10.11.1982
Neðri deild: 9. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 544 í B-deild Alþingistíðinda. (318)

33. mál, neyðarbirgðir olíu

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Mér finnst að mönnum hætti til þess á tímum þegar ekki er erfitt ástand í sambandi við olíumálin, þegar ekki er kreppa, þegar nóg er af olíu og engin vandræði með innkaup og aðdrætti, þá hætti mönnum dálítið til þess að gleyma því ástandi sem kann að skapast og hefur skapast og gæti auðveldlega skapast, ef erfiðleikar eða olíukreppur endurtaka sig. Mér þykir ekki ólíklegt að þróunin verði á þá leið að það verði erfiðara og erfiðara að afla meiri olíu þó að það kunni að taka nokkra áratugi.

Það er matsatriði að sjálfsögðu að hve miklu leyti þjóðin á að birgja sig upp með varaforða af olíuvörum. Það er ekkert einhlítt svar í því efni. En ég er þeirrar skoðunar og það eru margir fleiri, að sé það rétt mat hjá þjóðum eins og t.d. Svíum, Dönum og minni þjóðum í Vestur-Evrópu og mörgum fleiri þjóðum að byggja á 90 daga lágmarki hvað snertir olíubirgðir, þá hljóti að liggja í hlutarins eðli að fyrir þjóð eins og Íslendinga sem býr í afskekktu landi langt úti í höfum þar sem aðdrættir geta verið erfiðir, sé a.m.k. ástæða til að eiga eins miklar varabirgðir og þessar þjóðir.

Ég skal ekki leggja dóm á það hvort við erum hlutfallslega háðari, hvað snertir okkar atvinnulíf, olíuvörum en ýmsar aðrar þjóðir. Þó mætti segja mér að okkar atvinnulíf væri með þeim hætti, og þá á ég alveg sérstaklega við sjávarútveginn, að við erum honum ennþá háðari heldur en kannske allar aðrar þjóðir um öryggi í þessum efnum. (Gripið fram í.) Það var ekki ætlun mín hér áður að tala um það eins og ekkert mál að hækka olíuverð um 1.6%. Það hef ég ekki sagt. Hins vegar kostar það 1.6% hækkun á olíuverði að auka birgðirnar um það sem við þurfum til að ná 90 daga markinu.

Hv. þm. Guðrún Helgadóttir ræddi um bindandi skuldbindingar. Það er einmitt tekið fram alveg skýrum stófum í öðrum fyrirvaranum að almennar reglur séu ekki lagalega bindandi fyrir Íslendinga. Það er einn aðalfyrirvarinn, einn þýðingarmesti fyrirvarinn og kannske sá fyrirvari sem Norðmenn lögðu einna mesta áherslu á þegar þeir voru að fjalla um aðild að Alþjóðaorkustofnuninni. (GHelg: Er sá fyrirvari viðurkenndur af stofnuninni?) Það kemur í ljós. Það er skilyrði af okkar hálfu. Samkv. þessu hefur ríkisstj. ekki heimild til, ef frv. verður að lögum, að gerast aðili að stofnuninni með öðrum hætti. Stofnunin verður að fallast á þá fimm fyrirvara sem við gerum um hugsanlega aðild.

Að þetta sé eitthvert príl hjá okkur, eitthvert mont hjá okkur að gerast aðilar að svona stofnun, það er mesti misskilningur hjá hv. þm. Albert Guðmundssyni. Við erum auðvitað að þessu í þeirri trú að við aukum á okkar öryggi í þessum málum. Það er mergurinn málsins. Við erum aðilar að mörgum alþjóðastofnunum, sem við höfum mikinn hag af að vera aðilar að, fríverslunarsamstarfinu, svo að ég taki dæmi, og Efnahags- og framfarastofnuninni. Sú stofnun sem hér á í hlut er nánast hluti af Efnahags- og framfarastofnuninni. Ef við verðum aðilar að Alþjóðaorkustofnuninni eru 22 þjóðir af 24, sem eru aðilar að Efnahags- og framfarastofnuninni, orðnar aðilar að þeirri stofnun, svo að ég held að það sé mikill misskilningur að um neitt slíkt sé áð ræða. Það sem fyrir mér vakir og fyrir ríkisstj. með framlagningu þessa máls er fyrst og seinast að með þessu séum við að tryggja öryggi okkar í olíu- og orkumálum.