14.03.1983
Neðri deild: 67. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 3164 í B-deild Alþingistíðinda. (3189)

158. mál, bann við ofbeldiskvikmyndum

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessa umr., enda hef ég áhuga á því að þetta frv., sem hér er á dagskrá, verði afgreitt, en ég get hins vegar ekki stillt mig vegna orða hæstv. fjmrh. hér áðan að beina til hans mjög ákveðinni spurningu. Hann segir nánast orðrétt að hann telji fullvíst að það sé þingmeirihluti fyrir þingrofi og að meiri hluti þm. mundi samþykkja þingrof ef atkvæði yrðu um það látin ganga.

Ég vil af þessu tilefni segja við hæstv. fjmrh., að með þessum orðum er hann að lýsa því yfir að meiri hluti þingheims sé óábyrgir menn, gjörsamlega óábyrgir menn sem séu tilbúnir að fara heim af þingi án þess að afgreiða hin veigamestu mál sem liggja fyrir þingi og þarfnast afgreiðslu þess á hverjum tíma. Ef þetta er hugmynd hæstv. fjmrh. um það þing sem hann hefur starfað með á þessu kjörtímabili, þá vildi ég gjarnan fá hann hingað upp í ræðustól og hann lýsi því ákveðið yfir sem skoðun sinni, að ef atkvæði yrðu látin ganga í þessu máli væri meiri hluti þingheims með þingrofi. Þetta eru býsna stór orð. Ég vil bara lýsa því yfir að ég, eins og ég hef sagt áður, tel það ábyrgðarleysi og fásinnu að þingið fari heim án þess að afgreiða jafnveigamikla málaflokka og lánsfjáráætlun, vegalög og vegáætlun.

Ég sagði áðan að mér væri ekki kunnugt um að till. um þingrof hefði verið rædd í þingflokkum Alþb. og Framsfl. Ef þetta er rangt getur auðvitað hæstv. fjmrh. sagt það hér á eftir að þetta mál hafi verið rætt í þingflokki Alþb. En minn skilningur hefur verið sá í fyrsta lagi, að með málefnasamningi hafi flokkarnir þrír, sem stjórnað hafa þessu landi með talsverðum endemum á síðustu röskum þremur árum, gert með sér samkomulag um að þing yrði ekki rofið, nema með samkomulagi allra þessara þriggja aðila. Nú vil ég fá svar við því, hæstv. fjmrh., og gott væri að fá svar t.d. frá þingflokksformanni Framsfl. um það, hvort till. af þessu tagi hafi verið rædd í þessum þingflokkum og þm. þessara flokka spurðir ráða í þessu máli yfir höfuð. Ég held nefnilega að í þingflokkum beggja þessara flokka séu menn sem hugsi svipað og ég og telji það ýtrasta ábyrgðarleysi að haga störfum sínum eins og hér hefur verið ákveðið.

Ég sagði líka áðan, herra forseti, að sumum mönnum væri umhugað um að auka vald forsrh. lýðveldisins Íslands með því að aðskilja framkvæmdavald og löggjafarvald, en ég endurtek og segi: Guð hjálpi þjóðinni ef forsrh. á borð við hæstv. núverandi forsrh. sæti áfram með þvílíkt vald í höndum. Ég er sannfærður um að hér hefur valdi verið misbeitt. Það hefur verið gengið þvert á allar hefðir og allar reglur sem okkar virtustu stjórnmálamenn hafa virt í verki í þessari virðulegu stofnun um áratuga skeið. Ég er líka sannfærður um, herra forseti, að þetta, sem nú er að gerast, kórónar valdaferil hæstv. ríkisstj. og hæstv. forsrh. Þetta eru einhver undarlegustu vinnubrögð sem ég hef orðið vitni að og sem ég hef lesið um í þingsögu nokkurrar þjóðar. Þegar hæstv. forsrh. ætlar að rjúfa þing í lok þeirrar umr., sem hér á að fara fram í kvöld, er hann að brjóta hefðir þingræðis og lýðræðis. Hann er að brjóta þær hefðir sem eiga að vera heilagari en allt annað. Ég segi fyrir mig, að þessi framkoma er fyrir neðan allar hellur og ég hef það stolt fyrir hönd þessarar stofnunar að ég tel það nálgast myrkraverk þegar nokkrir ráðherrar taka sig saman um það, vegna þess að þeir óttast um ráðherrastóla sína, að rjúfa þing án þess að það hafi verið borið undir einstaka þm. í flokkum þeirra. Vera kann að þeir menn sem að þessu standa muni ekki njóta þeirrar virðingar, sem þeir vænta fyrir þessa ákvörðun, og þá er vel. Ég held að þetta mál í heild sinni sé ein versta hneisa sem þetta þing hefur orðið fyrir um langt árabil og ég lýsi ábyrgð á hendur þeim mönnum sem að þessu standa.