14.03.1983
Neðri deild: 63. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 3120 í B-deild Alþingistíðinda. (3138)

198. mál, fjáröflun til vegagerðar

Frsm. minni hl. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Þegar 2. umr. þessa máls fór fram hafði tæplega gefist tími til að fjalla um málið í hv. fjh.- og viðskn. Þó var því lokið, en ekki hafði gefist tími til að vinna nál. fyrir minni hl. fjh.- og viðskn. er formaður n. mælti fyrir meirihlutaáliti. Því varð að ráði við upphaf 3. umr. að henni væri frestað og gerð yrði grein fyrir afstöðu minni hl. fjh.- og viðskn. við 3. umr.

Minni hl. fjh.- og viðskn. Nd. hefur gefið út nál. á þskj. 610. Þar kemur fram að þeir sem hann skipa, sem eru auk mín hv. 1. þm. Vestf. og hv. 3. þm. Reykv., mæla gegn þessu frv., gegn þeim nýja skatti sem hér er verið að leggja á.

Í rökstuðningi með þessum þungaskatti er látið í það skína að áður hafi verið búið að létta af bifreiðaeigendum útgjöldum með lækkun innflutningsgjalds. Sú upphæð var okkur tjáð að væri aðeins 7 millj. kr., en það sem gert er ráð fyrir að innheimta með þungaskattinum á þessu ári eru um 110 millj. eftir að gerð var á frv. breyting í hv. Ed.

Það er ljóst að hér er enn einu sinni verið að höggva í þann knérunn að láta bifreiðaeigendur greiða. Það stafar einfaldlega af því, að af þeim tekjustofnum sem áður voru og eru enn hefur ríkissjóður — Á fundinum að halda þarna áfram? (Forseti: Það er óskað eftir því að það séu ekki fleiri fundir inni í salnum. Ef menn þurfa að tala saman, þá eiga þeir að gera svo vel að fara út fyrir salinn.) Ég veit ekki nema þetta sé kærkomið tækifæri fyrir þá sem eru andvígir málinu til að tefja. Sá sem er í ræðustól hefur ekki látið það á sig fá þó að svolítið sé blásið utanhúss.

Þeir tekjustofnar, sem fyrir hendi eru til vegaframkvæmda, hafa í síauknum mæli verið teknir í ríkissjóð og nú kemur fram nýtt frv. til að bæta þar um.

1974 var þungaskatti breytt, þeim þungaskatti sem hér er verið að leggja á aftur, og bensíngjald þá ætlað sem tekjustofn til vegaframkvæmda og út frá því sjónarmiði hugsað að þeir sem nota vegina væru látnir greiða fyrir þá, en mönnum væri heimilt að eiga sína bifreið, hversu þung sem hún er, þó þeir ekki notuðu vegina. Ég held að þá hafi allir verið um það sammála að hér væri skynsamlega að farið. Jafnframt, þar sem ekki var um bensínneyslu að ræða, var sett fram sú hugmynd, sem síðan varð að veruleika, að þeir sem ættu bifreiðir sem nota olíu greiddu af mæli, þannig að þar kæmi fram hversu mikið þeir notuðu vegina. Það lægi ljóst fyrir hversu margir km aksturinn væri hjá þeim og þar af leiðandi lægi að baki nákvæmlega sama sjónarmið og að baki bensíngjaldi. Það er svo auðvitað matsatriði, hversu hátt bensíngjaldið á að vera. Það er svo líka matsatriði, hversu hár sá skattur skal vera sem greiddur er samkv. ökumæli í þessu tilfelli. Það er þeirra að meta sem vinna að vegamálum á vegum ríkisstj. og Alþingis og þar verður að sjálfsögðu ævinlega matsatriði hvort meira eða minna á að vinna í vegamálum og hversu miklar tekjur skuli koma af bensíngjaldi og af mælum þeirra bifreiða sem nota olíu.

Þetta frv. er svo enn eitt dæmið um það sem hefur verið að gerast í tíð núv. ríkisstj., hófst 1. sept. 1978, þegar ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar tók við, og sýnist ætla að verða síðasta verk núv. ríkisstj. á Alþingi, þ.e. aukin skattlagning.

Það var á það bent strax 1978, það hefur verið á það bent margsinnis síðan, hvernig þær ríkisstjórnir sem setið hafa, ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar og núv. ríkisstj., hafa verið gersamlega úrræðalausar, hafa ekki haft nein önnur ráð til að koma fram þeirri stefnu sinni að auka ríkisumsvifin, ná meira fjármagni til hins opinbera, en auka skattlagningu og auka erlendar lántökur.

Herra forseti. Ég hefði viljað spyrja hvort flm. frv., hæstv. fjmrh., hefði getað gefið sér tíma til að vera viðstaddur þessar umr. (Forseti: Ég skal láta athuga það.) Sú skattlagning, sem hér er ætluð, er að mínum dómi mjög ósanngjörn og kemur óréttlátlega niður, sbr. það sem ég sagði áðan, fyrir nú utan það, að á þessu tímabili, sem ég hef hér vikið að, hafa þessir skattar hækkað ótrúlega mikið, svo mikið að ég ímynda mér að það sé ekki aðeins Íslandsmet þar um að ræða, heldur jafnframt heimsmet. Skattar af bensíni hafa hækkað á tímabilinu 1978–1983 um 438 millj. kr. á föstu verðlagi, þ.e. verðlagi þeirrar vegáætlunar sem Alþingi fjallar um nú. — Þessi skattahækkun er jafnvirði 42% af ráðstöfunarfjármagni samkv. vegáætluninni 1983. Og þessi hækkun hefur nær einvörðungu — ég undirstrika — hefur nær einvörðungu runnið í eyðsluhít ríkissjóðs, en ekki í vegagerð. Þungaskattur samkv. mælum hefur auk þess hækkað svo mjög að hann er nú 2,97 kr., og það eru nýkr., en var í des. 1978 15,60 gkr. Hækkunin nemur 1804% á sama tíma sem vísitala byggingarkostnaðar hefur hækkað úr 240 stigum í 1482 eða um 518%. Hækkunin á þungaskattinum er rúmlega þrisvar sinnum meiri en hækkunin á vísitölu byggingarkostnaðar. Það er því óskaplega mikil blekking þegar því er haldið fram af hæstv. fjmrh., sem enn er nú ekki kominn í salinn, að þessi skattur, sem miðast við þunga af bifreiðum, komi á móti einhverri skattalækkun sem bifreiðaeigendur hafa notið á undanförnum árum.

Mér er ekki ljóst hvernig hugsunin er hjá hæstv. samgrh. og hæstv. fjmrh. þegar framlag ríkissjóðs í ár er ætlað 20 millj. kr., en á næsta ári 140 millj. Og þá verður ekki á annað horft en að þessir hæstv. ráðherrar sýnast ekki vera í stakk búnir nú til að gera mönnum grein fyrir því hverjar hugmyndir þeirra eru í sambandi við þá miklu tekjuaukningu sem hér er boðuð, þ.e. um 120 millj. kr. á næsta ári, en það er um það bil eða örlítið hærri tala en þessi skattur gefur í ár.

Mér er ekki ljóst hvernig það er rökstutt að hér sé um að ræða skattlagningu á bifreiðar, ef menn hafa einhverja þá hugsun að forðast verðbólguaukningu, því að það liggur alveg ljóst fyrir að þeir aðilar sem hafa atvinnu af því að aka bifreiðum hljóta að fá, um leið og slíkur skattur er lagður á, um leið og rekstrarkostnaður bifreiða þeirra hækkar sem því nemur, að breyta þeirri gjaldskrá sem þeir vinna eftir. Það eru því borgararnir í landinu sem greiða þennan skatt. Það er ein og sama aðferðin sem hæstv. ríkisstj. hefur haft, enda skattbyrði á landsmenn í dag orðin slík að fjölmargir hópar eiga erfitt með að sjá heimilum sínum farborða. Aðeins skattahækkanir ríkisins á tímabilinu 1978–1983 nema um það bil 5.7% af þjóðarframleiðslu eða 2 370 millj. kr., sem jafngildir yfir 50 þús. kr. á hverja fimm manna fjölskyldu, og er þetta þó á því verðlagi sem fjárlagafrv. er á, þ.e. miðað við 30–32% verðbólgu, þ.e. þegar fjárlagafrv. var samþykkt í des. með reiknitölunni 42%. En við stöndum nú frammi fyrir að verðbólgan frá upphafi árs til loka verður ekki 30–32%. Samkv. þeim mælikvarða sem notaður er mun hún verða einhvers staðar á milli 70 og 80%, ef ekkert verður að gert, og því þessi byrði sýnu þyngri.

Ef við tökum núv. ríkisstj. og hennar þátt í þessari miklu skattaaukningu er þar um að ræða 3.1% af þjóðarframleiðslunni, sem jafngildir 1 290 millj. kr. eða tæpum 30 þús. á hverja fimm manna fjölskyldu. Þessu til viðbótar eru svo hækkanir á sköttum til sveitarfélaganna, sem nema um það bil 3 600 kr. á hverja fimm manna fjölskyldu, og það er fyrir áhrif og ákvarðanatöku núv. hæstv. félmrh. Svavars Gestssonar. Það var hann sem heimilaði sveitarfélögunum þessa auknu skattlagningu, þannig að hún verður fyrst og fremst skrifuð á núv. hæstv. ríkisstj. og þann ráðh. sem fer með sveitarstjórnarmál þar.

Ef nú þetta mál er skoðað ofan í kjölinn og menn gera sér grein fyrir því hvers vegna horfið var frá þungaskatti yfir til bensíngjalds og gjalds samkv. sérstökum mælum 1974, þá liggur alveg ljóst fyrir að bifreiðanotkun manna er ákaflega misjöfn. Ég held að það tali enginn um það í dag að það sé lúxus á Íslandi að eiga bitreið. Ég get ekki ímyndað mér að það sem áður var talið, þó ekki nema fyrir kannske 20–30 árum, sé lengur mat manna. Það sem gert er í sambandi við bifreiðar hittir hvern einstakling og hverja fjölskyldu og æðimisjöfn er notkun manna á bifreiðum.

Við skulum t.d. skoða málið út frá því að margt aldrað fólk á sína bifreið, en notar hana ekki mikið. Það vill þó gjarnan leggja sitt fjármagn í slíkt tæki og geta notað það þegar því sýnist. Hér er verið að leggja þungan skatt á þetta fólk. Á öryrkja, sem ekki komast leiðar sinnar öðruvísi en akandi, er verið að leggja þungan skatt.

Ég verð að segja það alveg eins og er, að ég átti ekki von á að þeir sem hafa talið sig fulltrúa þess fólks sem minna má sín í þjóðfélaginu stæðu að slíku frv. án þess að athuga hvaða afleiðingar það hefði eða að aðrir þeir sem hafa talið sig vera fulltrúa þeirra sem minna mega sín, þ.e. Alþfl.-mennirnir hér á þingi, skyldu taka undir þessa skattheimtu og mæta með henni, eins og gerðist í Ed., að vísu með örlítilli lækkun eftir því sem þungi bifreiðarinnar varð meiri. En þetta er auðvitað allt í samræmi við það sem hefur verið hjá þeim áður. Þeir hafa staðið að allri þeirri skattheimtu sem hefur verið allt frá því að þeir settust í ríkisstjórn í septembermánuði 1978. Þeir mönnuðu sig þó upp í það nú um daginn, þegar frv. um skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði var hér til umr., að greiða atkv. á móti því, en þá fékk nú ríkisstj. góðan liðsmann. Það var, eins og orðað hefur verið, sjálfskipaður formaður Bandalags jafnaðarmanna, Vilmundur nokkur Gylfason, hv. þm., sem hljóp undir baggann með þeim, greiddi atkv. og skatturinn verður lagður á einu sinni enn. Það er nákvæmlega sama hvort þeir eru í flokki sem heitir Alþfl. eða Bandalag jafnaðarmanna. Þannig standa þeir að þessum hlutum. Um leið og þeir eru að greiða atkv. gegn skatti á skrifstofu- og verslunarhúsnæði mæla þeir með því að leggja á þungaskatt á bifreiðar. Ég fæ ekki skilið samhengi í þessu.

Ég fæ ekki heldur skilið þegar þessir aðilar, eins og ég gat um hér áðan, eru með skattheimtu eins og þessa, eins óréttlát og hún er. (Grípið fram í: Er ekki þm. einn af þeim sem vill leggja veg á stundinni malbikaðan til Akureyrar?) Þm. er einn af þeim sem gjarnan vilja leggja vegi eins og mögulegt er. Hann er líka einn af þeim sem felldu niður þungaskattinn 1974 taldi hitt skynsamlegra og eðlilegra, og hefur verið í hópi þeirra sem hafa talið að þeir sem notuðu vegina ættu að greiða, en ekki hinir, sem nota ekki vegina. Þannig kæmi skatturinn réttlátast niður. Og ég er alveg sannfærður um að formaður Verkamannasambandsins er þm. Guðmundi J. Guðmundssyni sammála í þessum efnum. Væntanlega breytir hann um skoðun í þessu máli, því að ekki er hægt að álasa neinum manni þó að hann í upphafi skoði ekki málið ofan í kjölinn. Ég er svo sannfærður um að ef hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson, 7. þm. Reykv., skoðar þennan skatt ofan í kjölinn og þau sjónarmið sem liggja að baki breytingunni 1974 verður hann þeirri breytingu sem þá var gerð og þeim sjónarmiðum sammála. Og þá segi ég: Þá eiga menn að breyta um skoðun. Það veit ég að hann tekur til greina. Svo oft hefur hann breytt um skoðun í málum þegar hann hefur séð að betur mátti fara. (MB: Og látið skynsemina ráða.) Já, látið skynsemina ráða. Það er öllum mönnum til hróss.

Í sambandi við þetta fluttum við þrír, minni hl. fjh.og viðskn., auk mín hv. þm. Matthías Bjarnason og Albert Guðmundsson, till. við 1. gr. frv. um að aftan við hana bætist nýr málsl. er orðist svo:

„Undanþegin gjaldinu eru ökutæki sem skráð eru í eigu manna, sem náð hafa 67 ára aldri frá upphafi gjaldárs, og manna, sem njóta örorkulífeyris samkv. lögum um almannatryggingar.“

Þegar þessi till. sá dagsins ljós vaknaði allt liðið, þá vöknuðu allir þeir málsvarar sem höfðu verið hér á þingi fyrir þá sem aldraðir eru og öryrkjar, og þá voru fluttar tillögur. En enn kom að því: gamla fólkið átti ekki að njóta. Till. var þrengd. Aðeins skyldu njóta undanþágu örorkuþegar þeir sem nytu ellilífeyris og í hinu tilfellinu aðeins þeir sem hefðu fengið niðurfelld þau gjöld sem eru nú lögð á bifreiðar. Það hafa komið fram tillögur um að þessir aðilar skuli ekki greiða þennan skatt. En mér er alveg óskiljanlegt í hverju það liggur að þeir aðilar sem slíkar tillögur flytja standa ekki heldur hér uppi í ræðustól og lýsa sig samþykka þeirri till. sem við minnihlutamenn í fjh.- og viðskn. höfum flutt. (Gripið fram í: Það er lítið vit í henni.) Það er lítið vit í henni, sagði þm. Þá heyrir maður hvernig hann hugsar til gamla fólksins og öryrkjanna. Það er ósköp auðvelt, þegar menn eru svona hreinskilnir, að átta sig á því hvar þeir standa þegar málefni þessa fólks eru hér til umr. — En eins og ég sagði áðan: Ég fæ ekki skilið hvers vegna þessir aðilar, sem flytja nú brtt., standa ekki hér uppi í ræðustól og lýsa því yfir að þeir styðji till. þá sem við flytjum, ef frv. á annað borð verður samþykkt, og flytji þá sínar tillögur, ef þessi verður felld sem varatillaga. Má vera að þeir hafi eitthvað slíkt í huga, að hér sé um að ræða varatill., en það mun ábyggilega reyna á það og það mun auðvitað sjást hverjir það eru sem vilja undanþiggja aldraða og öryrkja greiðslu á þessum ég segi mjög svo rangláta skatti.

Ég hefði haldið að í staðinn fyrir vinnubrögð eins og hér eru viðhöfð hefðu samgrh. og fjmrh. átt að leggja fram einhverjar hugmyndir um að draga úr ríkisútgjöldunum til þess að spara fé til vegagerðar. Það hefði verið skemmtilegra fyrir þá að ganga til kosningabaráttu með eitthvað slíkt heldur en að leggja á þungaskatt, bæta einum pinklinum við, sem þeir vita að sjálfsögðu að lendir á fólkinu. En þetta er, eins og ég sagði áðan, allt á sömu bókina lært. Vinstri stjórn Ólafs Jóhannessonar hóf störf sín með því að leggja á skatta, með því að auka erlendar lántökur til að geta tekið meira fjármagn í ríkishítina og það vera seinustu spor þessarar stjórnar á þingi. Það er ný skattlagning, það er aukning erlendrar lántöku, allt til þess að auka á ríkisútgjöldin, til þess að ríkishítin verði meiri og stærri. Þá skiptir engu máli að hér er enn verið að þyngja byrðar fólksins og gera erfiðara fyrir það að standast þá óðaverðbólgu sem geisar í þessu landi og stefnir upp í nærri 100% áður en þessu ári er lokið.

Ég ítreka, herra forseti, að minni hl. fjh.- og viðskn. er andvígur þessu frv. Hann flytur till. til þess að forða öldruðum og öryrkjum frá þessum rangláta skatti, en hann vonast til þess að þm. hafi nú áttað sig á því hvað hér er á ferðinni og þeir muni ekki veita frv. brautargengi.