10.11.1982
Neðri deild: 9. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 545 í B-deild Alþingistíðinda. (319)

33. mál, neyðarbirgðir olíu

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins leyfa mér að undirstrika það sem ég sagði, að þetta lítur þannig út í mínum augum að við séum að þykjast vera stærri og meiri en við í raun og veru erum, án þess að hafa efni á. Þá á ég við þann aukakostnað sem neytendur hér á landi koma til með að standa undir eftir upplýsingum ráðh. sjálfs. En ég gat einnig um áðan, og ég bjóst við að ráðh. kæmi með svar við því, að ef af þessum samningi verður, þá eru ekki nema 15% til ráðstöfunar. 85% eru þá eftir af því sem við flytjum inn og það magn kemur frá Sovétríkjunum. Við erum þá 100% háðir olíukaupum frá Sovétríkjunum vegna okkar neyslu. Ráðh. vék ekkert að þessu, en mér datt í hug hvort tengsl gætu verið á milli þessa samnings og þess rammasamnings sem ráðh. gerði núna nýlega.