálin. Þar kom fram að menn hafa uppi áform um að afla miklu meira fjár úr lífeyrissjóðakerfinu í ár til húsnæðismála, eins og raunar var gert í fyrra, en raunsætt er.

Ég vil aðeins, af því að hæstv. ráðh. vék að því að gagnrýni mín væri ekki rétt um framkvæmd lánsfjáráætlunar í fyrra, fara nokkrum orðum um það. Ég vil taka það fram að ég ætla ekki hér að halda neina málþófsræðu út af þessu máli, en ég vildi koma þessum ábendingum mínum og þessari gagnrýni á vinnubrögð hér í þingi á framfæri.

Í nál. sem gefið var út um frv. til lánsfjárlaga í fyrra voru eftirfarandi aðalgagnrýnisatriði: Forsendur frv. voru 33% verðbreyting milli áranna 1981 og 1982 og þar er um að ræða nákvæmlega sams konar villandi og beinlínis rangar forsendur fyrir allri áætlanagerðinni og eru í ár. Það kom í ljós að þau lánsfjárlög fóru langt fram úr því sem þar var verið að fjalla um, eins og t.d. erlend lán.

Hér segir um innlenda fjáröflun, en hæstv. ráðh. talaði um að eitthvað væri að í minni gagnrýni á hana: „Innlend fjáröflun er augljóslega í lausu lofti og stórlega ofmetin samkvæmt frv. T.d. er ætlunin að selja spariskírteini á næsta ári fyrir 150 millj. kr., en salan í ár er 43 millj. Úr lífeyrissjóðum er ætlað að afla 460 millj. kr. til Framkvæmdasjóðs, húsnæðismálasjóðs, Stofnlánadeildar landbúnaðarins og ríkissjóðs, en í ár var þessi fjáröflun 1. nóv. 227 millj. kr.“

Þessi þáttur innlendu fjáröflunarinnar, eins og hér er spáð, reyndist stórlega ofmetinn. — Erlend fjáröflun hefur stóraukist. Um hana segir; með leyfi forseta:

„Erlend fjáröflun er aukin um 176.7 millj. kr. frá frv., en hún var ærin fyrir þegar haft er í huga að orkuframkvæmdir dragast saman milli 40 og 50% að magni til á árinu. Skuldastaða erlendra lána í árslok er áætluð af Seðlabankanum 39% og hefur aldrei verið hærri í sögu þjóðarinnar.“

Nú er þessi skuldastaða áætluð yfir 50%, svo hæstv. ráðh. er iðinn við að setja met á þessu sviði.

Í fjórða lagi var sagt í nál. að alger óvissa væri um fjármögnun Framkvæmdasjóðs. Það voru orð að sönnu vegna þess að fjáröflun Framkvæmdasjóðs reyndist mjög örðug á árinu 1982 og miklum mun minni en gert var ráð fyrir, sérstaklega að því er varðaði innlenda fjáröflun. Þetta gerði það að verkum að sjóðakerfið í landinu var oft og tíðum í algerum þrotum.

Þá er rætt hér um fjármögnun húsnæðismálasjóðanna, en það er nákvæmlega það sama sem er að gerast nú á þessu ári og í fyrra, að þar er vísað á lífeyrissjóðina með svimandi háum tölum um fjáröflun sem sjálfir stjórnendur Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna vita að eru algerlega vonlausar.

Ég vildi benda á þetta hér út af orðum hæstv. ráðh. við 2. umr. þessa máls, en eins og ég sagði hér áðan ætla ég ekki að hafa þessi orð allmiklu fleiri. Ég vil þó ítreka að ekki er sambærilegt hvernig við stjórnarandstæðingar tökum á þessu máli, sem okkur er ljóst að við getum mjög auðveldlega stöðvað fyrir hæstv. ríkisstj., þegar höfð er hliðsjón af því, hvernig stjórnarsinnar taka á þingmálum, sem ég hér minntist á, og setja á langar tölur til að koma beinlínis í veg fyrir að vilji meiri hl. Alþingis nái fram að ganga.