14.03.1983
Efri deild: 71. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 3116 í B-deild Alþingistíðinda. (3116)

221. mál, lánsfjárlög 1983

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég leyfi mér að flytja hér við 3. umr. brtt. við 29. gr., sem gerir ráð fyrir að takmarka erlendar lántökur við 3390 millj. kr. Þetta er nánast sama tala og kemur fram í frv. ríkisstj. til lánsfjárlaga eins og það birtist á sínum tíma.

Ég ætla ekki að endurtaka nema að takmörkuðu leyti þau rök sem ég flutti hér áðan fyrir nauðsyn þess að takmarka erlendar lántökur. Fulltrúar allra flokka hafa haft á orði nauðsyn þess að takmarka erlendar lántökur, en engu að síður hefur orðið svo í umfjöllun hv. Nd. að heildarupphæð í frv. hefur hækkað eins og það liggur fyrir. Hér er sem sagt gert ráð fyrir að setja þak á erlendar lántökur við 3390 millj. kr., sem er það hámark sem var í frv. eins og það kom frá ríkisstj. Þetta er gert ráð fyrir að sé gert í sambandi við störf fjvn. og eins að starf langlánanefndar miðist við þennan ramma. Ég hef áður talað fyrir því að þetta yrði takmarkað við 3300 millj. kr., en hér er sem sagt gert ráð fyrir að það takmarkist við 3390 millj. kr., og vænti ég þess að það njóti stuðnings deildarinnar.