14.03.1983
Sameinað þing: 66. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 3174 í B-deild Alþingistíðinda. (3200)

Almennar stjórnmálaumræður

Guðmundur Bjarnason:

Góðir áheyrendur. Störf þess þings, sem nú er senn að ljúka, hafa verið með nokkuð sérkennilegum hætti og seinustu dagana hafa þau því miður verið nánast með eindæmum. Nýr meiri hl. hefur myndast um þáltill. sem kveður á um samkomudag Alþingis í maíbyrjun. Till. þessi er alger sýndarmennska. Yfirskinið er að takast á við efnahagsmál að loknum kosningum, en tilgangurinn sá einn að knýja á um nýjar síðar í sumar til að endurreisa á þingi fallkandídata úr fyrri kosningum, þingflokksformenn Alþb. og Sjálfstfl., sem óttast nú mjög um sinn hag og ganga þessa dagana sem trúlofaðir um sali Alþingis. Það er því að vonum að till. þessari hafi verið gefið nafnið hringavitleysa.

Hvort á heldur að sitja í fyrirrúmi, nýjar kosningar og stjórnarfarsleg sjálfhelda fram í ágúst eða jafnvel sept. að tillögu Alþb. og Sjálfstfl. eða uppbygging atvinnulífs og úrbætur í efnahagsmálum, eins og við framsóknarmenn leggjum til?

Kjörtímabilinu er að ljúka. Stjórnvöldum hefur tekist að koma áfram ýmsum mikilvægum framfaramálum. Ég vil nefna samgöngumálin. Miklar framkvæmdir hafa verið í vegámálum og bundið slitlag lagt á fleiri km en nokkru sinni fyrr. Bundið slitlag er nú á um það bil 600 km vega og þar af hafa fast að 400 km verið lagðir á seinustu þremur árum, í tíð Steingríms Hermannssonar samgrh., og áætlað er að bæta 150 km við í sumar.

Þessar framkvæmdir spara bifreiðaeigendum stórfé í lækkuðum rekstrarútgjöldum.

Einnig má nefna lagningu sjálfvirks síma í sveitum, sem miðað hefur vel áfram, og í dag samþykkti Alþingi till. okkar framsóknarmanna um að ljúka við rafvæðingu dreifbýlis á næsta ári.

Þá hafa miklar framkvæmdir átt sér stað í hafnargerð, byggingu skólamannvirkja, ýmissa menningarstofnana, svo sem útvarpshúss, þjóðarbókhlöðu og heilbrigðisstofnana, svo að eitthvað sé nefnt af hinum fjölmörgu framfaramálum.

Því miður hefur ekki tekist jafnvel til á öllum sviðum. Við höfum orðið undir í glímunni við verðbólguna. Er þar að sjálfsögðu ýmsu um að kenna, en ekki síst því, að samstarfsaðilar okkar hafa ætíð færst undan, dregið úr og ekki þorað að taka á málum. Afleiðingar þess koma víða við. Raforkuverð hefur farið upp úr öllu valdi og er nú nánast óbærilegt þeim sem þurfa að hita upp hús sín með rafmagni. Mikil verðbólga, dýrar orkuframkvæmdir og erlendar lántökur eiga auðvitað sinn þátt í því hvernig komið er. En mestu munar þó um að iðnrh. Hjörleifi Guttormssyni hefur ekki tekist að ná fram hækkun á orkuverði til stóriðju. Hvort hér er um að kenna getuleysi eða viljaleysi hæstv. ráðh. skal ósagt látið, en ljóst er að ekki verður lengur við unað og eitt af brýnustu verkefnum nýrra stjórnvalda er að jafna orkukostnaðinn, ef ekki á að leiða til stórfelldrar byggðaröskunar.

Þá hefur verðbólgan orðið húsbyggjendum þung í skauti og forusta félmrh., Svavars Gestssonar, ekki dugað til að leysa þau vandamál sem þar blasa við, einkum hjá ungu fólki og þeim sem byggja eða kaupa húsnæði í fyrsta sinn. Við framsóknarmenn höfum lagt til að mæta þörfum þessa fólks með hærri lánum og lengri lánstíma auk þess sem við höfum lagt áherslu á mikilvægi byggingarsamvinnufélaga.

Senn verður gengið til kosninga. Framsfl. leggur til að eftir kosningar verði tekið á hinu alvarlega ástandi í efnahagsmálum af festu — festu sem nær tökum á verðbólgunni, festu sem rýfur þann vítahring verðtags og kaupgjalds sem nú er nánast lögbundinn og ekki er lengur nein trygging fyrir það fólk sem helst þarf á vernd að halda heldur þvert á móti magnar verðbólguna og skerðir á þann hátt mest hlut þess sem vernda átti. Af festu verði tryggð undanbragðalaus niðurtalning verðbólgunnar.

Síðan viljum við framsóknarmenn leggja áherslu á sókn — sókn sem tryggi og treysti undirstöður atvinnuveganna og fjölbreytni atvinnulífsins þannig að allar vinnufúsar hendur fái verk við hæfi og atvinnuleysisvofunni verði bægt frá. Með nýrri sókn þarf að efla og styrkja hefðbundnar atvinnugreinar og skapa nýjar.

Með þessu viljum við framsóknarmenn búa þjóðinni framtíð — framtíð sem áfram tryggir börnum okkar og komandi kynslóðum þau lífskjör sem við nú búum við. Við viljum vara við og minna á að það er ekkert sjálfsagt mál að svo verði ætíð. Í nágrannalöndum okkar ríkir víða alvarlegt ástand, þar sem hörmungar atvinnuleysis hafa haldið innreið sína. Gegn slíku ástandi verðum við að berjast.

Með festu í efnahagsmálum og sókn í atvinnulífi viljum við framsóknarmenn tryggja þá framtíð sem felur í sér áframhaldandi velmegun, efnahagslegt sjálfstæði og jöfnuð í þjóðfélaginu. — Ég þakka áheyrnina.