10.11.1982
Neðri deild: 9. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 543 í B-deild Alþingistíðinda. (316)

33. mál, neyðarbirgðir olíu

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir að hafa fallist á nokkrar af þeim aths. sem ég setti hér fram í ræðu minni áðan. En það eru því miður ekki þau meginatriði sem ég hef lagt mesta áherslu á. Hæstv. ráðh. hefur ekki ennþá svarað því t.d. hvort Íslendingar mundu — og þá hann fyrir þjóðarinnar hönd — setja það skilyrði sem Norðmenn settu, að fallast ekki á þann skilning að stefnumörkun Alþjóðaorkustofnunarinnar í orkumálum sé lagalega bindandi fyrir einstök aðildarríki. Ráðh. hefur heldur ekki svarað þeim efasemdum hvort svo kynni að fara að aðildin skerti rétt okkar til sjálfstæðra samninga við olíusöluríkin. Slík skerðing gæti auðvitað verið áfall fyrir okkar eigin markaði og því full ástæða til að huga að þessu.

Síðast en ekki síst hefur ráðh. ekki svarað því, til hvers þetta frv. sé lagt fram. Hvert er beint gagn að þessu frv. og lögunum, ef að lögum yrði, fyrir þjóðina? Eftir þær umr. sem hér hafa farið fram kemst ég að nákvæmlega sömu niðurstöðu og hv. þm. Albert Guðmundsson og Guðmundur J. Guðmundsson. Það er afskaplega erfitt að sjá að gagnið yrði annað en það að olíuverð hækkaði til neytanda. Og ég vil taka undir spurningar þeirra, sem ég raunar lagði fram í upphafi þessarar umr., viljum við borga? Ég held að það svar hljóti að verða nei. Það er ekki á þjóðina leggjandi, sýnist mér, um þessar mundir að hækka olíuverð til þess eins, eins og hér hefur verið margsagt, að við göngum í þann auðmannaklúbb, sem þessi stofnun er, sem aðeins hefur að meðlimum 20% jarðarbúa og auðvitað hina ríkustu.