14.03.1983
Neðri deild: 63. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 3124 í B-deild Alþingistíðinda. (3139)

198. mál, fjáröflun til vegagerðar

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ræða síðasta ræðumanns er dæmigerð ræða um það, hvernig menn eru að höfða til tilfinninga manna, ræða um öryrkja og gamalt fólk. Þetta er ræða sem á vondu máli er kölluð „vemmileg“ ræða. Ég vil minna menn á að sá maður sem talaði síðast var fjmrh. um nokkurra ára skeið og hann lagði á þjóðina æðiríflega skatta í sinni fjármálaráðherratíð, en hann er líklega búinn að gleyma því.

Ég vil segja það, að á sama tíma og menn standa hér upp, eins og hv. þm. Matthías Á. Mathiesen, og krefjast þess að það verði felldir niður skattar til vegagerðar á Ístandi á að koma með till. um tekjustofn á móti og segja okkur hvernig við getum haldið uppi vegagerð og viðhaldi vega í þessu landi án þess að fá til þess fjármagn. Annað er auðvitað fullkomið ábyrgðarleysi. Þessi afstaða Sjálfstfl. í þessu máli núna rétt fyrir kosningar stafar ekki af ábyrgð. Hún stafar einfaldlega af því, að Sjálfstfl. telur þetta gott kosningamál. Þetta tel ég mjög ómerkilega afstöðu. Hún er ekki byggð á ígrundun eða athuguðu máli.

En ég vil segja það sem mína skoðun, að ég hef frá upphafi, frá því að hugmyndin um þennan skatt kom fram, haft um réttmæti hans mjög verulegar efasemdir. Ég hef talið að hann kæmi óréttlátlega niður á hópa manna og ég mun gera nánari grein fyrir því.

Ég held að þetta mál hafi hvergi nærri nóg verið skoðað, ég held að það hafi verið kastað til þess höndunum og ég tel að þeir menn sem unnu þetta frv. hafi ekki gætt þess hvernig þessi skattur kemur t.d. niður á atvinnurekstri í landinu og hafi ekki gætt þess hvernig hann mun valda verðhækkunum og hvernig hann mun beinlínis verða verðbólguhvetjandi. Ég vil minna á að þessi skattur kemur illa við stór atvinnufyrirtæki í landinu. Hann kemur illa við fyrirtæki. Við skulum bara taka kaupfélög, við skulum taka mjólkurbú, við skulum taka steypustöðvar, við skulum taka flutningafyrirtæki, sérleyfishafa hópferða, hópferðamenn og aðra slíka, við getum nefnt strætisvagna og fleira af því tagi. (Gripið fram í.) Þeir aðilar sem hafa tækifæri til að veita þessum skatti beint út í verðlagið þurfa ekki að hafa hátt og hljóða undan þessum skatti, vegna þess að það verður að endingu sá sem þjónustunnar nýtur sem borgar skattinn. Það er alveg augljóst mál. Við skulum taka sem dæmi, að þeir aðilar sem hafa mikla vöruflutninga frá t.d. Reykjavík og út á landsbyggðina verða að setja þennan skatt beint út í vöruverðið. Það er alveg augljóst mál. Mjólkurbúin verða að koma þessum skatti einhvern veginn inn í mjólkurverðið. Steypustöðvar verða að koma þessum skatti út í steypuverðið. Ég tel að þessi skattur bitni hvað ranglátast á fólkinu sem er með einkabílana, sem getur ekki sett skattinn út í verðlagið. (FrS: Styður hv. þm. frv.?) Ég kem að því síðar, hv. varaformaður sjálfstæðisflokksins.

Ég vil segja það, að skattar af þessu tagi, sem lagðir hafa verið á á undanförnum árum, hafa ekki skilað sér nema að óverulegu leyti til vegagerðar í landinu. Það er svo, og ég get tekið undir það með hv. þm. Matthíasi Á. Mathiesen, að þessir skattar, sem hafa verið lagðir á bifreiðaeigendur í landinu á undanförnum árum, hafa meira eða minna farið í ríkishítina, en þeir gerðu það líka í fjármálaráðherratíð hans alveg örugglega. Þó hann veifi hendi og biðjist undan þessari ákæru var það svo.

Það hefur verið á undanförnum árum reynt að leita leiða látlaust til þess að afla fjármagns til vegagerðar í landinu. Ég vildi óska þess að hv. þm. Matthías Á. Mathiesen hefði setið með mér á laugardagskvöldið í bifreið á leið frá Húsavík til Akureyrar. Þá hefði hann séð ástand vega á Íslandi. Og ég er alveg sannfærður um að á leiðarenda hefði þm. sagt: Hér verður að verða breyting á. Hér verður að lagfæra. Hér verður að koma bundið slitlag. Þá hefði ég kannske spurt hann um leið: En hvar eigum við að taka peningana í þetta? Hvar eigum við að fá þá? Eigum við að prenta þá í Seðlabankanum eða eigum við að taka erlend lán fyrir þessu? Hvernig eigum við að fara að þessu? (Gripið fram í: Spara ríkisútgjöldin.) Spara ríkisútgjöldin, segir þessi hv. þm. Þá legg ég til að hann komi hér upp á eftir og geri grein fyrir því hvernig hann vill spara ríkisútgjöldin.

Hans till. og sjálfstæðismanna í þessu máli um það hvernig afla ber þessa fjármagns, sem þeir eru að leggja til að verði ekki náð í, hafa ekki komið fram. Hér er um að ræða 100 millj. kr. og ef þetta fjármagn fæst ekki til vegáætlunar á þessu ári vil ég að þm. geri grein fyrir því, bæði í mínu kjördæmi og öðrum kjördæmum á landinu sínu, hvernig á að vinna að þeim verkefnum sem nauðsynlegt er að vinna. Það er ekki nóg að segja að við verðum að fella niður skatta. Við verðum að halda uppi í þessu þjóðfélagi ákveðinni þjónustu, fram hjá því verður ekki komist, hvort sem það heitir vegagerð, heilbrigðisþjónusta eða annað. Allt skraf um að fella niður skatta án þess að koma með till. á móti um hvernig aflað skal fjármagns í þessar framkvæmdir, í þessi verkefni, er fullkomlega óábyrgt hjal. Hins vegar geta menn haft efasemdir og gagnrýnt einstakar skattaleiðir.

Ég vil minna á það í þessu sambandi, að það verður engin krónutöluraunhækkun á milli ára í vegagerð á Íslandi ef miðað er við vegáætlun í ár og í fyrra. Það verður sem sagt samdráttur í vegáætlun. Ef við fáum ekki þá peninga, sem hér um ræðir, með einhverjum hætti verður samdrátturinn ennþá meiri. Og þá, þegar líður fram á næsta kjörtímabil hjá hv. þm. og öðrum þm., verða þeir að svara fyrir það, hvers vegna ástand vega er eins slæmt og það er. (HBl: Þetta er nú hundalógík.) Ég veit ekki hvort hundalógík hv. skrifara er betri eða verri en mín, en mörg hundalógíkin hefur komið frá honum úr þessum ræðustól.

Ég vil líka segja það sem mína skoðun, að ef þm. hefðu ekki beitt sér fyrir umtalsverðum breytingum á þessu frv. frá því sem það var í upphafi, þegar krónugjaldið pr. kg átti að ganga alveg frá minnstu bílum og upp í þá stærstu óbreytt, liti þetta mál öðruvísi út. Þá yrðu 20 tonna steypubílar að borga 20 þús. kr. Í meðförum þingnefnda hefur þó sú upphæð lækkað niður í 7600 kr. sem hámark á þessum skatti. Ég vil benda á að það er búið að lækka gjaldið samkvæmt till. fjh.- og viðskn. á bíla á milli 2000 og 5000 kg úr 1 kr. í 70 aura og frá 5000 kg og upp úr í 50 aura pr. kg, og það er talsverður munur á þessu og frv. eins og það var upphaflega. Ég vil líka benda á að inni í brtt. fjh.- og viðskn. eru áætlanir og ákvarðanir um lækkun á tollum á hjólbörðum, sem lækka þennan skatt á að giska um rösklega 7 millj. kr. Ég vil líka benda á að það eru eigendur einkabílanna sem borga yfir 90% af þessum skatti. Ég vil að menn hafi það hugfast.

Ég sagði áðan að ég hefði haft af því mikinn ama á undanförnum árum að það sem hefur verið kallað „markaðir tekjustofnar til vegagerðar í landinu“ hefur hvergi nærri runnið til vegagerðar. Ég vil líka minna á þá mótsögn sem hefur komið fram í máli hæstv. fjmrh. Hann hefur talað um að hann hafi í sinni ráðherratíð lækkað innflutningsgjöld á litlum bílum. Ég flutti fyrir þremur árum till. um þetta og líklega tók ráðh. hana upp nær óbreytta. Þessi lækkun varð til mikilla hagsbóta fyrir bifreiðaeigendur og eigendur einkabíla hér á landi. En mér skilst hins vegar að þessi breyting sé einhverra hluta vegna að hverfa og að þessi lækkun sé hvergi nærri í sama gildi og upphaflega. Væri nú gott að fá skýringar hæstv. fjmrh. á þessu.

Ég sagði frá því, að ég hefði haft umtalsverðar áhyggjur af þessu gjaldi þegar það kom til umr. í þingflokki Alþfl. og satt best að segja var ég á móti því. Hins vegar beygi ég mig undir þau rök að við verðum að afla fjármagns til vegagerðar hér á landi. Annað er hreinn loddaraskapur, ef menn halda því fram að við getum haldið uppi því vegakerfi að við getum endurnýjað og endurbætt án þess að ná í fjármagn til endurbótanna. Og það ættu þeir menn að þekkja sem aka um í dreifbýli þessa lands og þar eru engar hraðbrautir. Það eru engar sæluferðir sem menn fara um þá vegi, allra síst að vetrarlagi, og kannske eiga þm .a.m.k. dreifbýliskjördæmanna eftir að komast að því í kosningabaráttunni í apríl, þegar aurmyndun verður og frost fer að fara úr vegum, hvernig er að fara um þá.

Við erum á stigi þróunarlanda í vegagerð. Ég vona að menn geri sér grein fyrir því. Það eru örfáir malbikaðir kaflar utan stór-Reykjavíkursvæðisins. Það þarf gífurlegt fjármagn til vegagerðar. Auðvitað hefði átt að leysa þetta mál með áætlunargerð og með því að afla fjármagns eftir öðrum leiðum og gera „massíft“ átak í vegagerð. Auðvitað eru þær óþolandi þessar sífelldu skattaálögur, í hvaða formi sem þær eru, en einhver verður þó að borga þetta. Hér var um eina aðferð að ræða. Hún hefur verið til umræðu hér á þingi, hún hefur verið til umr. úti í þjóðfélaginu og þeir menn, þeir hópar, hagsmunaaðilar, sem verða fyrir þessum skatti og verða að greiða hvað hæstar upphæðir, mótmæla honum. Ég skil þeirra afstöðu mætavel, en það kemur að því fyrr eða síðar í þeim efnahagshrunadansi sem hér er dansaður nú þessa dagana, að einhvers staðar verður að taka þessa peninga og á endanum seilist ríkisvaldið ævinlega og ávallt í vasa skattborgarans. Það er raunverulega eina leiðin sem ríkisvaldið hefur um að velja. Við búum ekki til peninga til þess að framkvæma fyrir án þess að þeir peningar verði til sem verðmæti í þjóðfélaginu fyrir vinnu manna og þaðan koma peningarnir til alls, hvernig sem á það er litið.

Herra forseti. Ég hef hér flutt brtt. ásamt hv. þm. Jóni Baldvin Hannibalssyni. Við viljum með henni gera tilraun til að koma í veg fyrir að þessi skattur verði einn af þeim sköttum sem lagðir eru á, eins og stundum er sagt, til bráðabirgða, en verða eilífir. Við viljum að þessi lög gildi aðeins í eitt ár. Við viljum að þetta ár verði notað til að aðgæta hvernig þessi skattur kemur niður á einstökum hópum í þjóðfélaginu, á eigendum einkabifreiða, á eigendum atvinnutækja, manna sem hafa lífsframfæri sitt af því að aka bílum, hvernig þetta kemur niður á atvinnurekstrinum, hvernig þetta fer út í verðlagið, hver verðbólguáhrifin verða af þessum skatti. Þetta er tilraun af minni hálfu til að koma í veg fyrir að þetta verði eilífur skattur. Ég skora þess vegna á hv. þm. að þeir greiði þessari till. atkv. Það er þó verið að setja undir þann leka að menn líti á þennan skatt sem eilífan skatt. Þá gefst tækifæri til að endurskoða á tímabilinu réttmæti þessa skatts, hvort hann kemur fram sem skattur í anda þess jafnaðar sem við þurfum ævinlega að hafa á bak við eyrað.

Ég get lýst því yfir að ég er sammála mörgum þeim brtt. sem hér hafa komið fram og auðvitað treysti ég því t.d. að hv. sjálfstæðismenn greiði þessari till. minni atkv. Þeir hafa talað svo fjálglega gegn þessum skatti. Ég veit að skattur af þessu tagi kemur illa við fólk. Það gera yfirleitt allir skattar. Við viljum helst öll vera skattlaus, en það bara gengur ekki í nútímasamfélagi sem vill halda uppi þeirri velferð og þeim „status“ sem við erum að rembast við að halda uppi með misjöfnum árangri í þjóðfélagi okkar. Því miður get ég ekki glatt áhugamenn um niðurfellingu þessa skatts með því að ég ætli að taka þá ábyrgðarlausu afstöðu að vera á móti honum án þess að ég geti komið fram með till. um annan tekjustofn á móti. Ég ætla ekki að gera því fólki það, sem þarf að nota vegi þessa lands, að skera niður í einu vetfangi 100 millj. kr. til vegaframkvæmda á þessu ári, sem gert er ráð fyrir í vegáætlun, sem á að byrja að starfa eftir í vor. Það kemur ekki til greina. Ef hv. þm.

Matthías Á. Mathiesen og hans félagar í Sjálfstæðisflokknum eru tilbúnir að fella þennan skatt og koma með till. á móti sem jafngildir honum í krónutölu skal ég styðja þá tillögu. En á meðan þeir ekki gera það og nota þennan skatt sem kosningamál, þ.e. að fella hann niður, er ég ekki með þeim. Þá skil ég þá ekki. Það gefur byr undir báða vængi þeirri skoðun, sem ég nefndi hér áðan, að auðvitað væri þeirra afstaða tekin með tilliti til þess að það eru fimm vikur til kosninga og þeir geti slegið sér upp á því meðal ákveðins hóps í þjóðfélaginu að þeir hafi nú verið góðu mennirnir, góðu drengirnir, verið á móti skattinum. En ég efast um að t.d. þeirra flokksbræður í mínu kjördæmi, sem heimta nýja vegi, heimta betrumbætur á vegum, sem eru aldeilis fyrir neðan allar hellur, þakki þeim fyrir þessa afstöðu. Ég er ekki sannfærður um að það fólk sem verður að ferðast um víðfeðm kjördæmi, víðfeðma landshluta, þakki þeim fyrir að skera niður um 100 millj. kr.

Ég endurtek: Komið með tillögu á móti, sem ekki er af þessum toga, tillögu sem þið getið sýnt fram á að er ekki þess eðlis að sé verið að skattleggja einstaklinga í þjóðfélaginu beint. Þá skal ég vera með ykkur. Það er alveg klárt. En á meðan þið talið eins og þið talið og segið einfaldlega að þennan skatt beri að leggja niður, án þess að koma með nokkra fjáröflun á móti þegar verið er að undirbúa vegáætlun, eruð þið bara í kosningaleikjum. Og það er ykkar mál.