10.11.1982
Neðri deild: 9. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 541 í B-deild Alþingistíðinda. (314)

33. mál, neyðarbirgðir olíu

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég held að það sé ákaflega mikill misskilningur hjá hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni að það sé eingöngu keypt olía til landsins þegar hátt verð er á henni í Rotterdam. Ég held að það sé allur gangur á þessu. Þetta sveiflast nokkuð til, jafnvel frá degi til dags, þannig að það er nokkur tilviljun hvað verðið er skráð þegar olíunni er afskipað. Ég held að það sé allur gangur á því þannig að við njótum óhags og hags af þessu eftir atvikum.

Varðandi flutningana til landsins er eitt af þeim vandamálum, sem við eigum við að stríða í sambandi við okkar olíumál, það að neysla okkar er svo hverfandi lítil samanborið við stóru þjóðirnar. Okkar birgðir mundu duga þjóð eins og Frökkum í nokkrar mínútur, Bretum og Vestur-Þjóðverjum, að ég tali nú ekki um Bandaríkjamönnum, í nokkrar mínútur. Það er svo gífurlegur munur þarna á að mér þykir ákaflega ólíklegt að það kæmi til greina — og ég er þá að tala um hvað líklegast er að muni gerast á neyðartímum — að við þyrftum að flytja olíu til einhverra af þessum þjóðum. Mér þykir miklu líklegra, svo að ég segi ekki meira, að við mundum njóta góðs af þessu þegar af þeirri ástæðu að okkar birgðir, þó að þær séu 90 daga birgðir og endist okkur í 90 daga, endast ekki þessum stóru þjóðum nema í nokkrar mínútur. Þess vegna þykir mér langlíklegast að það verði á hinn veginn fyrst og seinast, að það verðum við sem njótum góðs af samneyti við þessar þjóðir í olíumálum ef neyðarástand kann að skapast. Og það er auðvitað á þeim grundvelli sem við teljum okkur hag í því að flytja svona mál.

Varðandi verðlagningu á olíuvörunum er því til að svara að þessa stundina, þetta ár, seinasta ár og síðan dollarinn fór að hækka meira en aðrir gjaldmiðlar hefur það verið óhagstætt fyrir okkur að olían er keypt í Bandaríkjadollurum. Olíuviðskipti grundvallast á bandarískum dollurum um allan heim. Þetta hefur verið okkur mjög óhagstætt vegna þess að Bandaríkjadollarinn hefur hækkað svo gífurlega. Þó að það sé að vísu hagstætt fyrir okkar efnahag þegar á heildina er litið, vegna þess að við flytjum svo mikið út í dollurum, þá er það óhagstætt varðandi olíuverðið og orsakar þessar sífelldu hækkanir á olíuvörum. Þær stafa náttúrlega fyrst og fremst af því hvað dollarinn hækkar gífurlega, t.d. á þessu ári.

Verðlagsráð fjallar um verðlagningu á olíuvörum. Það hefur verið þannig um alllanga hríð að svokallaður olíujöfnunarreikningur hefur verið óhagstæður, þ.e. það misræmi sem skapast á milli þess verðs sem olían er seld á og þess sem hún er keypt á. Hann er enn talsvert verulega óhagstæður og þess vegna hefur þurft að hækka olíuna heldur meira stundum en markaðsverð gefur tilefni til, til þess að draga úr halla á þessum olíujöfnunarreikningi, sem er réttilega, eins og hv. þm. Albert Guðmundsson gat um, fjármagnaður af ríkisbönkunum.

Það er engin ástæða til að leyna því að þegar birgðir eru auknar hækkar olíuverðið. Við höfum t.d. aukið birgðir okkar talsvert upp á síðkastið og það hefur haft í för með sér vissa hækkun á olíuverði, sem neytendur, sjávarútvegurinn og almennir neytendur í landinu, bílaeigendur og aðrir slíkir hafa þurft að greiða. Það er engin ástæða til að leyna þessu. Það er staðreynd að það kostar þjóðina nokkuð að auka birgðirnar. Það hefur verið reiknað út að miðað við meðalbirgðir árin 1980 og 1981 muni það kosta í hækkuðu verði á olíuvörum 1.6%. Og ég hef ekki nokkra trú á því að neinn aðili geti staðið undir þessu annar en neytendur, ég hef ekki trú á því. Það er auðvitað sjálfsagt fyrir þær nefndir sem fjalla nánar um þetta mál að fara ofan í þetta. En þetta eru svo miklar fjárhæðir að ég hef ekki trú á því að hugsanlegt sé að gera það með öðrum hætti.

Nei, ég held að niðurstaðan verði einmitt þveröfug við það sem hv. þm. Albert Guðmundsson spáði í sinni ræðu. Við erum að reyna að auka öryggi okkar á þessu sviði. Við trúum því að með samvinnu við þessar þjóðir, sem eru okkar aðalviðskiptaþjóðir eins og kunnugt er, þó að fleiri komi þar til, séum við að auka öryggi okkar ef eitthvað ber út af. Í þeirri trú er þetta frv. flutt.