14.03.1983
Sameinað þing: 66. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 3168 í B-deild Alþingistíðinda. (3196)

Almennar stjórnmálaumræður

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Hér á Alþingi hafa tvö mál verið fyrirferðarmest í umr. undanfarna daga. Annars vegar er það till. þriggja flokka um að taka viðræðurnar við Alusuisse úr höndum iðnrh. og setja þær í hendur sérstakrar nefndar, sem kjörin sé á breiðum grundvelli. Hitt er till. þriggja flokka um að Alþingi komi saman ekki síðar en 18 dögum eftir næstu kosningar.

Um báðar þessar tillögur hefur orðið mikið málþóf hér á Alþingi. Alþb. hefur þæft álmálið, en Framsfl. hefur þæft till. um að þingið skuli koma saman. Nú liggur ljóst fyrir að þessir flokkar hafa nú sameinast í því að koma í veg fyrir að þessar tillögur verði afgreiddar hér á Alþingi.

Það liggur ljóst fyrir að þingið mun verða rofið hér í kvöld. Um það heyrðu þm. í útvarpinu í hádegi. Um það var ekkert samráð haft við stjórnarandstöðu. Með því er beitt bolabrögðum til að koma í veg fyrir að tveimur mikilvægum málum verði ráðið til lykta hér á Alþingi — málum sem vitað er að meiri hluti er fyrir.

Till. um meðferð álmálsins er mjög sérstök. Það er einstakt að mikill meiri hl. Alþingis sameinist í því að flytja vantrauststill. á einn ráðh. í því formi sem hér hefur verið gert. Þó að Alþb. ætli að takast að koma í veg fyrir samþykkt þessarar till., m.a. með því að beita bolabrögðum og með því að misnota þingsköp, en hæstv. iðnrh. talaði m.a. í fimm klukkutíma hér aðfaranótt laugardags, er vitað að mikill meiri hl. Alþingis treystir ekki þessum hæstv. ráðh. til þess að leiða þetta mál eða nokkuð annað til lykta. Afrek Alþb. í iðnaðar- og orkumálum liggja í löngum ræðum og þykkum skýrslum og heldur hefur okkur miðað aftur á bak en áfram í þessum mikilvæga málaflokki.

Til marks um mikilvægi orkufreks iðnaðar fyrir þjóðarbúið má nefna að útflutningsverðmæti framleiðslunnar úr iðjuverunum undanfarin ár hafa verið meiri að verðmæti en síldar- og loðnuafli landsmanna og það á einnig við um þau ár þegar loðnuaflinn var hvað mestur. Nú hefur afli loðnunnar minnkað og það er talinn mikil héraðsbrestur í okkar efnahagslífi. Þessi samanburður sýnir með öðru, hversu mikilvæg stoð hinn orkufreki iðnaður er þegar orðinn í atvinnulífi og lífskjörum okkar landsmanna. Því meiri ástæða er til að taka þessi mál föstum og jákvæðum tökum, en það hefur gersamlega mistekist hjá Alþb.

Hitt málið, sem ég gat um, er ekki síður sérkennilegt. Framsfl. hamast gegn því af öllum mætti að Alþingi fái að koma saman sem fyrst eftir kosningar. Í till. um samkomudag Alþingis felst ekki að efna eigi til annarra kosninga. Við sjálfstæðismenn viljum hins vegar ekki útiloka þann möguleika, eins og ávallt hefur verið þegar kjördæmabreyting hefur átt sér stað. Hitt er óskiljanlegt, að Framsfl. skuli ekki vilja að Alþingi komi saman sem fyrst eftir kosningar til að takast á við vanda efnahagslífsins. Það verður ekki skýrt með neinum öðrum hætti en þeim, að Framsfl. hyggist sitja áfram í sömu ríkisstj. og stjórna með brbl. til hausts eða þar til nýtt Alþingi kemur saman hinn 10. okt. Enginn tekur mark á yfirlýsingum hæstv. ráðh. Steingríms Hermannssonar um að hann telji rétt að stjórnin segi af sér eftir kosningar. Yfirlýsingar hans eru yfirleitt marklausar. Það veit þingið og það veit þjóðin.

Það er ekkert ábyrgðarleysi fólgið í því, þvert á móti, að vilja kalla Alþingi saman sem fyrst eftir kosningar. Ábyrgðarleysið er fólgið í því að þessi ríkisstj. skuli hafa stritast við að sitja í allan vetur, getulaus, hugmyndalaus og án alls frumkvæðis. Stjórnarandstaðan hefur ekki brugðið fæti fyrir neitt mál þessarar ríkisstj. Málin hafa strandað á innbyrðis sundrungu ríkisstj.-flokka.

Á tímum upplausnar, eins og þeim sem núv. ríkisstjórn hefur skapað, er hætta á að fólk fari að leita að töfralausnum á vandamálum þjóðfélagsins. Nýir stjórnmálaflokkar eru stofnaðir, nýir framboðshópar spretta upp, allir með töfrasprotann á lofti. Reynslan alls staðar sýnir að slíkt skapar ringulreið og vitleysu í þjóðfélaginu. Allir þekkja Weimarlýðveldið, sem var undanfari Hitlers-Þýskalands, og allir þekkja ringulreiðina í ýmsum löndum Suður-Evrópu. Í þessum jarðvegi sprettur upp hv. þm. Vilmundur Gylfason og stofnar utan um sig stjórnmálaflokk. Töfralausn hans er að breyta stjórnskipulaginu, afnema þingræðið, slíta á tengsl milli þings og stjórnar, eins og í Bandaríkjunum og í Frakklandi. Ég vara við þessum hugmyndum, sem felast í aðatstefnumáli Bandalags jafnaðarmanna.

Í fyrsta lagi væri með þessu verið að safna meiri völdum á hendur eins manns en nokkur dæmi eru til að gert hafi verið áður hér á Íslandi.

Í öðru lagi er mikil hætta á árekstrum milli þings og stjórnar. Það er ekkert líklegra en að þing vilji fara eina leið, stjórnin aðra, þegar verið er að leysa mikil vandamál. Þetta kerfi býður því upp á stórfelldari þjóðfélagsátök en nokkur dæmi eru til um hér á Íslandi.

Þessi till. felur í þriðja lagi í sér að embætti forseta Íslands yrði lagt niður, enda yrði það óþarft.

Í fjórða lagi tengist þessi till. hugmyndum um hinn sterka mann, og slíkan hugsunarhátt ber að varast. Þessar tillögur bandalagsflokksins leysa engan vanda. Þær magna hann frekar.

Við Íslendingar þurfum öðrum fremur að sameinast í því að vinna okkur út úr vandanum. Sjálfstfl. er reiðubúinn til að taka forustu í því að leiða þjóðina frá upplausn til ábyrgðar. Nú verður að breyta til. Kostirnir eru aðeins tveir: Óbreytt ástand undir forustu vinstri flokkanna, sama hvaða nafni þeir heita, eða breyting til hins betra undir forustu Sjálfstfl.