14.03.1983
Neðri deild: 67. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 3148 í B-deild Alþingistíðinda. (3178)

158. mál, bann við ofbeldiskvikmyndum

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Ég þakka hv. 1. þm. Vestf. fyrir þessa glimrandi áróðursræðu fyrir Bandalag jafnaðarmanna, sem hann var hér að flytja, og ég vænti þess og vona að þessa ræðu flytji hann sem víðast í Vestfjarðakjördæmi í þeirri kosningabaráttu sem er að byrja. Og af hverju er það? Vegna þess að lýsing hans á háttum hv. Alþingis og á starfi þess í vetur og á þessu „djóki“ núna síðast, að taka til umr. þetta frv. með þeim hætti sem gert er, er auðvitað í öllum atriðum laukrétt. En engu að síður er þetta kerfi, sem hv. þm. er að verja öðrum þræði, ónýtt og öll þjóðin horfir á það sem er að gerast.

Þetta var laukrétt lýsing. Hv. 3. þm. Austurl. hefur haldið hér uppi málþófi og þeir aðrir hv. þm. Framsfl. gegn ótrúlega sjálfsagðri tillögu, sem hv. þrír aðrir alþm. hafa flutt. Nú, þegar verið er að rjúfa þing í byrjaðan marsmánuð, er komið í veg fyrir að Alþingi sé kallað saman 18 dögum eftir að kosningum lýkur. Og vita menn hvað þetta getur þýtt? Þetta getur þýtt að ósvífið framkvæmdavald gæti spilað úr þessum spilum.

Hér eru menn að leika sér og bera upp í Ed. frv. um bann við ofbeldiskvikmyndum, blygðunarlaust. Ég vil segja það, að ef það eru til röksemdir fyrir þeim stjórnkerfisbreytingum sem við höfum verið að leggja til verða þær til þessa síðustu daga þar sem hver þvælist fyrir öðrum og af fullkomnu ábyrgðarleysi er verið að fleygja sér út í kosningar. Og til hvers? Til þess að skipta með sér ránsfengnum aftur að kosningum loknum og halda áfram nákvæmlega eins. Allt er þetta auðvitað „show“, allt er þetta leikur gagnvart fólkinu í þessu landi. Af þessari ástæðu var ræða hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar í fyrsta lagi orð í tíma töluð, því hún er það, í öðru lagi laukrétt lýsing á þeirri starfsemi sem fram fer í þessu húsi og síst orðum aukin, en í þriðja lagi lýsing á að það er eitthvað skakkt í þeirri kerfisuppbyggingu sem við stöndum fyrir. Þess vildi ég óska að þennan sannleika segði hann víðar en hér í þessu lokaða húsi öðrum og betri málum til styrktar.

Hér hefur verið borin upp till., sem vitað er að nýtur stuðnings meiri hl. hv. þm., og þó ég sé ekki flm. hennar er ég stuðningsmaður hennar, um að þetta þing álykti um samkomudag að loknum kosningum. Þeir menn sem hér eru hafa stöðugt orðið „þingræði“ á hraðbergi og snúa út úr því raunar, en látum það allt vera. Með hverjum hætti getur þetta Alþingi hætt öðruvísi en að með einhverjum hætti sé eftirleikurinn tryggður? Með fullkomnum skrípalátum héðan úr ræðustól er komið í veg fyrir þetta, og þegar það blandast saman við að beita á þingrofsréttinum, sem er auðvitað eitt af þeim gömlu ólýðræðislegu tækjum sem þessi gamla ónýta stjórnarskrá gerir ráð fyrir, og koma í veg fyrir að þetta þing, sem verið er að leysa upp, klári sig með þeim hætti, þá er verið að gefa undir fótinn ósvífnu framkvæmdavaldi, að það haldi þjóð án þings fram til 10. okt. Samkv. strangasta bókstaf má fara þannig að. Og mér er spurn: Hvað ætla þeir að gera eftir kosningar, burtséð frá kosningaúrslitum, sem svona vinna núna? Svo erum við sökuð um það, sem leggjum til að framkvæmdavald sé kosið af þjóðinni og ekki af þinginu, að við séum að ráðast gegn sjálfu þingræðinu. Hvað eru þessir menn að gera? Það er leitt að þm., sem að öllu öðru leyti nánast á heiður skilið fyrir sinn þátt, og á ég þar við hv. 3. þm. Austurl., skuli taka þátt í þessu, sem eru augljós skrípalæti til að koma í veg fyrir að vilji meiri hluta nái fram að ganga. Og með hverjum hætti geta sömu menn verið að skreyta sig með orði eins og þingræði, sem þeir vita ekkert hvað þýðir þar fyrir utan? Það er þessi kjarni málsins sem er auðvitað aðalatriðið.

Veit ég, herra forseti, að þetta fjallar ekki beinlínis um bann við ofbeldiskvikmyndum, en af fullkominni ástæðu hóf hv. 1. þm. Vestf., Matthías Bjarnason, þessa umræðu. Og hitt vil ég segja, að flytji hann þessa ræðu víðar skilst væntanlega betur hvað við, sem stöndum að Bandalagi jafnaðarmanna, eigum við með þeim hugmyndum sem við erum að leggja til í stjórnkerfismálum, því þetta stjórnkerfi er ónýtt eins og það er, og það er kjarni málsins.

Og ég spyr, herra forseti. Nú á síðasta degi þessa þings, væntanlega, langar mig til að spyrja einnar grundvallarspurningar. Hver kaus hæstv. forsrh. Gunnar Thoroddsen til þeirra starfa? Og velti menn því fyrir sér. Með hverjum hætti gerðist það? Þingið er búið að vera svona í þrjú ár, með nákvæmlega þessum hætti, en kjarni málsins er sá, að það er engin trygging að óbreyttu. Hvort sem Sjálfstfl. og öll brotabrotin renna inn með Framsókn eða með Alþb., þá er engin trygging fyrir öðru. Þetta verður nákvæmlega eins að kosningum loknum, nema annarra og nýrra sjónarmiða fari að gæta. Það er kjarni málsins.

Hér hefur hv. 1. þm. Vestf., Matthías Bjarnason, gefið þinginu laukrétta lýsingu á öllu umhverfinu. Hann hefur notað orðið óheilindi. Það er auðvitað rétt þegar þm. hv. eru að vafra hér um sali og hafa ekki hugmynd um hvort á að svipta þá umboði eftir klukkutíma eða tvo daga, eins og þetta er búið að vera núna vikum saman. Svo standa þeir upp Morgunblaðsmenn hér og tala um að einhverjir séu að gera árásir á þingræðið. Hvaða þingræði? Mér er spurn. Kjörnir fulltrúar hafa ekki hugmynd um hvort einhver einn maður með annarlegar hvatir getur sent þá heim með klukkutíma fyrirvara eða ekki. Væri ekki nær að líta þangað? Það er það sem nú er að gerast.

Hér stendur upp gamalreyndur þm., hv. 1. þm. Vestf., væntanlega í umr. um síðasta mál sem við erum að fjalla um á þessu þingi, og allir vita að sá sem hóf þessa umr. hefur langa þingreynslu. Hann lýsir í fyrsta lagi störfum hv. alþm. Hann er að lýsa stjórnkerfi sem stenst ekki lengur. Í öðru lagi lýsir hann því og lýsir því réttilega, að afleiðingar af þessu eru alveg botnlaus óheilindi manna á milli. En ég spyr ykkur, herrar mínir: Af hverju talið þið svona hér innan sala? Af hverju farið þið ekki út, til þjóðarinnar, og segið nákvæmlega frá því, með hverjum hætti hér er starfað? Ef þið gerið það þurfum við í Bandalaginu enga kosningabaráttu að heyja. Þá kemur þetta af sjálfu sér, því að þetta er sjálfur kjarni málsins. Af þessum ástæðum erum við að leggja það til sem við höfum lagt til. Við stöndum frammi fyrir því núna að við erum að ræða hálfgert gamanmál, sem þetta frv. er andspænis t.d. hinni tillögunni, um að Alþingi nú ákveði samkomudag. Lítill minni hl. þm. hefur beitt hér fullkomnum bolabrögðum til að koma í veg fyrir að þessi augljósi þingvilji minn og a.m.k. þriggja þingflokka nái fram að ganga. Hér á síðan að beita þingrofsrétti hugsanlega í nótt og að því loknu er samkv. stjórnarskrá frá 1874 engin trygging fyrir öðru en því, að þing verði kallað saman 10. okt.

Í dag er byrjun marsmánaðar. Átta menn sig á því hvað menn eru að gera? Ég efast um það. Þessir værukæru framsóknarmenn, sem sjaldan taka hér til máls og eru lekandi um bankakerfið, ég held að þeir hafi ekki hugmynd um hvað þeir eru að gera. Hver stýrir þessu með þessum hætti? Hér er hugsanlega verið að afnema þing í sex mánuði. Svo ræða þeir ofbeldiskvikmyndir og eru alveg á því að banna þær allir saman.

Herra forseti. Starfsemin í þessu húsi er komin á hættulegt stig. Og við vitum að sá ágreiningur, sem hér á sér stað, sem er auðvitað verulegur, er ekki lengur á milli stjórnmálaflokka fyrst og fremst. Hann skerst eftir allt, allt öðrum línum. Við berum sennilega allir ábyrgð á því að við höfum falið þennan raunverulega ágreining allt of lengi, til þess m.a. að halda lífi í félagskerfi sem raunverulega er dautt og farið að þvælast fyrir. Fyrir vikið taka þeir sem hér bera ábyrgð, 59 alþm., þátt í því að hraða kosningum þar sem þetta sama kerfi kemur fram með sömu andlit — þá á ég við skoðanir en ekki einstaklinga — og það á að halda lífi enn í þessari goðsögn. En þá gerist það, að heiðarlegur þm. eins og hv. 1. þm. Vestf. stendur hér upp í umr. um frv. til l. um ofbeldiskvikmyndir og gefur rétta lýsingu á því sem hér á sér stað.

Ég vil aðeins segja það að lokum við hv. þm. Matthías Bjarnason, að hann er að fremja óhæfuverk ef hann segir þetta ekki utan þessa húss, ef hann fer ekki um alla Vestfirði og lýsir því Alþingi sem hann lýsti hér áðan, vegna þess að það er rangt gagnvart fólkinu í þessu landi að halda þeirri goðsögn gangandi að hér sé að gerast allt annað en raunverulega er að gerast. Með málþófi hefur hv. 3. þm. Austurl. og aðrir flokksbræður hans komið í veg fyrir að þingvilji nái fram að ganga, þ.e. að fulltrúalýðræðið, fulltrúaþingið í þessu landi, fái að njóta sín svo sem því ber. Það er það sem hann hefur gert og þetta vita auðvitað allir. En samtryggingin hefur verið slík, að mönnum er hlíft við hugmyndum af þessu tagi í nafni þingræðisins, í nafni flokkakerfisins. Flytji hv. þm. Matthías Bjarnason þessa ræðu sína víðar mun líka aukast skilningur hjá upplýstu fólki á því að þetta stjórnkerfi er veikleiki okkar. Þá taka skynsamir og ábyrgðarfullir einstaklingar sig saman og innan allra þeirra laga og leikreglna, sem gera verður ráð fyrir, og breyta þessu stjórnkerfi. Kannske verðum við hv. þm. Matthías Bjarnason báðir á næsta þingi, en með þessum hætti gengur þetta ekki lengur.

Ég vil enn þakka hv. 1. þm. Vestf. fyrir þá ræðu sem hann flutti áðan. Það voru orð í tíma töluð.