14.03.1983
Neðri deild: 67. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 3152 í B-deild Alþingistíðinda. (3180)

158. mál, bann við ofbeldiskvikmyndum

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það er ekkert nýtt, þó að menn haldi svo, að Alþingi sé gagnrýnt í almennri umr. og lítið sé gert úr alþm. Menn geta lesið það alveg frá því núverandi flokkakerfi hófst og raunar frá því miklu fyrr. Alþm., sem eru í minningu nú orðnir mætir forustumenn, sættu mikilli persónulegri gagnrýni og Alþingi einnig. En það gerist í fyrsta skipti nú, að þær leikreglur sem Alþingi byggist á og störf slíkrar samkomu eru meira en gagnrýndar. Þess er krafist að þeim verði breytt. Það eru leikreglur sem íslenskt sjálfstæði, íslensk menning, íslensk þjóð hefur byggt tilveru sína á um áratuga skeið.

Það hefur komið fram stjórnmálaflokkur í landinu með þá kröfu að þingræðið í þeirri mynd sem við þekkjum það sé afnumið. Menn geta deilt um þá till. Um hitt verður ekki deilt, að það sem gerst hefur í vetur að tilhlutan hæstv. forsrh. er sennilega alvarlegasta tilræði við þingræðið, eins og við höfum þekkt það, sem gert hefur verið. Stofnun nýs flokks, upplausn í stjórnmálum, órói í stjórnmálaflokkunum er hégómi einn samanborið við það tilræði — ekki gegn alþm. sem slíkum heldur gegn Alþingi sem stofnun — sem hæstv. forsrh. hefur gert sig sekan um.

Tilgangur hans nú er að gera sér leik að því með stuðningi þm. úr Framsfl. að láta þingi nú lokið með fjölmörg stór mál óafgreidd, þar á meðal óafgreitt hvenær þing eigi að koma saman á ný til þess að taka til við úrlausn þeirra erfiðu efnahagsmála sem fyrir eru. Hvers vegna hyggst forsrh. framkvæma þetta þó að honum hafi staðið til boða og standi til boða enn samvinna við stjórnarandstöðuflokkana um afgreiðslu þessara mikilvægu mála? Skýringin er einfaldlega sú, að verið getur að hæstv. forsrh. og þm. Framsfl. hyggist sitja áfram í ríkisstjórn að kosningum loknum í allt að sjö mánuði gegn vilja kjósenda, gegn vilja þingsins. Það hefur komið fram að samkv. stjórnarskránni, sem við enn notum, er það vald algerlega í höndum eins manns hvenær Alþingi, löggjafarsamkunda þjóðarinnar, sem ríkisstjórnin á að hvíla á, er kallað saman. Hæstv. forsrh. ræður þessu einn. Hann gæti tekið þá ákvörðun eftir kosningar að boða ekki þing til funda fyrr en á hefðbundnum samkomudegi Alþingis þann 10. okt. á næsta hausti og sitja áfram og stjórna landinu með tilskipunum fram til þess tíma, annaðhvort með stuðningi framsóknarmanna í ríkisstj. eða án hans. Þá dugar ekkert hver vilji Alþingis er. Þá skiptir ekki heldur máli hver vilji kemur fram hjá kjósendum í þeim kosningum sem fram undan eru. Þetta er valdið sem hæstv. forsrh. hefur með höndum og afgreiðsla hans á þingrofi, sem boðuð hefur verið, bendir til þess að hann hyggist nota það vald svona.

Það getur vel verið að það séu einhverjir með þessari þjóð sem finnst slík valdbeiting sniðug, sem geta litið upp til manns sem beitir völdum sínum með þeim hætti. Ég get það ekki, sama hvar í flokki sem hann stendur, því að þó að svo kunni að fara að hæstv. forsrh. noti vald sitt með þessum hætti, þó að hæstv. forsrh., sem nú situr, misbeiti ekki slíku valdi, hver er þá kominn til með að segja að aðrir þeir sem eftir fylgja í þeim stól einhvern tíma síðar eigi ekki eftir að nota vald sitt öðruvísi? Það hefur ágerst að slíkir atburðir, eins og hér á að fara að hefja, hafi verið upphafið að öðru verra.

Það er ekkert við því að segja þó að almenningur í landinu gagnrýni Alþingi og alþm. og telji alþm. litla fyrir sér, smásálarlega að öllu leyti. En ég vara menn við þegar gagnrýnin er farin að færast út í þá sálma að reyna að ryðja um koll því þingræðiskerfi sem Ísland hefur byggt tilveru sína á.

Herra forseti. Þegar ljóst var í ágústmánuði s.l. að ríkisstj. hafði misst meiri hluta sinn í Nd. Alþingis blasti við að hæstv. ríkisstj. gat ekki komið mátum fram og stjórnarandstaðan gat það ekki heldur. Stjórnarandstaðan gat ekki fengið samþykktar neinar tillögur sem hún lagði fram. Hæstv. ríkisstj. gat ekki fengið samþykktar neinar tillögur frá sér. Brtt. frá stjórnarandstöðunni féllu, mál frá ríkisstj. fengust ekki samþykkt óbreytt. Þetta lá fyrir þegar í ágústmánuði. Alþfl. óskaði þá eftir því að ekki yrði farið í þinghald við slíkar aðstæður. Af hverju? Ekki vegna þess að Alþfl. treysti ekki núv. hæstv. ríkisstj. til að ráða fram úr vandamálum, heldur vegna hins, að Alþfl. kveið fyrir því hver örlög þingræðisins á Íslandi mundu e.t.v. verða við slíkar aðstæður, þegar ætti að fara að hefja heilt þing með sjálfheldu milli stjórnar og stjórnarandstöðu, sem ekki væri hægt að rjúfa.

Þegar ekki var fallist á þær ábendingar Alþfl. buðumst við til þess, Alþfl.-menn, að ganga til samkomulags við hæstv. ríkisstj. um afgreiðslu mála gegn því að hæstv. ríkisstj. fengist til að segja af sér og ákveða nýjan kjördag og boða til kosninga. Það fékkst ekki. Það var tekið vel í tilboð Alþfl. um samstarf um að koma málum fram, en því algerlega hafnað að flokkurinn fengi einhver áhrif að hafa á kjördag, kosningar, né heldur að ríkisstj. fengist til að segja af sér þó að hún sæti áfram fram að kosningum. Þá var ekki um annað að ræða fyrir okkur Alþfl.-menn en reyna að koma hæstv. ríkisstj. frá með vantrauststill. Slíka till. fluttum við, en lýstum því jafnframt yfir, að þó hún yrði samþykkt mundum við fella okkur við að hæstv. ríkisstj. sæti áfram sem starfsstjórn svo að hægt væri að kjósa sem allra fyrst og höggva á þennan hnút sjálfheldu. Sú till. var ekki heldur samþykkt.

Núna höfum við Alþfl.-menn boðist til þess að hjálpa ríkisstj. til að afgreiða þau mál sem verður að afgreiða til þess að allt sigli ekki hér meira og minna í strand á meðan verið er að kjósa og mynda nýja ríkisstj. Með afstöðu hæstv. forsrh. hefur því tilboði einnig verið hafnað því nú á að rjúfa þing með lánsfjárlög óafgreidd, sem þýðir það, að t.d. ekkert sveitarfélag í landinu getur gert framkvæmdaáætlanir fyrir yfirstandandi ár. Það á að rjúfa þing með vegáætlun óafgreidda, sem þýðir það, að Vegagerð ríkisins getur engan undirbúning hafið að framkvæmdum í vegamálum í haust. Það á að rjúfa þing án þess að farið hafi fram atkvæðagreiðsla um till. þriggja flokka um að Alþingi komi saman á ný fljótlega að kosningum loknum til að takast á við þann erfiða efnahagsvanda sem beðið hefur óleystur um margra mánaða skeið.

Þetta, herra forseti, er ábyrgðarleysi af hálfu hæstv. ráðh., ekki bara gagnvart Alþingi sem stofnun, heldur gagnvart þjóðinni fyrst og fremst. Ég er nú búinn að sitja á þingi í bráðum níu ár og ég verð að segja það eins og er að það er ekki gaman að því að þurfa að flytja e.t.v. sína síðustu ræðu hér á Alþingi við þessar aðstæður.