14.03.1983
Neðri deild: 67. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 3163 í B-deild Alþingistíðinda. (3188)

158. mál, bann við ofbeldiskvikmyndum

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. ræddi ekki nægilega skýrt um hvort hann hefði tryggingu fyrir því að Alþingi kæmi saman í síðasta lagi 18 dögum, 20 dögum eða 21 degi eftir kosningar. Hann hefur fallist á og lýst því yfir, að það sé meiri hluti á Alþingi fyrir þingrofi, en hefur hæstv. ráðh. tryggingu fyrir því að þing verði kallað saman með þeim hætti sem hann sjálfur, hans flokkur, allt Alþb., setti fram í þáltill.? Þegar sú till. var sett fram treysti Alþb. ekki samstjórnarflokki sínum nægilega vel til þess að standa þannig að málum. Hvað er það sem hefur gerst frá því á föstudaginn sem verður til þess að hæstv. ráðh. telur nú að það séu breyttar forsendur? Að þeir vilji nú standa að þingrofi til að bjarga núv. hæstv. ríkisstj. frá falli, frá því að segja af sér, frá þeirri niðurlægingu sem fram undan var? Eru það nýjar upplýsingar? Er það trygging fyrir þessum sjónarmiðum Alþb. eða hleypur Alþb. frá sínum sjónarmiðum vegna þess að þeir eru að tefja fyrir því að álmálið fái eðlilega meðferð, sem mikill meiri hl. Alþingis vill? Þessu svaraði hæstv. ráðh. ekki. Þögnin var æpandi.

Við krefjumst þess að hann segi hér umbúðalaust ef gerður hefur verið einhver leynisamningur um helgina, sem hefur gert það að verkum að Alþb., hæstv. félmrh., hæstv. fjmrh., hæstv. iðnrh., hafi fengið tryggingu fyrir því að það meginsjónarmið flokksins, sem sett var fram í þáltill. sem flutt var í báðum deildum, nái fram að ganga. Hæstv. ráðh. ber siðferðileg skylda, bæði vegna þingsins og vegna eigin kjósenda, að koma hér í þennan ræðustól og tala svo skýrt mannamál að við skiljum hér á hv. Alþingi og þjóðin öll.